Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Mikilvægar aðgerðir í ferðaþjónustu

Morgunblaðsgrein, 8. október 2017.

Við Íslendingar höfum allar forsendur til að verða eitt allra besta ferðaþjónustuland heims og erum að mínu mati nær því en margir halda. Árangurinn er ekki mældur í fjölda ferðamanna heldur fyrst og fremst ánægju okkar gestgjafanna, ánægju gesta okkar, arðsemi og efnahagslegum ávinningi og verndun náttúrunnar.

Það er ánægjulegt að lesa um upplifun ferðamanna af Íslandi á netsíðum á borð við Trip-Advisor. Þeir hrósa ekki síst þjónustunni sem þeir hafa fengið hér, fagmennsku og hlýlegu viðmóti sem skiptir höfuðmáli fyrir hvern þann sem ferðast. Ótrúlega hátt hlutfall slíkra umsagna eru ekki bara jákvæðar heldur glimrandi góðar sem segir okkur að starfsfólk í greininni er landi og þjóð almennt til sóma.

Stjórnvöld hafa fyrir sitt leyti stigið mörg markviss skref í rétta átt það sem af er árinu.

Við stofnuðum skrifstofu ferðamála í ráðuneytinu, þannig að nú eru sex stöðugildi tileinkuð greininni, þar sem áður var aðeins eitt og hálft.

Við efldum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og losuðum hann auk þess undan því hlutverki að fjármagna framkvæmdir á landi í ríkiseigu, sem eykur möguleika hans til að sinna öðrum hlutverkum sínum, til að mynda að fjölga áfangastöðum ferðamanna sem styður markmið okkar um betri dreifingu þeirra.

Ný Landsáætlun um uppbyggingu innviða er að fara af stað undir stjórn Umhverfisráðuneytisins og beinist einkum að náttúruvernd á ferðamannastöðum í eigu ríkisins og stærri þess háttar verkefnum á vegum sveitarfélaga.

Sveitarfélögum hefur verið leyft að innheimta gjald á bílastæðum, sem dregur úr þörf fyrir að nota skattfé almennings til að byggja þau upp.

Við komum nánast öllum forgangsverkefnum Stjórnstöðvar í framkvæmd fyrir sumarið. Meðal annars útvegaði ráðuneyti ferðamála næstum hundrað milljónir króna til að setja upp og þjónusta salerni á völdum áningarstöðum Vegagerðarinnar.

Verulegum hluta af aukafjárveitingum ársins til vegagerðar var ráðstafað inn á ferðamannaleiðir og aukið fé var sett í landvörslu á vegum Umhverfisráðuneytisins. Hvort tveggja er til marks um að Stjórnstöð ferðamála hefur staðið vel undir því hlutverki sínu að auka vægi ferðaþjónustunnar í ákvarðanatöku ólíkra ráðuneyta og stofnana.

Örfáum vikum eftir að ég kom í ráðuneytið ákváðum við að rúmlega tvöfalda framlag ríkisins til SafeTravel-verkefnis Landsbjargar. Samtök ferðaþjónustunnar komu einnig að því verkefni. Í sama anda var sú ráðstöfun okkar skömmu síðar, að útvega fjármagn til að láta Vegagerðina þróa ölduspákerfi fyrir Reynisfjöru.

Íslandsstofa hefur undanfarið unnið að markhópagreiningu fyrir Ísland sem verður kynnt eftir helgi, samhliða nýjum áherslum í verkefninu „Ísland allt árið”.

Ferðamálastofa hefur leitt vinnu við landshlutabundnar áfangastaðáætlanir (DMP) í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna. Miklu skiptir að hver landshluti skilgreini sína sérstöðu og teikni upp framtíðarsýn um þróun og skipulag ferðaþjónustunnar á hverju svæði fyrir sig.

Til stendur að auka stuðning stjórnvalda við markaðsstofurnar um það bil þrefalt, meðal annars til að þær geti fylgt þessari vinnu vel eftir.

Ferðamálaráð skilaði á dögunum vönduðum tillögum um 20 aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar sem ég hafði óskað eftir í sumar.

Í vikunni tryggðum við fjárhagsgrundvöll hins nýja Hæfniseturs ferðaþjónustunnar til næstu þriggja ára. Markmiðið er að auka framleiðni og gæði í ferðaþjónustu sem og starfsánægju og fagmennsku starfsmanna.

Á næstu dögum mun Stjórnstöð ferðamála kynna „mælaborð ferðaþjónustunnar”, en það er viðmót á vefnum þar sem hægt verður að nálgast helstu tölfræðiupplýsingar um ferðaþjónustuna á aðgengilegan hátt. Öll erum við sammála um mikilvægi gagna og að þau séu rétt og aðgengileg.

Við höfum auk þess lagt drög að lagabreytingum sem efla rannsóknir í ferðaþjónustu og herða á kröfum um öryggi. Hvort tveggja eru skýrir hagsmunir greinarinnar til lengri tíma.

Síðast en ekki síst hófst nýlega vinna við langtímastefnumótun í ferðaþjónustu sem lengi hefur verið kallað eftir. Verkefnisstjórn hefur verið skipuð og afurðin verður þingsályktunartillaga haustið 2019 um stefnuna til ársins 2025.

Framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er björt ef við vöndum okkur við að verja þá eftirsóknarverðu stöðu sem við erum í, höldum áfram að stíga markviss rétt skref fram á við, höldum áfram að gefa metnaðarfullum einstaklingum frelsi til athafna og gott svigrúm til að bjóða þjónustu á heimsmælikvarða, og missum ekki sjónar á lokatakmarkinu, sem er að verða sannarlega eitt besta ferðaþjónustuland heims samkvæmt öllum helstu mælikvörðum.