Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Orkuskipti sameina styrkleika Íslands og áskoranir heimsbyggðarinnar

Ræða á stefnumóti við sjávarútveginn í Háskóla Íslands, 17. mars 2021.

Kæru gestir og áhorfendur

Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið til að taka þátt í að opna þetta stefnumót við sjávarútveg með því að segja nokkur orð um þessa undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga frá sjónarhóli málefna sem standa mér nærri, það er að segja nýsköpunar, orkuskipta og sjálfbærni.

Sjávarútvegur stendur á sterkum stoðum hvað þetta varðar.

Við erum réttilega stolt af þeirri sjálfbæru nýtingu auðlinda hafsins í íslenskri lögsögu, sem náðst hefur fram með farsælu samspili vísindalegra ákvarðana um nýtingu, annars vegar, og viðskiptalegra forsendna fyrir arðbærum veiðum, hins vegar.

Þetta er samspil sem er ekki sjálfsagt, eins og við þekkjum bæði af okkar eigin reynslu í fortíðinni, og reynslu annarra fram á þennan dag.

Nýsköpun er annar vettvangur þar sem íslenskur sjávarútvegur stendur sterkum fótum. Reynslan hefur sýnt að nýsköpun dafnar ekki hvað síst í kringum rótgróna starfsemi á borð við sjávarútveg, sem hefur styrk og burði til að láta reyna nýjar lausnir.

Áhersla ríkisstjórnarinnar á nýsköpun hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum. Við innleiddum nýsköpunarstefnu sem hefur að mínu mati ekki bara skilað sér í aðgerðum heldur líka í breyttu hugarfari.

Nýsköpun er ekki lengur töluð niður sem krúttlegt gæluverkefni heldur er hún alls staðar í forgrunni sem raunverulegt og mikilvægt viðfangsefni sem við verðum að sinna.

Því að nýsköpun er það sem gerir okkur í stakk búin til að takast á við óvissu og áskoranir framtíðarinnar, grípa tækifærin, skapa verðmæti, bæta lífskjör og tryggja stöðu okkar í alþjóðlegri samkeppni.

Samhliða þessari hugarfarsbreytingu höfum við gripið til aðgerða: Stóraukið fjárhagslegan stuðning við rannsóknir og þróun, endurskipulagt stuðningsumhverfi nýsköpunar til að gera það markvissara og betra, stofnað Kríu til að styðja við fjármögnun vísisjóða, auðveldað erlendum sérfræðingum að vinna hér tímabundið lengur en áður, rýmkað heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga, og þannig mætti áfram telja.

Það má færa rök fyrir að það hafi sjaldan eða aldrei verið eins bjart yfir íslensku nýsköpunarumhverfi og einmitt nú.

Nýsköpunarfyrirtæki sóttu sér í fyrra tæplega 30 milljarða króna í fjármögnun, og meira en helmingurinn af því fjármagni kom frá útlöndum.

Ný könnun á vegum Íslandsstofu sýnir að flest nýsköpunarfyrirtæki sjá fram á vöxt næstu tólf mánuðina og nær öll hyggjast fjölga starfsmönnum á árinu.

Ég tel að einhver stærstu skref Íslands á næstu árum verði þau sem sameina það tvennt sem ég hef nefnt hér: nýsköpun og sjálfbærni. Einn mikilvægasti skurðpunktur þessara málaflokka eru orkuskiptin.

Eins og þið vitið felur ný orkustefna í sér markmið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi árið 2050, og ég tel að við eigum að hafa það markmið að verða fyrst. Það myndi ekki bara vekja heimsathygli heldur treysta orkuöryggi okkar, spara mikinn gjaldeyri og leggja grunn að nýjum iðnaði, störfum og útflutningi.

Orkuskipti eru sérstaklega spennandi vegna þess að þau sameina sérstöðu og styrkleika Íslands annars vegar, og eitt stærsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar hins vegar.

Tækifæri okkar til að taka afgerandi forystu á þessu sviði birtist meðal annars í því, að Ísland er í fyrsta sæti á lista MIT-háskólans, þar sem reiknuð hefur verið út „vísitala grænnar framtíðar“. En við erum þó bara sjónarmun á undan Dönum og Norðmönnum, sem sýnir að við þurfum að halda vöku okkar og halda áfram að stíga markviss skref.

Við höfum áður tekist á við stór og metnaðarfull markmið í orkuskiptum. Hitaveituvæðingin er besta dæmið um það. Ný aðgerðaáætlun orkustefnunnar, sem ég lagði nýlega fram, varðar fyrstu skrefin.

Þróunin er á fleygiferð og til marks um það hefur skipafélagið Maersk tilkynnt að það ætli að hætta að nota olíu á öll sín skip, og að fyrsta „græna“ skip fyrirtækisins verði sjósett eftir tvö ár, knúið rafmetanóli.

Þannig að orkuskiptin eru svo sannarlega að knýja dyra í haftengdri starfsemi og við ætlum að taka þátt í þeirri þróun. Sjávarútvegur hefur þegar náð miklum árangri við að draga úr losun og ég tel að stjórnvöld þurfi að leggjast á árarnar með greininni í áframhaldandi viðleitni í þessa átt.

Það mun kalla á dýrar fjárfestingar, bæði í tækjabúnaði og innviðum. Við megum ekki gera greininni ókleift, með óhóflegum sköttum og gjöldum, að halda áfram að stíga rétt skref.

Réttilega hefur verið bent á að flest nágrannalönd okkar styðja myndarlega við þá nýsköpun sem oft er forsenda þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Til að Ísland dragist ekki aftur úr í alþjóðlegum samanburði tel ég að við þurfum að gera tvennt: Annars vegar að auka stuðning við íslensk fyrirtæki sem sækja í alþjóðlega samkeppnissjóði á þessu sviði, og hins vegar að leita áfram leiða til að bæta umhverfið hér heima, umfram það sem þegar hefur verið gert, til að auðvelda fyrirtækjum að innleiða grænar lausnir.

Fjárveitingar til orkuskipta hafa almennt verið auknar svo um munar á síðustu þremur árum, og við sjáum að það er þegar farið að hafa áhrif. Fyrri áfangar í þrepaskiptri áætlun Orkusjóðs hafa mikið til snúið að innviðauppbyggingu fyrir rafbíla, en í næsta áfanga er meðal annars horft til notkunar á rafeldsneyti við þungaflutninga og í hafsækinni starfsemi.

Við þurfum að ganga úr skugga um að stuðningsumhverfi okkar og regluverk hvað þetta varðar sé samkeppnishæft, því að markmið okkar, sem koma bæði fram í orkustefnu og nýsköpunarstefnu, eru skýr og þau eru metnaðarfull. Við þurfum að efla innviði, stuðla að framboði nýrra orkugjafa, gæta þess að álögur verði ekki óhóflegar og greiða götu grænna fjárfestinga.

Við finnum fyrir auknum áhuga erlendis, bæði af hálfu fyrirtækja og erlendra stjórnvalda, um samstarf varðandi græn tækifæri, meðal annars um framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti. Við eigum að taka vel á móti þeim tækifærum og í aðgerðaáætlun orkustefnu er að finna aðgerðir sem snúa að því.

Góðir áheyrendur

Við höfum raunhæft tækifæri til að halda forystu á vegferð þjóða heims inn í græna framtíð. Þar mun sjávarútvegur leika stórt hlutverk og ég hlakka til að eiga áfram samleið með greininni á þeirri vegferð, um leið og ég þakka Háskóla Íslands og viðskiptafræðideild fyrir að standa fyrir þessu stefnumóti, sem mun án efa varpa góðu ljósi á tækifærin sem við stöndum frammi fyrir.

Takk fyrir.