Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Hlökkum til morgundagsins

Ræða á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, 14. september 2019.

Kæru vinir, gleðilega hátíð

Það er sérstaklega ánægjulegt að koma hér saman á þessu merkilega afmælisári flokksins okkar.

Níutíu ár. Níutíu ár af glæstri sögu.

Sú saga er ekki bara saga Sjálfstæðisflokksins heldur byggingarsaga samfélagsins okkar. Í þeirri byggingarsögu hefur enginn flokkur lagt meira á sig, lagt harðar að sér, sett niður fleiri hornsteina og reist fleiri og sterkari stoðir heldur en Sjálfstæðisflokkurinn. – Og afraksturinn er hver? Jú afraksturinn er eitt farsælasta samfélag í veröldinni.

Við eigum líka glæsta sögu í nútíð. Við höfum átt aðild að ríkisstjórn í samfellt sex ár og árangurinn blasir við okkur. Velmegun hefur aldrei verið meiri á Íslandi en einmitt nú. Lífskjörin hafa aldrei verið betri. Skuldir hafa verið greiddar niður. Tollar og vörugjöld hafa verið afnumin. Áhersla á nýsköpun hefur verið stóraukin til að renna fleiri stoðum undir efnahagslega velferð okkar. Stöðugleiki hefur náðst með ráðdeild og ábyrgri nálgun undir forystu formanns Sjálfstæðisflokksins. Ráðstöfunartekjur fólks hafa hækkað mikið, í öllum aldurshópum, mest hjá þeim sem eldri eru. Skattar hafa verið lækkaðir og nú síðast tilkynnt að innan tíðar verði einn tíundi af öllum tekjuskatti einstaklinga úr sögunni, sem eru risastór tíðindi.

Eru þetta ímyndarstjórnmálin? Snýst þetta bara um ásýndina? Nei, þetta eru nefnilega alvöru stjórnmál.

Á níutíu ára afmælisári okkar erum við því ekki bara að halda upp á söguna. Við erum að skapa söguna.

Og þannig á það að vera. Við megum aldrei verða uppteknari af því að horfa til baka en fram á veginn.

Sagan er dýrmæt, en framtíðin er einfaldlega dýrmætari.

Það er dýrmætt að hlakka til morgundagsins. Það var auðvitað hugsun þeirra sem stofnuðu Sjálfstæðisflokkinn. Þau horfðu til framtíðar.

Í þeim sama anda horfum við Sjálfstæðisfólk til framtíðar, stolt yfir verkum okkar og sögu, með dýrmæta reynslu fortíðar í farteskinu, ekki bundin af henni heldur ríkari fyrir vikið, reynslunni ríkari, eldri en tvævetur.

Við byggjum á grunngildum sem hafa staðist tímans tönn. Einstaklingurinn er í forgrunni. Frelsi hans, réttindi, virðing og tækifæri. Atvinnufrelsi. Eignarréttur. Tækifæri til að þroska hæfileika sína og leita hamingjunnar á eigin forsendum. Sterkt öryggisnet og aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu.

Það er merkilegt hve tær og sígild þessi gildi eru; gildin sem skilgreina okkur, gildin sem sameina okkur okkur Sjálfstæðismenn.

Áskorun okkar Sjálfstæðisfólks felst því ekki í hugmyndafræði okkar, þó að hún þurfi alltaf að vera til umræðu á frjóan hátt. Áskorun okkar felst fremur í því að miðla stefnu okkar betur, miðla gildum okkar betur, miðla árangri okkar betur, ná eyrum fleiri og höfða þannig til fleiri.

Og það skiptir máli að það séum við Sjálfstæðismenn sjálfir sem skilgreinum okkur sem stjórnmálaafl. Við látum það ekki í hendur pólitískra andstæðinga okkar að skilgreina okkur. Það er okkar hlutverk. Enginn annar mun gera það nema við sjálf.

Stuðningur við stjórnmálaflokka er ekki lengur eins skuldbindandi og hann var, sem helst nánast út yfir gröf og dauða. Það á enginn neitt, eða alla vega minna og minna. Við getum ekki gengið að neinu vísu. Við þurfum einfaldlega að hafa meira fyrir hlutunum – og við fögnum því.

Lykilatriði í þessari viðleitni okkar rímar vel við yfirskrift fundarins í dag, um að hlakka til framtíðarinnar. Og það er mjög dýrmætt að hlakka til framtíðarinnar.

Þetta lykilatriði er gleðin. Gleðin sem fylgir því að vera bjartsýn og hafa trú á getu mannsins til að leysa úr áskorunum og skapa sér og sínum gott líf.

Í mínum huga höfum við hægrimenn alltaf haft vinninginn þegar kemur að gleðinni.

Með fullri virðingu fyrir vinstrimönnum þá hættir þeim dálítið til að hafa allt á hornum sér. Að lítast ekki á blikuna. Að sjá hættur og vandamál í hverju horni – oftar en ekki hættur og vandamál sem hver þarf að leysa? Jú, ríkið. Að sjá manninn fyrst og fremst sem ógn við heiminn, hættulegan sjálfum sér og jörðinni. Að sjá fyrirtæki sem mögulegar svikamyllur. Að sjá einkaframtakið sem samviskulitla meinsemd.

Það er stundum eins og vígorð þeirra sé: Heimur versnandi fer.

Og þegar heimurinn fer versnandi, hvert er þá svarið? Jú, þá er svarið fortíðin. Að hverfa bara aftur til gamla tímans.

Hvað sem annars má segja um okkur hægrimenn þá erum við barasta ekki svona þjökuð af bölmóði og áhyggjum. Við lokum ekki augunum fyrir vandamálum og áskorunum en við höfum algjörlega óbilandi trú á að það sé hægt að leysa þær.

Þess vegna erum við bjartsýn.

Þess vegna erum við glöð.

Þess vegna kvíðum við ekki morgundeginum heldur hlökkum til hans.

Og sú tilhlökkun og sú gleði og sú samstaða sem hlýst að því að deila þessum tilfinningum með samherjum sínum; – þetta er það sem nær til fólks og gerir það að verkum að það vill slást í för með okkur, taka þátt í starfinu og halda áfram að bæta samfélagið á grunni okkar góðu gilda.

Kæru samherjar

Það verður ekki litið fram hjá því á þessari stundu, að við eigum að baki nokkuð erfitt tímabil sem einkenndist af líflegum skoðanaskiptum um þriðja orkupakkann.

Það fylgir því engin gleði að lenda í ágreiningi við samherja sína og út úr því kemur einfaldlega enginn sigurvegari.

Við slógum engar mótbárur eða spurningar út af borðinu. Við tókum þær alvarlega. Og ég vil beinlínis hrósa þeim sem settu fram spurningar og voru með efasemdir, því að niðurstaðan varð vandaðri athugun á málinu og breytingar á afgreiðslu þess sem voru einfaldlega til bóta.

En það er ekki spurning hvort heldur hvenær pólitískir andstæðingar halda áfram að snúa út úr. Það eina sem er nokkurn veginn víst, er að það verður álíka trúverðugt og sú skýring Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að hann hafi stofnaði sérstakan starfshóp um sæstreng í samvinnu við David Cameron þáverandi forsætisráðherra Breta, af þeirri einu ástæðu að hann hafði bara svo miklar efasemdir um málið.

Svona eins og Katrín Jakobsdóttir hefði ákveðið með Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna að stofna starfshóp til að kanna fýsileika þess að staðsetja kjarnorkusprengjur í Keflavík, bara af því að hún hefur miklar efasemdir um málið.

Ekkert skiptir meira máli í stjórnmálum en trúverðugleiki – og í sumum málum er hann einfaldlega ekki til staðar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aftur á móti með stefnu sinni og verkum í gegnum tíðina unnið sér inn mikinn trúverðugleika þegar kemur að orkumálum. Okkur fannst þess vegna á þessum tímapunkti borðleggjandi að helga þennan flokksráðsfund að miklu leyti orkumálum. Við vildum gefa okkar besta fólki, sem hér er samankomið, tækifæri til að ræða þau vítt og breitt, skerpa og dýpka sýn okkar og til að koma með nýjar og ferskar áherslur.

Við Sjálfstæðismenn höfum mikilvægu forystuhlutverki að gegna í þessum málaflokki og við tökum því hlutverki alvarlega.

Við höfðum frumkvæði að því að móta fyrstu langtíma orkustefnuna fyrir Ísland, sem er eitt af meginverkefnum þessarar ríkisstjórnar.

Fjölmörg önnur orkutengd mál eru á dagskrá, eins og efling flutningskerfisins, mótun regluverks um vindorku, jöfnun dreifikostnaðar um landið allt, og ráðstafanir til að tryggja að framboð á raforku til heimila verði alltaf tryggt, sama hvað á dynur.

Það er mín skoðun að við eigum að vera alveg afdráttarlaus um eftirfarandi á þessum fundi: Að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að standa vörð um óskorað forræði okkar Íslendinga yfir eignarhaldi á orkuauðlindum landsins; að við ætlum að tryggja nægt framboð af raforku á sem hagstæðustu verði; að við ætlum að sjá til þess að heimili landsins verði aldrei berskjölduð fyrir orkuskorti; að við ætlum að nýta vistvæna orkugjafa landsins til að skapa atvinnutækifæri út um landið allt; og að við ætlum að tryggja að öflugur rekstur orkufyrirtækja í eigu ríkisins skili sér með beinum hætti í bættum hag fólks sem býr í þessu landi.

Ég bind ekki síður vonir við afraksturinn úr umræðum um hitt meginviðfangsefni þessa fundar, það er að segja umsvif hins opinbera. Hér þarf Sjálfstæðisflokkurinn að tala skýrt, viðra nýjar lausnir og leita nýrra leiða til að létta kerfin okkar. Auka skilvirknina, hleypa nýjum lausnum inn í þau sem bæta þjónustuna og minnka kostnaðinn, af því að það er hægt. Hið opinbera getur ekki verið án hagræðingarkröfu. Og opinbert eignarhald án skýrs markmiðs og afmarkaðs hlutverks er ekki gott. Flokkur sem er hægra megin við miðju verður að tala skýrt í þessum efnum – af því að enginn annar flokkur mun gera það.

Kæru Sjálfstæðismenn

Ég vil nota tækfærið hér til að óska þeim einstaklingi, sem hlýtur á þessum fundi kosningu til embættis ritara flokksins, til hamingju. – Og ég vil auðvitað líka nýta þetta tækifæri til að þakka Áslaugu Örnu fyrir vel unnin og kröftug störf í þágu flokksins undanfarin ár; í þágu flokksins og í þágu flokksmanna. Og ég óska henni að sjálfsögðu góðs gengis í nýju og vandasömu verkefni sem ég veit að hún mun leysa vel af hendi.

Mig langar líka til þess að þakka ykkur, þakka ykkur öllum fyrir fórnfúst og kröftugt starf, hvort sem er á vettvangi sveitarstjórna, í félögum Sjálfstæðisfólks víðsvegar um landið, á kaffistofum eða samfélagsmiðlum eða á öðrum vettvangi.

Kæru vinir, ég nefndi hér áðan að stjórnmálaflokkar fá ekkert gefins í kosningum. Stjórnmálaflokkar sem skilja framtíðina eiga erindi við framtíðina og þar þurfum við að tala mjög skýrt.

Það sama gildir um forystufólk stjórnmálaflokka; að ekkert fæst gefins. Og ég er þakklát fyrir að fá að gegna ábyrgðarstöðum fyrir ykkar hönd og ég er meðvituð um það á hverjum einasta degi að gera mitt besta til að verðskulda það traust áfram.

Ég er bjartsýn á framtíð flokksins okkar og landsins okkar.

Ég er glöð yfir því að eiga þetta öfluga, skynsama og skemmtilega samherja.

Ég hlakka til dagsins í dag, ég hlakka til kvöldsins, ég hlakka til morgundagsins – að fá að vinna með ykkur í þágu lands og þjóðar.

Takk.