Ræða á ársfundi Samorku, 26. mars 2021.
Kæru áhorfendur
Ég vil byrja á að þakka Samorku fyrir að bjóða mér að ávarpa ársfund samtakanna. Ég vil líka lýsa ánægju með áherslu fundarins á nýsköpun, en tækifærin til nýsköpunar í orkutengdum verkefnum eru stór og spennandi.
Áhersla ríkisstjórnarinnar á nýsköpun hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum. Við innleiddum nýsköpunarstefnu sem hefur að mínu mati ekki bara skilað sér í aðgerðum heldur líka í breyttu hugarfari.
Mér finnst þau tímamót hafa orðið hér á Íslandi að nýsköpun er ekki lengur litin hálfgerðu hornauga sem krúttlegt gæluverkefni; eitthvað sem enginn getur þannig séð verið á móti og öllum finnst fínt en ekki endilega skipta miklu máli; eitthvað tískuorð, ímyndarmál eða skraut sem mætti kannski alveg sleppa; heldur sé hún núna talin raunverulegt og mikilvægt viðfangsefni sem við verðum að sinna.
Því að nýsköpun er það sem gerir okkur í stakk búin til að takast á við óvissu og áskoranir framtíðarinnar, grípa tækifærin, skapa verðmæti, bæta lífskjör og tryggja stöðu okkar í alþjóðlegri samkeppni.
Samhliða þessari hugarfarsbreytingu höfum við gripið til aðgerða. Við höfum stóraukið fjárhagslegan stuðning við rannsóknir og þróun, endurskipulagt stuðningsumhverfi nýsköpunar til að gera það markvissara og betra, stofnað Kríu til að styðja við fjármögnun vísisjóða, auðveldað erlendum sérfræðingum að vinna hér tímabundið lengur en áður, rýmkað heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga, og þannig mætti áfram telja.
Það má færa rök fyrir að það hafi sjaldan eða aldrei verið eins bjart yfir íslensku nýsköpunarumhverfi og einmitt nú.
Nýsköpunarfyrirtæki sóttu sér í fyrra tæplega 30 milljarða króna í fjármögnun, og meira en helmingurinn kom frá útlöndum.
Ný könnun á vegum Íslandsstofu sýnir að flest nýsköpunarfyrirtæki sjá fram á vöxt næstu tólf mánuðina og nær öll hyggjast fjölga starfsmönnum á árinu.
Nýsköpun á ekki bara við í einhverjum afmörkuðum geirum heldur í öllum geirum. Og reynslan sýnir að hún dafnar ekki hvað síst í kringum rótgróna starfsemi, sem hefur styrk og burði til að prófa nýjar lausnir. Við höfum til dæmis séð þetta í sjávarútvegi, orkuframleiðslu og orkusæknum iðnaði. Og nú er nýr vaxtarbroddur að birtast okkur sem gengur út á nýsköpun í þágu loftslagsmála og sjálfbærni.
Við viljum beina sjónum okkar alveg sérstaklega að grænum tækifærum. Ég get nefnt tvö nýleg skref í því sambandi. Í fyrsta lagi frumvarp fjármálaráðherra um skattalegar ívilnanir til grænna fjárfestinga. Og í öðru lagi samkomulag um „Græna dregilinn“ svonefnda, sem ég skrifaði undir ásamt Íslandsstofu, en það miðar að því að greiða götu grænna fjárfestinga með því að veita fjárfestum skýr og skjót svör og einfalda ferla slíkra verkefna eins og kostur er, mögulega með því að koma á fót grænum iðngörðum eins og þekkjast erlendis. Við viljum bjóða slík verkefni velkomin með grænum dregli, sem kallast á við rauða dregilinn sem við þekkjum af öðrum vettvangi.
Tækifærin í orkumálum eru sérstaklega spennandi vegna þess að þau sameina sérstöðu og styrkleika Íslands annars vegar, og eitt stærsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar hins vegar.
Tækifæri okkar til að taka afgerandi forystu á þessu sviði birtist meðal annars í því, að Ísland er í fyrsta sæti á lista MIT-háskólans, þar sem reiknuð hefur verið út „vísitala grænnar framtíðar“. En við erum þó bara sjónarmun á undan Dönum og Norðmönnum, sem sýnir að við þurfum að halda vöku okkar og halda áfram að stíga markviss skref.
Eins og þið vitið felur ný orkustefna í sér markmið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi 2050. Ég tel að við eigum að hafa það markmið að verða fyrst. Það myndi ekki bara vekja heimsathygli heldur treysta orkuöryggi okkar, spara mikinn gjaldeyri og leggja grunn að nýjum iðnaði, störfum og útflutningi.
Við höfum áður tekist á við stór og metnaðarfull markmið í orkuskiptum. Hitaveituvæðingin er besta dæmið um það. Ný aðgerðaáætlun orkustefnunnar, sem ég lagði nýlega fram, varðar fyrstu skrefin á þessari leið okkar.
Til að útrýma skaðlegum orkugjöfum þurfum við augljóslega að auka framleiðslu á grænni orku, og styðja við þá margvíslegu nýsköpun sem þarf að eiga sér stað til að markmið okkar náist.
Þróunin er á fleygiferð og til marks um það hefur skipafélagið Maersk tilkynnt að það ætli að hætta að nota olíu á öll sín skip og að fyrsta „græna“ skipið verði sjósett eftir tvö ár og verði knúið rafmetanóli. Orkuskiptin eru að knýja dyra í þungaflutningum, bæði með skipum og ökutækjum. Flugið er eitthvað lengra framundan en þó komið á sjóndeildarhringinn.
Við megum ekki dragast aftur úr í þessari þróun heldur eigum við að taka forystu.
Sóknarfærin eru spennandi. Carbon Recycling hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir rafeldsneytisframleiðslu sína og stefnir nú á skráningu á markað, þó að töluverðar áskoranir hafi verið uppi varðandi starfsemi verksmiðju félagsins á Íslandi.
Aðferð CarbFix til að binda koltvísýring í jarðvegi hefur líka vakið mikla athygli og er afar spennandi.
Við Íslendingar finnum fyrir auknum áhuga erlendis, bæði af hálfu fyrirtækja og erlendra stjórnvalda, varðandi samstarf um framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti, og aðra nýtingu á endurnýjanlegri orku sem styður við græna framtíð, svo sem rafhlöðuframleiðslu og gagnaver. Við eigum að taka vel á móti þeim tækifærum og í aðgerðaáætlun orkustefnu er að finna aðgerðir sem snúa að því.
Réttilega hefur verið bent á að flest nágrannalönd okkar styðja myndarlega við þá nýsköpun sem oft er forsenda þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Til að Ísland dragist ekki aftur úr í alþjóðlegum samanburði tel ég að við þurfum að gera tvennt: Annars vegar að auka stuðning við íslensk fyrirtæki sem sækja í alþjóðlega samkeppnissjóði á þessu sviði, en þar er eftir mjög miklu að slægjast. Og hins vegar að leita áfram leiða til að bæta stuðningsumhverfið hér heima, umfram það sem þegar hefur verið gert.
Orkusjóður hefur styrkt mörg verkefni á sviði nýsköpunar í orkumálum, til að mynda áætlanir um fjölnýtingu á umframvarma á Grundartanga. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur stutt athugun á sama svæði á möguleikum þess að nýta útblástur stóriðju til rafeldsneytisframleiðslu.
Fjárveitingar til orkuskipta hafa almennt verið auknar svo um munar á síðustu þremur árum, og við sjáum að það er þegar farið að hafa áhrif í þá átt að hraða orkuskiptum á Íslandi. Orkusjóður hefur auglýst verkefni með hliðsjón af ákveðinni áfangaskiptingu í orkuskiptum. Fyrri áfangar hafa mikið til snúið að innviðauppbyggingu fyrir rafbíla, við gististaði og fyrir bílaleigur og hafnir, en í næsta áfanga er meðal annars horft til notkunar á rafeldsneyti við þungaflutninga og í hafsækinni starfsemi. Þar mun nýsköpun í grænum lausnum gegna lykilhlutverki sem og almennt samspil orkumála og nýsköpunar.
Við erum á góðri leið, en það þarf meira til, að mínu mati. Ég nefni sem dæmi að stuðningsumhverfi rannsóknar- og þróunarverkefna gæti nýst grænum verkefnum betur í einhverjum tilvikum, sem og boðaðar skattaívilnanir til grænna fjárfestinga.
Við þurfum að ganga úr skugga um að stuðningsumhverfi okkar hvað þetta varðar sé samkeppnishæft, því að markmið okkar, sem koma bæði fram í orkustefnu og nýsköpunarstefnu, eru skýr og þau eru metnaðarfull.
Góðir áheyrendur
Ég vil aftur þakka Samorku fyrir að setja nýsköpun í orkugeiranum rækilega á dagskrá hér í dag. Sú áhersla er í fullu samræmi við sýn stjórnvalda og ég hlakka til að eiga áfram gott samstarf við Samorku og aðildarfyrirtæki samtakanna um að nýta tækifærin á þessu sviði.
Ég vil einnig þakka Samorku fyrir gott og faglegt samstarf undanfarin ár, sérstaklega við gerð orkustefnu og aðgerðaáætlunar hennar. Takk fyrir.