Ræða á fundi Viðskiptaráðs og Íslandsbanka um samkeppnishæfni Íslands, 29. maí 2019.
Góðir gestir.
Það er mér sönn ánægja að ávarpa þennan fund Viðskiptaráðs og Íslandsbanka um samkeppnishæfni Íslands.
Samkeppnishæfni er dálítið merkilegt hugtak, vegna þess að í mínum huga er hún bæði tæki til að ná markmiði – og markmið í sjálfu sér.
Lokatakmarkið, hvert er það? – Jú, það er að búa til gott samfélag. Samfélag sem fólk telur eftirsóknarvert og vill búa í, þar sem saman fara góð lífskjör og mikil lífsgæði.
Það má því segja að lokatakmarkið sé að gera samfélagið í heild sinni samkeppnishæft í alþjóðlegri keppni allra samfélaga um að hámarka lífskjör og lífsgæði íbúanna.
Það er hin endanlega samkeppnishæfni sem þetta snýst um þegar öllu er á botninn hvolft.
En til þess að ná þessu marki þurfum við að vera samkeppnishæf á mörgum einstökum sviðum. Og það er líklega sú samkeppnishæfni sem oftast er rætt um í daglegu tali. Samkeppnishæfni á einhverju tilteknu þröngu sviði.
Skattaumhverfi, menntakerfi, laun, verðlag, aðgengi að fjármagni, ívilnanir og hvatar hins opinbera, regluverk, dómskerfi, öryggi, umhverfi, menning og aðrir félagslegir þættir – við þurfum að vera samkeppnishæf á sem flestum þessum sviðum og miklu fleirum.
Í árlegri skýrslu IMD viðskiptaskólans um samkeppnishæfni, sem kynnt verður hér á eftir, er viðfangsefninu skipt í fjóra yfirflokka, sem eru: efnahagslíf, stjórnkerfi, viðskiptalíf og innviðir.
Undir þessum yfirflokkum eru fjölmargir einstakir mælikvarðar. Í fljótu bragði sýnist mér þeir vera tæplega fjögur hundruð.
Þetta ætti því að vera býsna marktækur samanburður. Engu að síður eigum við alltaf að vera vakandi gagnvart því hvort einstakir liðir gefi rétta mynd af stöðu okkar. Ísland hefur til dæmis töluverða sérstöðu hvað varðar lífeyriskerfið, sem hugsanlega skekkir alþjóðlegan samanburð á skattbyrði, því vel má færa rök fyrir því að lögbundin iðgjöld í sameignarsjóði séu ígildi einhvers konar skattheimtu þegar svona samanburður er annars vegar.
Stærð heimamarkaðar er annar algengur mælikvarði í mælingum á samkeppnishæfni, og dregur okkar fámenna land að sjálfsögðu niður. En mér finnst áhugaverð spurning hvort það sé eðlilegt að heimamarkaður okkar sé talinn vera 300 þúsund manns; spyrja má hvort hann ætti ekki frekar að vera 300 milljónir. Við erum jú hluti af innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og það má vel færa rök fyrir að það viðmið gefi ekkert síðri mynd af okkar stöðu en að miða við 300 þúsund manns.
Mér finnst líka athyglisvert að enginn af þessum tæplega fjögur hundruð mælikvörðum lýtur með beinum hætti að þeim lífsgæðum sem felast í framboði af menningu, og heldur enginn sem lýtur með beinum hætti að félagslegu öryggisneti, nema þá helst lauslega að því er varðar heilbrigðisþjónustu.
Þó eru þarna ýmsir „mjúkir“ mælikvarðar ef svo má segja, til dæmis um kynjajafnrétti, tekjujöfnuð og umhverfismál. En framboð af menningu og félagslegt öryggisnet eru tveir mikilvægir þættir sem virðast almennt ekki eiga upp á pallborðið í skýrslum um samkeppnishæfni, öfugt við heilbrigðismál, menntamál, jafnréttismál og umhverfismál.
Það skiptir máli að velta þessu fyrir sér vegna þess að lokatakmarkið, eins og ég gat um í upphafi, er að samfélagið í heild sinni sé samkeppnishæft, þannig að fólki finnist gott að búa hér.
Svarið getur ekki verið á þá leið að hér sé eingöngu verið að mæla þætti sem gera samfélaginu kleift að framleiða verðmæti og arð. Vegna þess að til þess að framleiða verðmæti og arð þarf framúrskarandi fólk, og til þess að við höfum framúrskarandi fólk þurfum við að bjóða upp á sem allra flest af þeim lífsgæðum sem fólki þykja eftirsóknarverð.
Mannauðurinn er jú réttilega ein af þeim fjórum framtíðarlinsum sem Viðskiptaráð hefur skilgreint sem lykil-viðfangsefni, og raunar það málefni sem hlýtur sérstaka áherslu einmitt á þessu ári. Við þurfum ekki bara að þroska mannauð með góðri menntun, og viðhalda honum með góðu heilbrigðiskerfi, heldur halda í hann og laða hann til okkar með góðu framboði af þeim lífsgæðum sem fólk sækist eftir í daglegu lífi.
Fyrir nokkrum dögum setti Guðmundur Hafsteinsson, vöruþróunarstjóri hjá Google, færslu inn á Facebook þar sem hann sagði að Ísland væri besti staður í heimi til að búa á.
Tilefnið var verðlaunaafhending Verksmiðjunnar, sem er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13 til 16 ára, þar sem Guðmundur sat í dómnefnd. Færsla hans gekk út á að aukin áhersla á nýsköpun hjá ungu fólki væri besta leiðin til að tryggja að Ísland yrði áfram besti staður í heimi til að búa á.
Það er dálítið athyglisvert að samfélagið hér á litla Íslandi fái þessa einkunn hjá manni sem hefur lengi búið á einum vinsælasta stað heims fyrir frumkvöðla, við störf sem þykja einhver þau mest spennandi, hjá fyrirtækjum sem eru á meðal þeirra virtustu og vinsælustu.
Ég hef sjálf ákveðna skoðun á því hvers vegna mér finnst að Ísland eigi þessa einkunn fyllilega skilið. En ég var forvitin að vita hvaða svör Guðmundur gæfi við því, og ákvað því að spyrja hann og fékk leyfi til að deila svarinu með ykkur.
Hann nefnir fyrst að við búum við ótrúlegt frelsi hérna á Íslandi sem einstaklingar. Frelsi fyrir börnin okkar til að fara um án þess að óttast neitt. Frelsi til að vinna saman og nota sterku tengslin sem lítið þjóðfélag býður upp á og bjóðast ekki í stærra samfélagi. Frelsi til að vera við sjálf án ótta við ofsóknir.
Í öðru lagi nefnir hann að við höfum ótrúlega sterkt öryggisnet. Augljóslega í formi heilbrigðisþjónustu og annarrar opinberrar þjónustu, en líka hvað varðar fjölskyldutengsl og hversu náin við erum hvert öðru, vegna þess hve við erum fámenn, sem er styrkleiki okkar umfram aðrar þjóðir að þessu leyti.
Í þriðja lagi erum við nýjungagjörn, framsýn og viljum betri heim, segir hann. Við erum opin fyrir breytingum, samþykkjum að heimurinn er alltaf að breytast, og skiljum að það er okkar að passa að breytingar séu til bóta í stað þess að berjast gegn þeim.
En ástæðan fyrir því að þessar vangaveltur komu upp í hugann á nýsköpunarkeppni ungs fólks er sú, segir Guðmundur, að þessir ótvíræðu kostir sem við njótum umfram aðrar þjóðir eru ekki sjálfgefnir og við þurfum að hlúa að þeim til að komandi kynslóðir njóti þeirra líka.
Við gætum misst frelsið.
Við gætum misst sjónar á hvað öryggisnetið gefur okkur mikil tækifæri til að taka áhættu og reyna nýja hluti án þess eiga .
Og við gætum lotið í lægra haldi fyrir hræðsluáróðrinum sem hávær minnihluti magnar upp á samfélagsmiðlum, en þá myndum við missa af tækifærinu til að skapa framtíðarþjóðfélagið sem svo mikil þörf er fyrir.
Nýsköpun á grunni verkvits, hugvits og viðskiptavits, spornar gegn þessum ógnum segir Guðmundur og við erum í einstakri stöðu til að standast þessa raun því við erum lítil þjóð, getum hreyft okkur hratt og vinnum vel saman þegar á reynir.
Ég tek heilshugar undir þessa greiningu og ég vek sérstaka athygli á því að félagslegir og samfélagslegir þættir skipta hér sköpum. Öryggi fyrir börnin okkar að vera úti að leika sér. Smæð samfélagsins sem býr til sterk félagsleg tengsl. Samtryggingarkerfi sem styður við bakið á okkur ef við hrösum eða verðum fyrir áföllum.
Þessir þættir eru lítið sem ekkert mældir þegar samkeppnishæfni er metin, en skipta þó sköpum um hvar fólk vill búa – fólkið sem myndar mannauðinn, sem er lykillinn að samkeppnishæfni.
Ég myndi sjálf bæta nokkrum þáttum við, eins og jafnréttismálum, en eins og ég nefndi í upphafi er jákvætt að byrjað er að taka þau með í reikninginn í rannsóknum eins og þeirri sem kynnt er hér í dag.
Góðir gestir.
Þó að ég noti hér tækifærið til að horfa á viðfangsefni dagsins frá dálítið óvenjulegu sjónarhorni vil ég taka skýrt fram, að að sjálfsögðu verðum við áfram að leggja áherslu á alla hefðbundnu þættina; regluverkið, skattana, starfsumhverfið, menntunina og svo framvegis og svo framvegis. Sú ræða hefur verið haldin oft áður og hún á ennþá vel við. Þið megið alls ekki draga þá ályktun að ég vilji leggja minni áherslu á þá þætti, síður en svo.
Eins og þið vitið er mótun fyrstu heildstæðu nýsköpunarstefnunnar fyrir Ísland langt komin og þar verður vikið að þessu öllu með heildstæðum hætti.
Ég hlakka til að kynna mér betur skýrsluna sem hér verður kynnt, og til að eiga áfram samstarf við Viðskiptaráð og aðra um að bæta samkeppnishæfni Íslands. Kyrrstaða jafngildir afturför þannig að við verðum sífellt að stefna hærra og hærra, og það gerum við svo sannarlega.