Ræða á ársfundi Orkustofnunar, 15. október 2020.
Kæru ársfundargestir, það er mér ánægja að ávarpa ykkur í dag og opna ársfund Orkustofnunar.
Dagskrá fundarins er áhugaverð og kemur inn á nokkur mál sem eru hvað efst á döfinni á sviði orkumála, innan míns ráðuneytis, þessa dagana.
Þar ber fyrst að nefna langtíma-orkustefnu fyrir Ísland.
Hér á eftir fáum við kynningu á Orkustefnunni frá formanni starfshóps um mótun hennar.
Ég fagna mjög að stefnan sé komin fram. Henni fylgir skýr framtíðarsýn um sjálfbæra orkuframtíð. Það eru dýrmæt og mikilvæg tímamót að þverpólitísk sátt hafi náðst um framtíðarsýn, leiðarljós og tólf meginmarkmið Íslands í orkumálum.
Stefnan nær til ársins 2050 og er fyrsta langtíma-orkustefnan fyrir Ísland sem unnin er með þessum hætti. Með stefnunni er stefnt að því að gæta hagsmuna núverandi sem komandi kynslóða. Sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.
Stefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og í samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila. Það var lykilatriði að stefna í þessum viðkvæma málaflokki yrði mörkuð með breiðri samstöðu og samráði. Það gekk eftir og það eitt og sér er eftirtektarverður árangur.
Orkustefnan boðar sjálfbæra orkuframtíð og kveður á um tólf meginmarkmið sem skiptast í fimm svið: orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, umhverfisvernd og samfélagslegan ávinning.
En breytir Orkustefnan einhverju? Svar mitt við því er tvímælalaust já.
Með henni fáum við skýra framtíðarsýn sem varpar ljósi á þau fjölmörgu forgangsverkefni í orkumálum sem við getum náð samkomulagi um þvert á flokka. Það mun setja sterkara kastljós á þau verkefni en fram til þessa, sem stuðlar að hraðari framförum.
Dæmi um slík verkefni eru til dæmis sterkari innviðir, jafn aðgangur að orku um allt land, fjölnýting auðlindastrauma, breiðari áherslur í orkuskiptum, skýrari sýn á orkuþörf og orkuframboð á hverjum tíma og virkari orkumarkaður.
Orkustefnan leysir auðvitað ekki öll ágreiningsmál. En hún leiðir fram hvað við getum verið sammála um, þegar við setjumst niður í einlægum vilja til að koma okkur saman um grundvallarmarkmið. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegur vegvísir til framtíðar.
Stefnan segir ekki til um hvað eigi að virkja mikið eða í hvað eigi að nota orkuna. Það er enda almennt ekki inntakið í orkustefnu annarra landa. Það verður því áfram sjálfstætt verkefni fyrir samfélagið að taka afstöðu til einstakra verkefna, samkvæmt því regluverki sem gildir á hverjum tíma. En stefnan gefur leiðbeiningar um þau sjónarmið sem við eigum að horfa til við þær ákvarðanir, til dæmis sjálfbærni, umhverfisvernd og samfélagslegan ávinning.
Ég mun á næstunni leggja Orkustefnuna fram á Alþingi sem skýrslu ráðherra til umræðu.
Næstu skref eru síðan að fylgja eftir þeim fjölmörgu verkefnum í orkumálum sem eru þegar hafin og móta bæði næstu verkefni og árangursvísa til að mæla hvernig okkur miðar. Sú vinna er þegar hafin.
Ég hlakka til að fylgja eftir áherslum nýrrar Orkustefnu og hvet alla til að kynna sér efni hennar á vefnum orkustefna.is.
Í öðru lagi vil ég hér nefna, í tengslum við dagskrá fundarins, að fyrr í haust kynntum við skýrslu starfshóps ráðherra um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku. Sú skýrsla markar að mínu mati einnig ákveðin tímamót og hér á eftir mun formaður starfshópsins, Kristín Haraldsdóttir, fjalla nánar um efni hennar.
Starfshópurinn var vel mannaður og í skýrslunni er að finna fjölda tillagna og gagnlegra ábendinga til úrbóta til að stuðla að auknu raforkuöryggi og virkari raforkumarkaði. Tillögur starfshópsins hafa verið teknar til frekari skoðunar og úrvinnslu.
Í því samhengi vil ég nefna að á þingmálaskrá yfirstandandi haustþings er búið að boða frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum. Frumvarpið er í vinnslu í ráðuneytinu og er væntanlegt á samráðsgátt stjórnvalda innan skamms. Í því er fyrirhugað að fram komi nokkur efnisatriði sem rekja má til skýrslunnar, að því er varðar raforkuöryggi.
Í þriðja lagi er hér á dagskrá á eftir erindi frá sendiherra Þýskalands á Íslandi, herra Dietrich Becker, um möguleika á samstarfi Þýskalands og Íslands á sviði vetnismála.
Framleiðsla og notkun á grænu vetni er mjög ofarlega á baugi í Evrópu um þessar mundir, sem liður í orkuskiptum og aðgerðum á sviði loftlagsmála. Í því felast hugsanlega möguleikar fyrir okkur Íslendinga, með okkar endurnýjanlegu raforkuframleiðslu og með okkar markmið í orkuskiptum og loftslagsmálum. Þau tækifæri ríma vel við áherslur okkar og stefnumótun jafnt á svið orkumála, nýsköpunar og loftlagsmála.
Þetta er spennandi málaflokkur og ég get hér sagt frá því að fyrr í vikunni áttu fulltrúar íslenskra og þýskra stjórnvalda fund um áherslur þjóðanna á þessu sviði og hugsanlega möguleika á samstarfi. Þau mál eru nú til frekari skoðunar og hugsanlegra tíðinda að vænta á næstunni hvað það varðar.
Það er því vel til fundið að þessi þrjú atriði sem ég hef hér nefnt – Orkustefna, raforkuöryggi og vetni – séu öll á dagskrá þessa ársfundar.
Af öðrum málum tel ég rétt að halda því til haga að það er ýmisleg jákvætt að frétta af sviði orkumála. Það sáum við til dæmis skýrt fyrr í þessum mánuði þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 voru kynnt.
Þar koma fram skýr áform ríkisstjórnarinnar um aukin framlög til jöfnunar dreifikostnaðar raforku, flýtingu á jarðstrengjavæðingu og þrífösun dreifikerfis raforku og úrbóta á varaafli.
Þessi verkefni styðja öll við þá stefnu okkar að tryggja öllum landsmönnum jafnan aðgang að raforku og efla innviði á landsvísu. Síðasti vetur gerði öllum ljóst að innviðir okkar eru viðkvæmir og aðstaða landsmanna ólík gagnvart bæði orkuöryggi og orkuverði. Því er mikilvægt að stíga afgerandi skref til úrbóta eins og lagt er upp með í fjármálaáætlun.
Hvað jöfnun dreifikostnaðar varðar er lögð til 730 milljóna króna hækkun á framlagi til jöfnunar á næsta ári. Er þar annars vegar um að ræða 13 prósenta verðlagshækkun á jöfnunargjaldi og hins vegar 600 milljóna framlag úr ríkissjóði. Gangi þetta eftir mun hlutfall jöfnunar dreifikostnaðar í dreifbýli, samanborið við þéttbýli, fara úr tæpum 50 prósentum í 85 prósent á næsta ári. Það munar um það.
Hvað varðar jarðstrengjavæðingu og þrífösun dreifikerfis þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir að 500 milljónum verði varið úr ríkissjóði í að flýta fyrir þeim verkefnum, þannig að þeim ljúki á 5 árum í stað 15.
Áætlað er að jarðstrengjavæðingin muni fækka truflunum í dreifikerfinu um 85 prósent og að þær verði að mestu óháðar veðri. Á þessu ári var 100 milljónum króna varið úr ríkissjóði í verkefnið og er það þegar hafið.
Í fjárlagafrumvarpi 2021 og fjármálaáætlun er jafnframt gert ráð fyrir sérstökum fjármunum í átak á sviði varaafls, en þær tillögur koma einnig úr átakshópi stjórnvalda um uppbyggingu innviða. Um er að ræða 20 milljónir á ári yfir þriggja ára tímabil sem fari í að auka yfirsýn og eftirlit með varaafli og að hafa tiltæk stjórntæki til að bregðast við skorti á varaafli. Orkustofnun hefur verið falið það verkefni og er það þegar hafið.
Kæru ársfundargestir.
Ég vil að lokum þakka Orkustofnun fyrir gott samstarf og faglega stjórnsýslu orkumála.
Á síðasta ári tók Orkustofnun nokkrum breytingum í kjölfar innleiðingar þriðja orkupakka ESB og er raforkueftirlit Orkustofnunar nú orðin sjálfstæð og aðskilin eining innan Orkustofnunar. Ég tel að þetta hafi almennt tekist vel og að ramminn utan um eftirlit með starfsemi orkufyrirtækja og hagsmunum neytenda hafi styrkst að undanförnu. Mikilvægt er að kröfur til aðila á orkumarkaði séu skýrar, sem og skil á milli ólíkra hlutverka fyrirtækja á sviði framleiðslu, sölu, flutnings og dreifingar. Víða er vissulega enn verk að vinna á þessu sviði og brýnt að halda umræðu um fyrirkomulag orkumála, aukna skilvirkni, einföldun og úrbætur, lifandi á hverjum tíma.
Takk fyrir.