Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Draumaland nýsköpunar

Ræða á Nýsköpunarþingi, 30. mars 2017.

Kæru gestir

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá að ávarpa Nýsköpunarþing 2017. Það er mikilvægt fyrir mig að fá tækifæri til að kynnast málefnum nýsköpunar með beinni þátttöku í þinginu og fræðast um það sem er efst á baugi á þessum vettvangi.

Yfirskrift Nýsköpunarþingsins í ár er „Draumaland nýsköpunar“. Ég reikna með að hér sé velt upp þeirri framtíðarsýn að Ísland geti orðið draumaland nýsköpunar og jafnframt sé kallað eftir hugmyndum um hvað þurfi að gera til að svo verði.

Frá mínum bæjardyrum séð getur Ísland vel orðið draumaland nýsköpunar, og ég tel að okkur hafi miðað talsvert í þá átt á seinustu árum.

Grundvöllur slíkrar þróunar er sá frumkvöðlakraftur sem býr með þjóðinni. Við sáum þann kraft mjög skýrt í kjölfar efnahagshrunsins, þegar gengisfelling, gjaldþrot fyrirtækja og atvinnuleysi snerti hag flestra með einhverjum hætti, meðal annars margt af okkar efnilegasta unga fólki.

Þegar litið er til baka vekur athygli að á þeim tíma þegar útlitið var sem dekkst steig fram hópur ungs fólks sem ákvað að takast á við ný og krefjandi verkefni sem frumkvöðlar og stofna sprotafyrirtæki um ferskar nýsköpunarhugmyndir.

Stór hluti þessa hóps fékk inni á frumkvöðlasetrum sem gagngert voru stofnuð til að mæta aukinni þörf fyrir þjálfun nýrra frumkvöðla. Það er athyglisvert að á sama tíma og samdráttur varð í flestum greinum atvinnulífsins varð aukning í hópi frumkvöðla og sprotafyrirtækja. Þessi fjölgun var hvergi sambærileg í öðrum löndum, sem segir sína sögu um stöðu okkar. Mörg sprotafyrirtæki sem þá urðu til hafa síðan fengið byr undir báða vængi og eru nú mikilvægir þátttakendur í þekkingarsamfélaginu. Þekkingarfyrirtækið Nox Medical, sem hlaut nýsköpunarverðlaunin árið 2010, er dæmi um fyrirtæki sem náðu sér verulega á skrið á þessum árum – og hugbúnaðarfyrirtækið Kvikna er dæmi um eljusemi fjögurra fyrrum bankamanna sem gerðust frumkvöðlar á ögurstundu.

Þau tímamót hraðfara tæknibreytinga sem við upplifum nú skapa einnig jákvæðar forsendur fyrir draumalandið – meðal annars vegna þess að breytingar skapa tækifæri, en stöðnun síður.

Við stöndum nú í anddyri nýrra tíma – frammi fyrir ótal áskorunum sem munu hafa áhrif á lífsmáta okkar, vinnuumhverfi og samskipti okkar á milli. Þótt við sjáum ef til vill ekki á skýran hátt hverjar afleiðingar breytinganna verða, þá virðist mér nokkuð ljóst, að til þess að ávinningurinn verði sem mestur fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf þurfum við að hafa samvinnu og sameiginlega sýn um það hvernig við tökumst á við breytingarnar. Þátttakendur í þeirri sameiginlegu vegferð þurfa að vera allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta, jafnt opinberir aðilar sem einkaaðilar, háskólasamfélagið og félagasamtök.

Á fundi Vísinda- og tækniráðs sem haldinn var fyrr í þessum mánuði var meðal annars rætt um helstu áskoranir næstu ára og áratuga. Stefnt er að því að starfsnefndir ráðsins geri tillögur um þessar áskoranir fyrir næsta fund þess í sumar.

Það vill svo til að í umræðu um málið var einmitt sett fram hugmynd um „Nýsköpunarlandið Ísland“, sem er náskyld yfirskrift þessa Nýsköpunarþings. Bent var á að til þess að slíkt heiti eða hugmynd yrði eitthvað meira en innihaldslaus orð þyrftu athafnir að fylgja orðum. Til að stuðla að því mætti hugsa sér að hugmyndin yrði grunnstef í stefnumótun, bæði opinberri stefnumótun, stefnumótun atvinnulísins og annarra sem láta sig málið varða. Þá yrði innleiðing stefnumótunar um „Nýsköpunarlandið Ísland“ að verða miðlæg innan Stjórnarráðssins.

Þótt þessi hugmynd um nýsköpunarlandið hafi enn ekki verið leidd til lykta innan Vísinda- og tækniráðs er líklegt að hún komi þar upp síðar. Ég tel víst að starfsnefndir ráðsins fari ofan í saumana á þessari hugmynd og leggi jafnvel til útfærslur á henni.

Ég hef tekið eftir því góða og árangursríka starfi sem leitt hefur af svo kölluðu klasasamstarfi. Þótt slíkt samstarf eigi sér alllanga sögu hér á landi er það ekki fyrr en Michael Porter og samstarfsmenn hans við MIT-háskólann í Boston tóku jarðhitanýtingu okkar og tengd umsvif til skoðunar, að augu okkar opnuðust fyrir alvöru fyrir þeim gríðarlegu möguleikum sem slíkt samstarf gæti leitt af sér.

Í framhaldi af úttektinni lögðu Porter og félagar til að okkar færa vísinda-, tækni- og viðskiptafólk legði saman krafta sína og stofnaði jarðhitaklasa. Þetta var árið 2010. Tveimur árum síðar varð Sjávarútvegsklasinn til og Jarðhitaklasinn 2013. Síðan þetta varð hafa þessir tveir klasar verið fyrirmyndir að stofnum annarra klasa sem unnið hafa á landsvísu – einskonar landsklasar þar sem dregnir eru saman helstu áhrifaaðilar af öllu landinu. Síðan hafa nokkrir landsklasar bæst við, eins og til dæmis „Íslenski ferðaklasinn“.

Það sem einkum hefur einkennt klasana er að þeir eru flestir byggðir upp í kringum auðlindanýtingu með beinum eða óbeinum hætti. Það sem nú vantar til að mæta þeim nýju áskorunum sem við stöndum frammi fyrir er að sameina krafta okkar á sviði hugverka- og tæknigreina og meta ávinning þess að stofna landsklasa um tilekin fræðasvið – sem til dæmis tengjast íslenskum hagsmunum vegna „fjórðu iðnbyltingarinnar“. Mér finnst ástæða til að skoða hvort slíkur klasi hugverka- og tæknigreina sé eitt af því sem við gætum gert til að stuðla enn frekar að því að Ísland verði draumaland nýsköpunar.

Góðir fundarmenn

Stjórnvöld hafa unnið markvisst að því að styrkja umhverfi nýsköpunar og þróunarstarfs hér á landi.

Árangurinn af því er meðal annars rakinn í nýlegri skýrslu frá stjórn Samtaka sprotafyrirtækja, en í henni kemur fram að á árunum 2015 og 2016 varð jákvæð þróun í níu af tíu helstu stefnumálum Samtakanna. Stjórnvöld eiga þar ekki allan heiður, en umtalsverðan þó. – Á meðal jákvæðra breytinga sem þarna eru nefndar eru skattaafsláttur til einstaklinga vegna hlutafjárkaupa í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum; hækkun á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar; og ný lagaumgjörð um sprotafyrirtæki sem auðveldar stofnun þeirra og lækkar kostnað.

Í sömu skýrslu er greining á tíu helstu stefnumálum Hátækni- og sprotavettvangs, og þar er niðurstaðan sú að á árinu 2016 varð jákvæð þróun í þeim öllum. Nefnd eru framfaraskref á borð við skattalega hvata fyrir erlenda sérfræðinga; stóraukin framlög í Tækniþróunarsjóð; rýmkun heimilda vegna kaupréttarsamninga; breyttar reglur um skattlagningu á umbreytanlegum skuldabréfum, sem gera miklu ákjósanlegra en áður að nota þessa leið til að fjármagna sprotafyrirtæki á fyrstu stigum þeirra; og rýmkaðar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í óskráðum fyrirtækjum.

Margar þeirra breytinga sem hér hafa verið nefndar komu til sögunnar með nýjum nýsköpunarlögum sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar.

Fjármögnunar- og rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hefur því verið í mikilli þróun hér á landi og sú þróun heldur áfram. Ánægjulegt er að sjá að sífellt fleiri fagfjárfestar gefa þessum geira gaum. Ljóst er að vatnaskil urðu árið 2015 þegar á skömmum tíma komu til sögunnar sjóðir á borð við Frumtak 2, Brunn og Eyri Sprota, en með þessum þremur sjóðum komu yfir 11 milljarðar „á götuna“ ef svo má segja, nánast á einu bretti. Þátttaka lífeyrissjóða skipti þarna sköpum.

Stóraukin framlög til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs hafa einnig stuðlað að því að meiri skriður hefur komist á fjármögnun rannsókna- og þróunarverkefna. Ef við lítum á stóru útgjaldaliði fjárlaga sjáum við að tveir stærstu samkeppnissjóðirnir – Rannsóknarsjóður sem heyrir undir menntamálaráðherra og Tækniþróunarsjóður sem ég ber ábyrgð á – fá samtals tæplega 5 milljarða á þessu ári. Til viðbótar má nefna styrki vegna endurgreiðslu rannsókna- og þróunarverkefna nýsköpunar-fyrirtækja en framlög til þeirra eru 2,4 milljarðar á árinu. Að auki eru lægri framlög eins og til Innviðasjóðs, AVS-sjóðs um aukið verðmæti sjávarfangs, markáætlunar á sviði vísinda og tækni, og vegna atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.

Talið er að nú nemi samanlögð framlög ríkis og fyrirtækja til rannsókna og þróunar um 2,2% af vergri landsframleiðslu. Það er í sjálfu sér ekki slæm staða. Vísinda- og tækniráð hefur þó lagt áherslu á að þetta hlutfall vaxi í 3% á nokkrum árum, og víst er að það myndi færa okkur ennþá nær hugmyndinni um „Draumaland nýsköpunar“. Til að styðja okkur til góðra verka í þessum efnum og færa okkur vopnin sem þarf til að tryggja aukin framlög – í harðri samkeppni við marga aðra málaflokka – væri æskilegt að ráðast í greiningarvinnu til að sýna fram á hver væri líklegur ávinningur af því að ná þessu takmarki.

Ég vil að lokum þakka Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins fyrir að standa enn og aftur fyrir Nýsköpunarþingi. Ég hlakka mjög mikið til að hlýða á áhugaverð erindi sem hér verða flutt, og ég er viss um að þau munu gefa okkur leiðbeiningu og innblástur um það hvernig við getum gert enn betur.

Takk.