Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Erindi Sjálfstæðisflokksins – yfirlýsing um framboð til varaformanns

Morgunblaðsgrein, 25. febrúar 2018.

Sjálfstæðisflokkurinn verður níutíu ára á næsta ári. Allan þann tíma hefur grundvallarstefnan um einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi í allra þágu ekki glatað grammi af gildi sínu. Leiðarljós hennar er jafn skært og í upphafi. Þetta er ástæða þess að níutíu árum síðar er flokkurinn stærsti flokkur landsins í öllum kjördæmum.

Skýr hugsjón hristir að lokum af sér jafnvel hörðustu persónuátök. Og hún leikur sér að því að umbera blæbrigðamun í skoðunum flokksmanna, sem er að sjálfsögðu fyrir hendi eins og vera ber í breiðri fjöldahreyfingu.

Þrátt fyrir skýra hugsjón boðar Sjálfstæðisflokkurinn ekki alltumlykjandi hugmyndakerfi sem ætlað er að vera forskrift að öllu lífi og lífsviðhorfi manna. Sjálfstæðisstefnan er ekki „stjórnmálatrúarbrögð“ sem geymir svör við öllum spurningum án þess að skilja eftir pláss fyrir sjálfstæða hugsun. Þannig má á vissan hátt segja að umburðarlyndi og svigrúm fyrir ólík viðhorf séu innbyggð í Sjálfstæðisstefnuna. Ég tel að það sé styrkur fremur en veikleiki.

Það er merkilegt að hugsa til þess að eftir fyrstu þingkosningarnar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í voru aðeins þrír flokkar á Alþingi. Í dag eru þeir átta.

Spyrja má hvort grundvallarhugsjónir Íslendinga séu virkilega svo margbreytilegar að það þurfi átta flokka til að endurspegla þær. Ég tel svo ekki vera.

Hinn mikli fjöldi flokka skýrist að hluta til af því að oft ráða persónur úrslitum frekar en málefnin. Önnur líkleg ástæða er að umburðarlyndi gagnvart blæbrigðamun í skoðunum fari þverrandi. Með öðrum orðum: Að fleiri en áður kjósi að tilheyra minni flokkum, þar sem allir eru sammála um allt. (Sagan sýnir auðvitað að það endist sjaldan lengi.)

Í fjöldahreyfingu á borð við Sjálfstæðisflokkinn fylkjum við okkur um grundvallarhugsjón en leyfum okkur rökræðu um annað – og sækjum beinlínis kraft í málefnalegt samtal. Okkur þykir langsótt að stofna stjórnmálaflokk um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hvað þá að stofna flokk um að auka eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Aukið úrval á hlaðborði stjórnmálanna hefur ekki dregið úr erindi Sjálfstæðisflokksins. Þvert á móti.

Skattamál eru þar einna efst á blaði. Sú staðreynd kom skýrt fram í kosningabaráttunni síðastliðið haust. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem berst með trúverðugum hætti fyrir lækkun skatta á fólk og fyrirtæki. Það skiptir öllu máli að flokkurinn standi vörð um þann trúverðugleika og efni það sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum um tekjuskatt einstaklinga og tryggingagjald. Ísland er háskattaríki. Við getum lækkað skatta og eigum að gera það. Einstaklingar og fyrirtæki þessa lands – sem eru vel að merkja langflest lítil eða meðalstór – þurfa eðlilegt svigrúm fyrir atorku sína.

Það er vanmetin staðreynd að útgjöld eru ekki ávísun á betri þjónustu eða meiri afköst. Og sumum verkefnum er ofaukið. Það er eðlileg krafa á stjórnmálamenn að þeir hafi kjark til að forgangsraða. Kröfurnar um aukin útgjöld og allskonar liðsinni ríkisins eru látlausar, og það úr mörgum áttum, sumum óvæntum. Pilsfaldakapítalisminn er víða og Sjálfstæðisflokkurinn á að mínu viti að stemma stigu við honum, á sama tíma og við leggjum kapp á að efla samkeppnishæfni Íslands og tryggja atvinnulífinu góð skilyrði.

Áhersla á félagsmál hefur verið samofin Sjálfstæðisstefnunni frá upphafi og sá þráður er sterkur í okkar hugsjón. Takmark okkar er að tryggja öllum tækifæri til að njóta sín til fulls. Og gleymum því aldrei að þau tækifæri eiga að ná til landsins alls.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á undanförnum árum sem framkvæmdastjóri þingflokksins, aðstoðarmaður ráðherra, frambjóðandi í tvennum Alþingiskosningum og ráðherra í tveimur ríkisstjórnum. Þetta hafa verið krefjandi verkefni en fyrst og fremst gefandi, því að það er í senn ástríða mín og forréttindi að vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar, eiga samtöl og samvinnu við fólk og hlúa að framtíð og tækifærum íslensks samfélags.

Það hefur verið dýrmætt að fá hvatningu víða að og hún vegur þungt í minni ákvörðun. Ég hlakka til að eiga samtöl við sem flesta á næstu dögum og vikum um sóknarfæri okkar Sjálfstæðismanna.