Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Framboðsræða til varaformanns Sjálfstæðisflokksins

Ræða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, 17. mars 2018.

Fundarstjóri, formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson, kæru landsfundargestir.

Aldrei venst maður því hversu yfirþyrmandi það er, í góðri merkingu, að koma til landsfundar, og fá stærð og kraft Sjálfstæðisflokksins beint í æð.

Landsfundur var í fyrsta sinn haldinn hér í Laugardalshöll tveimur árum áður en ég fæddist. Þá var sagt að enginn salur væri til á Íslandi annar, sem rúmaði fundinn. Aðrir flokkar þurfa ekki að glíma við slíkt. Það væri frekar að segja að sumir glími við það vandamál að það sé ekki til nægilega lítið húsnæði og sagan segir að ónefndur flokkur hafi nú augastað á Litlu Kaffistofunni.

Kæru félagar.

Enginn flokkur hefur lagt meira af mörkum til að skapa íslenskt samfélag en Sjálfstæðisflokkurinn.

Og hvílíkt samfélag: Í fremstu röð í heiminum á flesta mælikvarða hagsældar, velferðar og lífsgæða.

Fyrir næstum 90 árum sögðum við, að við myndum „vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum“.

Þetta er nákvæmlega það sem við höfum gert.

En betur má ef duga skal. Við verðum að halda áfram að bæta lífskjörin. En það verður ekki gert með kollsteypum. Það verður aðeins gert með því að skapa meiri verðmæti.

Ekki með því að skattleggja atvinnulífið í drep, eins og sumir sem kenna sig við frjálslyndi vilja gera.

Og ekki með því að hækka skatta hundrað og tólf sinnum, eins og síðasta vinstristjórn gerði.

Hundrað og tólf. Munum þessa tölu. Fjöldi skattahækkana í tíð síðustu vinstristjórnar, og símanúmerið hjá Neyðarlínunni.

Gegn þessum tilburðum stendur aðeins einn flokkur með trúverðugum hætti, og það er Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrst og fremst hefur staðið vörð um borgaraleg gildi, réttarríkið, samvinnu fullvalda ríkja, frelsi allra einstaklinga, manna og kvenna og annarra, til orðs og athafna.

Þessum staðreyndum geta hetjur lyklaborðsins ekki breytt. En þær reyna það. Og nútímatækni gerir þeim kleift að dreifa ósannindum og spuna víða. 

En það er sama hversu oft ósannindi eru endurtekin. Þau verða ekki sönn fyrir vikið.

Við eigum ekki að vera feimin við að segja fólki og kjósendum okkar að við séum markaðssinnaður flokkur. Við erum hægra megin á ásnum. Við eigum líka að vera óhrædd við að framkvæma stefnu okkar um að takmarka umsvif hins opinbera. En við getum líka öll verið sammála um það, að þau verkefni, sem við felum hinu opinbera að sinna, þeim skuli þá líka vera almennilega sinnt.

Okkar öflugu fulltrúar í sveitarfélögum um land allt undirbúa nú sveitarstjórnarkosningar af fullum krafti. Sveitarstjórnarstigið ber ábyrgð á mörgum mikilvægustu málefnum einstaklinga. Í Reykjavík er þessi þjónusta að molna niður, rétt eins og götur borgarinnar, á meðan vinstrimenn í valdastólum svara með útúrsnúningum og þyrla upp svifryki. Kæru vinir, leggjum nú allt af mörkum sem við getum. Leggjumst á árarnar alls staðar á landinu og tryggjum okkar fólki sigur í vor.

Margir leggja nótt við dag til að koma þeirri ímynd á framfæri, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur þröngrar klíku.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref, fyrir rúmum áratug síðan, heyrði ég úr ýmsum áttum að Sjálfstæðisflokkurinn væri blindgata fyrir unga konu eins og mig: landsbyggðartúttu úr Fjölbrautarskóla Vesturlands, dóttur sjúkraliða og iðnaðarmanns, með lítið bakland og tengsl innan flokksins.

En ég ákvað nú samt að prófa þessa svokölluðu „blindgötu“ og hef gengið hana alla leið upp í þessa pontu.

Svo sannarlega hef ég fengið tækifæri, frá mörgu stórkostlegu Sjálfstæðisfólki. Sem kosningastjóri í Norðvestur, framkvæmdastjóri þingflokks, aðstoðarmaður ráðherra, þingmaður og nú ráðherra í tveimur ríkisstjórnum.

Og svo sannarlega hef ég sóst eftir þessum tækifærum. Enda var ég alin upp við að fátt sé utan seilingar ef maður leggur sig eftir því og grípur tækifærin.

Það var ekki mikið rætt um pólitík á mínum heimili en ég var alin upp til að vera sjálfstæð og það hef ég alltaf verið. Stundum svo sjálfstæð að mömmu þótti nóg um. Ég bæði greiddi þetta krullaða hár og smurði mér nesti löngu áður en mamma taldi mig hafa burði til þess, og hún mátti aldrei hjálpa til.

Ég hef alltaf trúað því, og er alin upp við það, að fyrsta val sé að standa á eigin fótum, annað val sé að finna aðra leið til að standa á eigin fótum, og þriðja val sé að reyna til þrautar að finna leið til að standa á eigin fótum.

Gott samfélag er að mínu mati þar sem fólk hefur svigrúm og tækifæri til að vera sinnar eigin gæfu smiðir. Tækfæri er lykilorð. Íslendingar eru fámenn þjóð og við verðum að hámarka nýtingu hæfileika okkar allra.

Ólöf okkar Nordal veitti mér ómetanlegt tækifæri þegar hún bauð mér að verða aðstoðarmaður sinn. Hvílíkur skóli, hvílík forréttindi, að fá að starfa við hlið þessarar merkilegu konu. Að þekkja Ólöfu, fylgjast með henni, ekki bara sem stjórnmálamanni heldur sem manneskju, er einhver dýrmætasta lífsreynsla mín.

Ungur stjórnmálamaður hefði ekki getað fengið betri undirbúning undir það að gegna ráðherraembætti. Og það reynir á þann lærdóm á hverjum einasta degi.

Í mínu lífi, líkt og okkar allra, hefur blásið bæði með og á móti. Reynsla er mikilvæg. Ekki bara að búa yfir henni heldur að vinna vel úr henni svo að hún geri mann sterkari. Ég tel að mín reynsla hafi styrkt mig og búið mig undir þá auknu ábyrgð sem ég sækist nú eftir.

***

Sjálfstæðisflokkurinn trúir á samfélag tækifæra. Það er algjör forsenda fyrir því að trúa á samfélag tækifæra að trúa á fólkið sem býr í okkar samfélagi. Ég trúi á Ísland og ég hef trú á Íslendingum.

Þess vegna verða að vera tækifæri til að afla sér góðrar menntunar, óháð efnahag.

Tækifæra til að búa hvar sem er á landinu, án þess að þurfa að sætta sig við lélega opinbera þjónustu og lélega innviði.

Tækifæra til að hasla sér völl í atvinnulífinu, án þess að þurfa að kljást við óyfirstíganlegt skrifræði.

Með áherslu okkar á frelsi og tækifæri hefur okkur tekist að nýta mannauð okkar betur en flestar aðrar þjóðir. Það er lykillinn að árangri þessar fámennu þjóðar í norðri.

Það er hægt að gera betur. Það þarf að bæta menntakerfið og það verður að leggja áherslu á iðngreinar, sem eru skapandi greinar. Við þurfum að virkja allan okkar mannauð og huga að tækifærum allra, ungra jafnt sem þeirra eldri, kvenna jafnt sem karla, drengja jafnt sem stúlkna.

Kjarni Sjálfstæðisstefnunnar: Einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi í allra þágu. 

Utan um þessa skýru hugsjón var mynduð breiðfylking fyrir næstum 90 árum. Breiðfylking sátta, fremur en sundrungar og átaka.

Eftir fyrstu þingkosningar flokksins voru þrír flokkar á Alþingi. Í dag eru þeir átta. Af því að umburðarlyndið gagnvart ólíkum skoðunum og sjónarmiðum hefur minnkað.

Ýmsum þykir freistandi að vera frekar í litlum flokki, þar sem þeir ímynda sér að allir geti verið sammála um allt. Reynslan sýnir að það er tálsýn, en hún getur verið freistandi þar til hún springur.

Hin breiða samstaða er okkar sérkenni. Hún er það sem aðrir flokkar þola ekki í fari okkar, öfunda okkur af, og geta ekki leikið eftir.

Við verðum áfram að gefa hvert öðru svigrúm til að vera Sjálfstæðisfólk á okkar eigin forsendum, og standa þannig vörð um Sjálfstæðisflokkinn sem breiðfylkingu.

Við tökumst óhikað á um ólíkar skoðanir og áherslur, en komum síðan sameinuð fram. Það er vegna þess að við erum sammála um lífsskoðun, við erum með öðrum orðum sammála um grundvallaratriði. Það er opinbera leyndarmálið að baki velgengni Sjálfstæðisflokksins.

Hinn breiði grundvöllur er styrkur okkar, en hann væri lítils virði ef hann væri ekki mannaður þúsundum flokksmanna sem halda uppi kröftugu starfi um land allt.

Þar slær hjarta okkar. Þar liggur gróskan og slagkrafturinn; slagkrafturinn sem enginn annar flokkur keppir við.

Við þurfum að leggja áfram rækt við flokkstarfið. Við þurfum líka að hugsa út fyrir rammann og finna fleiri snertifleti við almenning og almenna flokksmenn.

Við þurfum að ná betur til fleiri hópa, ekki síst kvenna og yngra fólks.

Já, málið snýst ekki síður um aldur en kyn. Tölurnar sýna að þegar horft er til allra kjósenda undir fertugu, karla og kvenna samanlagt, þá eigum við fullt í fangi með að ná tuttugu prósenta fylgi. En hjá kjósendum yfir fertugu erum við nálægt þrjátíu prósentum.

Það verða því skörp skil við fertugt og munurinn er mjög mikill. Þessi aldursskipting er mikil áskorun fyrir Sjálfstæðisflokkinn, kannski sú stærsta sem flokkurinn stendur frammi fyrir.

En góðu fréttirnar eru þær að þetta er um leið bullandi sóknarfæri. Kjósendur undir fertugu eru rúmlega fjörutíu prósent kjósenda og við getum náð betur til þeirra.

Við erum stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum. Við eigum að vera stærsti flokkurinn meðal beggja kynja. Og við eigum að vera stærsti flokkurinn í öllum aldurshópum.

Sú tíska að stofna sífellt fleiri smáflokka auðveldar okkur kannski ekki lífið, og verkefnið, en ég er bjartsýn.

Ég horfi á Pírata og sé kerfisflokk; flokk formsins fremur en efnisins; flokk endalausra spurninga en fárra svara. Ég horfi á Samfylkinguna og sé hneykslun og uppnám frekar en framtíðarsýn og úrvinnslu. Ég velti fyrir mér hvaða erindi Miðflokkurinn muni hafa þegar búið verður að byggja nýjan Landspítala og endurskipuleggja fjármálakerfið. Ég tek þó fram að mér dettur ekki í hug að setja mig á háan hest gagnvart Miðflokknum.

Viðreisn glímir við staðfestuvanda. Hinn 15. september síðastliðinn ályktaði flokkurinn á þá leið, að vegna trúnaðarbrests innan ríkisstjórnarinnar yrði að rjúfa þing og boða til kosninga. Þremur vikum síðar lýsti fráfarandi ráðherra flokksins því yfir að ekkert tilefni hefði verið til að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. „Ekkert tilefni.“ Orðrétt. Hann sagði að þetta hefði orðið ljóst eftir að rykið settist.

Já, það er nefnilega það. Nú er stóra spurningin: Hvort ætli það þurfi að líða þrjár vikur, fjórar vikur eða fimm vikur þar til rykið sest nægilega vel til að Viðreisn átti sig á að því, að það var ekkert tilefni til að samþykkja vantraust á dómsmálaráðherra?

Nei, Sjálfstæðisflokkurinn klæðir sig ekki eftir veðrinu á samfélagsmiðlum. Við höfum sterkari rætur en það, sterkari fótfestu, sterkari grundvöll. Við munum ekki byggja ákvarðanir okkar á upphrópunum.

Kæru félagar.

Mín kynslóð stendur í þakkarskuld við þær sem á undan fóru. Ég lít í kringum mig og dáist að öllum þeim Grettistökum sem hefur verið lyft við miklu erfiðari aðstæður en við búum við í dag.

Hitaveituvæðing, rafvæðing, vegakerfið, skynsamleg nýting auðlinda til sjávar og sveita, uppbygging heilbrigðis- og menntakerfis; allt eru þetta stórvirki sem fólk á mínu reki fær upp í hendurnar og má aldrei taka sem sjálfsögðum hlut. Að ekki sé minnst á fullveldi okkar og sjálfstæði. Aldrei taka því sem sjálfsögðum hlut.

En við stöndum líka frammi fyrir gífurlegum áskorunum. Tækniframfarir munu á næstu árum gjörbylta atvinnuháttum okkar, með meira afgerandi hætti en við höfum áður séð.

Þetta kallar á að við leggjum enn meiri áherslu á að rækta sköpunargleði, frumkvæði, gagnrýna hugsun, athafnafrelsi og sjálfstæði. 

Við Sjálfstæðismenn eigum erindi við framtíðina af því að við skiljum hvers hún krefst af okkur.

Hún krefst þess að einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi blómstri sem aldrei fyrr, í allra þágu.

Því að þannig nær venjulegt fólk óvenjulegum árangri.

Og má ekki einmitt segja að þetta sé saga okkar Íslendinga í stuttu máli? – Venjulegt fólk sem nær óvenjulegum árangri. Og hvers vegna? Af því að tækifærin eru og hafa verið til staðar.

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur tækifæra. Tækifæra hins venjulega manns.

Kæru félagar.

Ég hef fengið tækifæri. Ég hef sótt þau. Ég hef reynt að grípa þau. Og ég hef nýtt þau.

Ég trúi að ég geti sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins gert gagn og lagt mitt af mörkum við að nýta sóknarfæri flokksins.

Til þess bið ég um ykkar stuðning.