Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Einföldunarbyltingin

Morgunblaðsgrein, 7. mars 2021.

„Hlaupum hraðar“ var yfirskrift Iðnþings í vikunni. Það var sérstaklega viðeigandi, nú þegar aukin verðmætasköpun er meira aðkallandi en á flestum tímum.

Í ræðu minni á þinginu lagði ég sérstaka áherslu á mikilvægi nýsköpunar og þá hugarfarsbyltingu sem hefði orðið gagnvart nýsköpun í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Þau tímamót hafa orðið að nýsköpun er ekki lengur litin hálfgerðu hornauga sem krúttlegt gæluverkefni, eitthvað sem enginn getur þannig séð verið á móti en þykir samt ekki endilega skipta miklu máli. Þeim fækkar sem betur fer sem telja hana tískuorð, ímyndarmál eða skraut. Hún er raunverulegt og mikilvægt viðfangsefni sem við verðum að sinna, þrátt fyrir að hún sé óáþreifanleg og háð óvissu. Hún gerir okkur í stakk búin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Covid hefur opnað augu margra fyrir ávöxtum nýsköpunar. Fólk sá að fyrirtæki á borð við Sidekick Health gátu boðið lausnir sem nýttust í heilbrigðiskerfinu. Fólk sá að fyrirtæki á borð við Controllant áttu í fórum sínum lausnir sem nýttust við að flytja bóluefni á milli landa. Fólk sá að fyrirtæki á borð við DeCode gátu liðsinnt með sinni þekkingu og búnaði.

Á sama tíma staldrar fólk við þær fréttir að íslensk nýsköpunarfyrirtæki sóttu sér í fyrra tæplega 30 milljarða króna í fjármögnun, og meira en helming þeirrar fjárhæðar frá útlöndum.

Í nýrri könnun Íslandsstofu kemur fram að flest nýsköpunarfyrirtæki sjá fram á vöxt á næstu tólf mánuðum. Nær öll fyrirtækin hyggjast fjölga starfsmönnum á árinu. Þrátt fyrir Covid stóðust áætlanir meirihluta fyrirtækjanna. Viðskiptavinum þeirra hefur almennt ekki fækkað þrátt fyrir Covid. Aðeins örlítill samdráttur varð í tekjum þeirra á árinu 2020 samanborið við árið á undan og starfsfólki þeirra fjölgaði um 14%. Könnunin dregur upp bjartari mynd af kraftinum í íslensku nýsköpunarumhverfi en flestir áttu von á við þessar aðstæður.

Þessu til viðbótar er jákvætt að nokkrir vísisjóðir eru nú að leggja drög að næstu hrinu fjárfestinga sem skipta munu milljörðum og gefa íslenskum frumkvöðlum aukin tækifæri.

Fyrirtæki á borð við Alvotech og CarbFix eru að vinna að verkefnum sem gætu skipt Ísland verulegu máli. Orkufyrirtækin okkar sjá spennandi tækifæri á mörgum sviðum, meðal annars í vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu og gagnaverum.

Allt þetta sýnir að áhersla á nýsköpun gerir okkur kleift að hlaupa hraðar.

En hvaða verkefni er þá næst?

Fyrir um þrjátíu árum eða svo má segja að bylting hafi hafist á Íslandi sem leysti okkur úr mörgum gömlum viðjum. Hún er oftast kennd við frjálshyggju og gekk aðallega út á að draga ríkisvaldið út af mörgum sviðum þar sem það hafði verði alltumlykjandi og auka frelsi einkaframtaksins til að eiga viðskipti og skapa verðmæti.

Dómur framtíðarinnar verður vonandi sá að á síðastliðnum árum hafi orðið hér á landi nýsköpunarbylting. Við þurfum að halda áfram að styðja við hana.

Næsta bylting sem ég myndi vilja sjá eiga sér stað á Íslandi er einföldunarbylting. Við höfum því miður komið okkur upp alltof flóknu regluverki, sem er dálítið sérstakt með hliðsjón af því hvað við erum lausnamiðuð og viljum geta hreyft okkur hratt.

Ferli og reglur eru vissulega nauðsynleg, en á einhverjum tímapunkti hætta þær einfaldlega að bæta umhverfi okkar og byrja að spilla því.

Ferli og reglur eiga að koma í veg fyrir að við hlaupum út í skurð, en þær mega ekki koma í veg fyrir að við getum hlaupið, né að við getum yfirhöfuð grafið skurði.

Tækifærin til úrbóta snúast ekki um að gefa afslátt af eðlilegum kröfum heldur meðal annars að koma í veg fyrir að verið sé að gera óþarfa kröfur, jafnvel meta sömu hlutina aftur og aftur á mörgum stöðum, og að það mat taki óhóflega langan tíma.

Við höfum tekið nokkur skref í þessa átt. Fjöldi úreltra og óþarfa laga og reglugerða voru felld brott í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Frumvarp var lagt fram um einföldun flóknustu raflínuframkvæmda. Regluverk ferðaþjónustu og byggingariðnaðar var greint í samstarfi við OECD og tækifæri til einföldunar sett fram.

Síðast í þessari viku skrifaði ég undir samstarfssamning við Íslandsstofu um „Græna dregilinn“ sem er ætlað að einfalda okkur að nýta tækifærin til grænna nýfjárfestinga um allt land.

Við þurfum að hlaupa hraðar og um það þarf að nást víðtæk samstaða.