Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Jarðvegur tækifæra um allt land

Umræður á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra, 24. janúar 2017.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Framsýnn maður er í eðli sínu yfirleitt bjartsýnn maður. Hann kvíðir ekki framtíðinni heldur lítur á hana sem tækifæri til að gera betur, komast lengra. Ég lít björtum augum á framtíð okkar Íslendinga. Verkefni verða leyst og vinnubrögð verða vandaðri.

Það er skylda stjórnmálamanna að stýra okkar góða samfélagi til enn betri vegar með langtímahugsun að leiðarljósi. Þess vegna er við hæfi að framsýni skuli vera annað af tveimur helstu leiðarstefum í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Við ætlum að nýta tækifærin og takast á við áskoranir. Undanfarin ár hefur margt verið mjög vel gert. Hvað sem líður dægurþrasi stjórnmálamanna þá er staðreyndin sú að staða Íslands er öfundsverð. Grundvöllurinn að þessu öllu er dugnaður þjóðarinnar, þor atvinnulífsins til að nýta tækifæri og kjarkur stjórnvalda til að takast á við fordæmalaus vandamál.

Allar framfarir byrja sem hugmynd, fræ. Við réttar aðstæður geta slíkar hugmyndir aukið verðmætasköpun og jafnvel breytt lífi okkar. Við erum lánsöm að búa í landi sem er fullt af tækifærum og þar sem möguleikar fólks til að grípa þessi tækifæri eru jafnari en víðast hvar annars staðar. Það að láta hugmynd verða að veruleika er sjaldnast fjarlægur draumur heldur í flestum tilfellum innan seilingar.

Þegar við heyrum um stórkostlegar uppgötvanir og framfarir hættir okkur til að einblína á nánast ofurmannlega snilligáfu tiltekinna einstaklinga en vanmeta jarðveginn sem þeir spruttu upp úr, tækifærin sem þeir fengu, menntunina sem þeir nutu og aðstæðurnar sem þeir bjuggu við. Það sem ráða mun úrslitum um hvernig okkur farnast í framtíðinni er hversu vel okkur tekst að tryggja umhverfi sem stuðlar að því að hæfileikar allra fái að njóta sín. Ef við vinnum að því að tryggja að allir hafi tækifæri til að þroska hæfileika sína til fulls mun það hætta að koma okkur á óvart að svo fámenn þjóð eigi afreksfólk í íþróttum, framúrskarandi vísindamenn, farsæla listamenn, nú eða landslið kvenna og karla á stórmótum. Þannig samfélag er eftirsóknarvert og heilbrigt.

Það að gefa öllum tækifæri og skapa rétta umgjörð felur jafnframt í sér virðingu fyrir því að áhugi fólks liggur á mismunandi sviðum. Allt of fáir sækja iðn- og tæknimenntun hér á landi. Við því verður að bregðast. Iðnmenntun er þýðingarmikil fyrir okkar samfélag og skilar okkur meira skapandi samfélagi. Iðnmenntun kemur fólki jafnframt að í krefjandi og spennandi störf.

Hér eftir sem hingað til liggja dýrmætustu tækifærin í hugviti og nýsköpun í víðustu merkingu þeirra orða. Það á við á öllum sviðum, í öllum geirum, ekki bara hjá einkaaðilum heldur einnig í margvíslegri þjónustu sem hið opinbera veitir, ýmiss konar velferðarþjónustu, menntun og víðar. Sjávarútvegurinn hefur sýnt okkur hvernig hugvit og nýsköpun hafa stuðlað að því að til eru íslensk fyrirtæki sem nýta í dag yfir 95% af hverjum þorski en við nýttum áður innan við helming. Ekki leikur vafi á að hliðstæð tækifæri liggja víða.

Annar frumatvinnuvegur okkar, orku- og stóriðjugeirinn, býður einnig upp á sóknarfæri og þau eru miklu fjölbreyttari en nýjar virkjanir og verksmiðjur þótt umræðan vilji gjarnan festast þar. Fyrirtækin í þessum geira kaupa vörur og þjónustu af hundruðum íslenskra fyrirtækja fyrir tugi milljarða á ári, vélar og búnað sem íslensk fyrirtæki hafa þróað og hannað frá grunni og selja nú jafnvel til iðjuvera um allan heim. Þessi þáttur er oft vanmetinn þegar fjallað er um efnahagslegt mikilvægi stóriðju og líklegt er að þarna megi sækja auknar tekjur með hugvitið að vopni hringinn í kringum landið.

Góðir landsmenn. Ekki þarf að fjölyrða um gífurlegan vöxt ferðaþjónustunnar. Skynsamleg innviðauppbygging, umhverfisvernd og öryggismál ferðamanna eru aðkallandi. Tækifærin í ferðaþjónustu eru fleiri og fjölbreyttari en að fjölga fólki. Aukin gæði, aukin hæfni, aukin arðsemi, þetta eru allt mikilvæg markmið. Hafin er vinna við að þróa nám fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu sem auka mun gæði, verðmætasköpun og arðsemi í greininni þar sem byggt verður m.a. á reynslu frá Skotlandi og Kanada.

Tækifærin í ferðaþjónustu eru ekki síst úti á landsbyggðinni og miklu skiptir að nýta þau vel. Flest viljum við öfluga og blómlega byggð um landið. Hún er hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóð og við þurfum á henni að halda, rétt eins og landsbyggðin þarf á höfuðborginni að halda. Við sjáum víða á landsbyggðinni hvernig ferðamenn hafa skapað forsendur fyrir fjölbreyttari þjónustu, söfnum, verslunum og veitingastöðum, að ógleymdum margvíslegum list- og menningarviðburðum. Allt gerir þetta landið okkar sterkara og betra og áhugaverðara. Athugum að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sem blómstrað hafa um land allt undanfarin ár hafa verið og eru í nýsköpun.

Við höfum séð frumkvöðla ná árangri á sífellt fleiri sviðum á undanförnum árum. Tryggja verður að jarðvegurinn fyrir sköpunargleði þeirra og framtak verði áfram fyrir hendi. Kosturinn við hugvitið er að öfugt við flestar aðrar auðlindir þekkir það engin takmörk, svo lengi sem við gætum okkar á því að takmarka það ekki sjálf með því að draga úr möguleikum fólks til að nýta það.

Góðar stundir.