Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Framtíð Ólafsdals er björt

Ræða á Ólafsdalshátíð, 12. ágúst 2017.

Kæru gestir, gleðilega hátíð og takk fyrir að bjóða mér að vera með ykkur á þessum fallega og sögufræga stað.

Þvílíkur kraftur og þvílíkur metnaður sem Ólafsdalsfélagið hefur sýnt við að halda sögu þessa staðar á lofti, hefja endurreisn hans, gera hann aðgengilegan, bjóða upp á aðstöðu, fræðslu og viðburði sem þessa.

Félagið fagnar tíu ára afmæli á árinu. Ég leyfi mér að segja fyrir hönd okkar sem eigum rætur í þessum landshluta, og Íslendinga allra: Til hamingju með afmælið og takk fyrir ykkar góða starf.

Eins og þið vitið væntanlega öll eru hér í Ólafsdal einhverjar merkustu menningarminjar Vesturlands: fyrsti búnaðarskóli landsins, stofnaður af Torfa Bjarnasyni árið 1880, og minjar sem tengjast uppbyggingar- og brautryðjendastarfi Torfa, konu hans Guðlaugar Zakaríasdóttur, og þeirra rúmlega 150 nemenda sem stunduðu nám við skólann í alls aldarfjórðung, og tóku hér til hendinni við landbætur, áveitur og aðrar framkvæmdir.

Ýmis nýmæli voru innleidd hér, samkvæmt því sem Torfi hafði lært í Skotlandi um landbúnað, smíðar og verklegar framkvæmdir.

Í Skotlandi lærði hann meðal annars steinsmíði, eins og óvenjulegt, tilhoggið grjótið í undirstöðum skólahússins vitnar um, og raunar fleiri mannvirki hér á staðnum.

Annað sést ekki með berum augum en er þó ekki síður mikilvægt, eins og sú staðreynd að yfir 40 námsmenn sem lærðu við skólann hér í Ólafsdal lögðu seinna stund á kennslu annars staðar á landinu, og breiddu þar með þekkinguna út um landið.

Héðan kom líka drjúgur hluti verkfæra sem notuð voru í landbúnaði víðs vegar um landið; plógar, aktygi, hestakerrur og ljáir. Torfi hannaði reyndar sérstakan ljá sem hann lét smíða í Skotlandi og fékk einkaleyfi fyrir árið 1874, en það var fyrsta einkaleyfið sem Íslendingur hlaut.

Það er því ekki að ástæðulausu sem sagt hefur verið að Ólafsdalur sé álíka mikilvægur í búnaðarsögu landsins og Hólar og Skálholt eru í kirkjusögunni.

Eru þá ótaldar umfangsmiklar hannyrðir, saumaskapur og dúka- og vaðmálsframleiðsla undir stjórn Guðlaugar húsfreyju, ásamt matjurtarækt og matvælaframleiðslu, en tengdadóttir þeirra hjóna fór ótroðnar slóðir í framleiðslu á ostum að erlendri fyrirmynd, sem ég býst við að hafi komið flestum landsmönnum spánskt fyrir sjónir á þeim tíma.

Hér var því sannkallað nýsköpunarsetur.

Við megum vart til þess hugsa hver örlög staðarin hefðu getað orðið ef Ólafsdalsfélagið hefði ekki verið stofnað fyrir áratug, og tekið til hendinni við endurreisn staðarins.

Af því að Valdimar, sá frábæri söngvari, er hér með mér á dagskránni dettur mér í hug að þrjú af vinsælustu lögum hans lýsa því ágætlega á hvaða leið Ólafsdalur var áður en Ólafsdalsfélagið var stofnað. Þetta eru lögin „Yfirgefinn“, „Brotlentur“ og „Ryðgaður dans“.

Nýjasta plata hljómsveitar hans gæti aftur á móti verið tileinkuð endurreisn staðarins hin síðari ár, því hún heitir „Batnar útsýnið“, og á henni er meðal annars lagið „Út úr þögninni“. – Kannski Valdimar hendi hreinlega í söngleik um sögu Ólafsdals í fortíð og nútíð!

Merkar sögulegar minjar sem þessar eru þjóðargersemi sem ber að varðveita þó ekki væri nema til neins annars en að varðveita þær. En til viðbótar geta þær líka falið í sér mikil tækifæri í ferðaþjónustu sé rétt á málum haldið.

Það er ekki allt unnið með því að vera í þjóðbraut. Eftir því sem hún verður fjölfarnari fjölgar líka þeim sem vilja leita annað.

Í þessu sambandi er áhugavert að Torfi og Guðlaug fluttu einmitt hingað í Ólafsdal til að flýja umferðina við þjóðbrautina í Borgarfirðinum, þar sem þau bjuggu áður. Þetta kemur fram í blaðagrein um Torfa frá árinu 1912, sem lesa má á vef Ólafsdalsfélagsins.

Greinarhöfundur hefur þetta beint eftir Torfa sjálfum og segir: „Svo hefur Torfi sagt mér, að mest hafi hann flúið þjóðbrautina. Umferð þar var afar mikil […] en Torfi orðinn þjóðkunnur maður og ákaflega gestrisinn. Taldi hann það ofætlun fyrir konu sína að annast gesti daglega auk bús og barna.“

„Að flýja þjóðbrautina.“ Það er einmitt það sem æ fleiri ferðamenn sækjast eftir í dag. Að fara ótroðnar slóðir og heimsækja staði sem eru ekki yfirfullir af gestum. Þessi eftirsóknarverðu gæði eru í boði hér í Dölunum og nærliggjandi svæðum.

Nútímatækni gerir að verkum að það er auðveldara en nokkru sinni fyrr að upplýsa ferðamenn um alla valkosti sem í boði eru. Áður lítt þekktir staðir verða vinsælir á augabragði í krafti samfélagsmiðla og annarrar tækni, sem gerir að verkum að ferðamenn þurfa ekki að lesa bækur og bæklinga heldur geta einfaldlega flett því upp í símanum jafnóðum hvað er áhugaverðast að sjá í þrjátíu, fjörutíu eða fimmtíu kílómetra radíus frá þeim stað þar sem þeir eru þá stundina.

Ég veit að það er markmið Ólafsdalsfélagsins að hingað komi um 15 til 20 þúsund ferðamenn á ári innan fárra ára og ég hef fulla trú á að það geti gengið eftir.

Rætt hefur verið um mikilvægi þess að laga vegakaflann hingað frá þjóðveginum og ég held að við séum öll sammála um nauðsyn þess. Það getur vissulega falist verðmætur sjarmi í því að standa utan þjóðbrautar, en það eru takmörk fyrir öllu!

Framtíð Ólafsdals er björt, ekki síst eftir tímamótasamning Ólafsdalsfélagsins, ríkisins og félagsins Minjaverndar, sem var gerður fyrir tveimur árum. Hann felur í sér gífurlega metnaðarfull áform um stórfellda uppbyggingu hér á staðnum, meðal annars endurreisn flestra þeirra mannvirkja sem hér stóðu áður, og uppbyggingu á menningartengdri ferðaþjónustu. Stefnt er að því að uppbyggingunni verði að mestu lokið fyrir árslok 2019 og það verður virkilega spennandi að fylgjast með þessu Grettistaki fara á loft á næstu misserum.

Minjavernd hefur sýnt með faglegri og metnaðarfullri aðkomu að uppbyggingu sögulegra mannvirkja víða um land að við megum vænta góðs af þeirra starfi. Ólafsdalsfélagið mun auk þess halda áfram margvíslegri starfsemi hér, til að mynda þessari árlegu hátíð.

Ég óska Ólafsdalsfélaginu til hamingju með daginn, sem og tíu ára afmælið, og öllum velunnurum staðarins til hamingju með þá björtu framtíð sem ég er sannfærð um að staðurinn eigi fyrir höndum, til hamingju og heilla fyrir heimamenn, nágrannabyggðir og ört stækkandi hóp ánægðra gesta.

Takk.