Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Aðgerðir til að jafna aðstöðumun

Ræða á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, 12. október 2018.

Kæru fundargestir.

Það er mér ánægja að vera hér með ykkur í dag.

Sem ráðherra orkumála hef ég í ráðherratíð minni átti góða fundi með ykkar samtökum þar sem farið verið hefur yfir stöðu orkumála á köldum svæðum. Ég vil fá að þakka ykkur fyrir gott samstarf og samráð sem við höfum átt til að reyna að þoka þessum málum til betri vegar.

Við vitum að talsverður munur er á orkukostnaði eftir landsvæðum og hann hefur farið vaxandi. Húshitunarkostnaður er mun hærri hjá þeim 10% landsmanna sem ekki búa við hitaveitu, og þurfa að notast við rafhitun, og hins vegar er dreifikostnaður raforku talsvert hærri í dreifbýli en þéttbýli.

Hár húshitunarkostnaður sem um 10% landsmanna býr við hefur stuðlað að búseturöskun og veikt viðkomandi samfélög. Þessi þungi kostnaðarliður er í raun ávísun á lakari lífskjör og letur því fólk til búsetu á þessum svæðum.

Þessir málaflokkar, það er að segja annars vegar niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar, ásamt stofnstyrkjum til nýrra hitaveitna, og hins vegar jöfnun dreifikostnaðar raforku, eru á meðal stærstu fjárlagaliða sem heyra undir mig og nema samtals tæpum 3 milljörðum króna á ári. Það hefur verið forgangsmál hjá okkur að standa vörð um þessa fjárlagaliði við gerð fjármálaáætlunar, bæði núna í ár og undanfarin ár, og það hefur heldur verið bætt í þá frekar en hitt.

Ég er hins vegar fyllilega meðvituð um að þrátt fyrir þessi framlög á fjárlögum þá er verk að vinna í að bæta stöðu en íbúar á köldum svæðum búa við í dag. Að því er unnið innan míns ráðuneytis á ýmsum stöðum.

Fyrst ber að nefna starfshóp um mótun langtíma-orkustefnu fyrir Ísland. Sá hópur, sem er skipaður fulltrúum allra þingflokka, tók til starfa í maí á þessu ári og í skipunarbréfi hans er meðal annars sérstaklega komið mikilvægi þess að orkustefna styðji við markvissa byggðastefnu og jákvæða byggðaþróun. Í því skyni þurfi m.a. að skoða jöfnun orkukostnaðar milli landsvæða, niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar á köldum svæðum, varmadæluvæðingu, hvernig unnt sé að efla smávirkjanir og aðrar staðbundnar lausnir á sviði orkumála, og að landsmenn sitji við sama borð þegar kemur að afhendingaröryggi raforku.

Mig langar að nefna að ég tel mikil sóknarfæri falin í varmadælum. Í nýlegri fimm ára fjármálaáætlun, og í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2019, er undir málefnasviði orkumála að finna sérstaka aðgerð um „varmadæluvæðingu á stórum og smáum skala á köldum svæðum“ til að draga úr raforkunotkun.

Við höfum þegar séð vel heppnaða útfærslu á þessu með varmadælunni sem sett hefur verið upp í Vestmannaeyjum. Ríkið kom að þeirri framkvæmd með 300 milljóna króna stuðningi, enda var búið að sýna fram á að framkvæmdin væri þjóðhagslega hagkvæm og borgaði sig upp á nokkrum árum, með tilheyrandi jákvæðum umhverfislegum, efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum.

Nú er til skoðunar hvar sambærileg tækifæri eru fyrir hendi annarsstaðar á landinu. Til dæmis hefur starfshópur verið að meta möguleika á miðlægri varmadælu fyrir Seyðisfjarðarkaupstað, til að leysa úr þeim vanda sem þar blasir við varðandi húshitun. Niðurstöðu af því starfi er að vænta öðru hvoru megin við áramót og hefur ráðuneytið styrkt óháða úttekt á stöðu mála þar.

Ég tel að það væri bæði farsælt og nauðsynlegt að fá Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum í nánara samstarf við ráðuneytið við útfærslu á varmadæluverkefninu, sem er eins og áður segir sérstaklega tilgreint sem verkefni í frumvarpi til fjárlaga og í fimm ára fjármálaáætlun.

Greina þarf betur hvaða staðir geti komið þar til greina, og kostnaðarmeta slíkar framkvæmdir að teknu tilliti til þjóðhagslegrar hagkvæmni til lengri tíma. Ég geri það hér með að tillögu minni að við förum saman í þetta verkefni og varpa því boði hér með yfir til ykkar.

Að sama skapi tel ég mikilvægt að Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum komi sínum sjónarmiðum með afdráttarlausum og virkum hætti á framfæri við vinnu að gerð langtíma orkustefnu. Gert er ráð fyrir að vinnu orkustefnuhópsins ljúki í upphafi árs 2020 og framundan er víðtækt samráð við hagsmunaaðila og samfélagið allt. Ykkar aðkoma mun verða tryggð og ein leið sem rædd hefur verið í því samhengi væri að skipa undirhóp með fulltrúum ykkar, ráðuneytisins og ef til vill fleiri aðila, til að undirbúa innlegg ykkar samtaka. Slíkur undirhópur gæti skilgreint hagsmunina betur, kortlagt vandann og lagt fram tillögur að lausnum.

Fyrirséð er að orkustefnunni muni fylgja aðgerðaáætlun og mikilvægt er að í henni verði markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að jafna enn frekar húshitunarkostnað á köldum svæðum og draga úr rafhitun húsnæðis eftir því sem kostur er.

Kæru fundargestir.

Við höfum stigið ákveðin skref undanfarin ár í þá átt að jafna orkukostnað eftir landsvæðum, og þar með búsetuskilyrði. Í stjórnasáttmála ríkisstjórnarflokkanna er að finna áherslur um að gera enn betur í þeim efnum og að því munum við vinna á kjörtímabilinu, eins og ég hef hér aðeins komið inn á í stuttu máli.

Við munum því þurfa að stóla áfram á farsælt samstarf og samráð við ykkar samtök á næstu árum og ég treysti því að svo muni verða og hlakka til þess.

Takk fyrir.