Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Orkustefna í mótun

Ræða á ársfundi Samorku, 6. mars 2019.

Kæru fundargestir,

Það er mér ánægja að vera með ykkur hér í dag á opnum ársfundi Samorku sem ber yfirskriftina „Orkustefna í mótun“.

Gerð heildstæðrar langtímaorkustefnu er brýnt málefni sem lengi hefur verið kallað eftir og er líklega það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir nú um stundir á sviði orkumála og auðlindanýtingar almennt.

Orkumál eru þess eðlis að þau hafa fjölmarga snertifleti við grundvallarþætti samfélagsins. Það blasir til dæmis við að orkumál eru nátengd byggðamálum, umhverfismálum, efnahagsmálum, nýsköpun, rannsóknum og almennri lífsgæðaþróun. Þannig hefur það verið undanfarna áratugi og mun áfram verða.

Í þessum málaflokki skiptir því sköpum að horfa fram í tímann og setja skýra langtímastefnu. Að hugsa í áratugum fremur en árum eða næsta löggjafarþingi. Að öðrum kosti getur okkur auðveldlega miðað af leið og við síðan rankað við okkur á röngum áfangastað.

Um mótun langtímaorkustefnu er fjallað í stjórnarsáttmála. Fyrir tæpu ári skipaði ég þverpólitískan starfshóp til að halda utan um það verkefni, þar sem allir þingflokkar á Alþingi eiga fulltrúa.

Starfshópurinn er nú á lokametrum í fyrri áfanga verkefnisins, sem felur í sér ítarlega undirbúnings- og greiningarvinnu sem er ætlað að mynda grundvöll fyrir mótun stefnunnar.

Fjöldi aðila hefur komið á fund starfshópsins undanfarna mánuði og skipulega hefur verið farið yfir öll þau svið sem farsæl langtímaorkustefna þarf að ná til.  Í erindisbréfi hópsins eru nefnd ein fimmtán efnisatriði sem fjallað skuli sérstaklega um.

Í síðari áfanga, sem er að hefjast um þessar mundir, verður sjálf stefnan skrifuð, lið fyrir lið og svið fyrir svið. Texti um áherslur, markmið og aðgerðir í langtímaorkustefnu mun því hægt og bítandi líta dagsins ljós á næstu mánuðum og stefnum við að því að verkefninu ljúki snemma á næsta ári.

Vissulega er þetta risavaxið verkefni, og mikið undir. Mín skilaboð til starfshópsins hafa verið þau, að leyfa sér að hugsa stórt.

Mig langar að nýta tækifærið hér og þakka starfshópnum, og Guðrúnu Sævarsdóttur formanni hans, fyrir þeirra vinnu og hvetja þau áfram til dáða.

Sömuleiðis vil ég þakka aðkomu allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum og komið með framlag í vinnuna. Samorka og aðildarfyrirtæki samtakanna hafa komið með virkum hætti að verkefninu og stutt vel við það með greiningum, gagnaöflun og ábendingum. Það er dýrmætt að geta sótt í þekkingar- og reynslubrunn orku- og veitufyrirtækjanna, og þau hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessari vinnu.

Það er að mínu mati lykilatriði að verkefnið fari fram fyrir opnum dyrum með beinni aðkomu sem flestra. Með því tryggjum við víðtækt eignarhald á orkustefnunni og jafnræði í hvernig hún verður til, sem er mikilvægt.

Á fyrstu stigum verkefnisins var í gegnum samráðsgátt stjórnvalda kallað eftir hugmyndum og innleggi frá almenningi, hagsmunasamtökum, félagasamtökum og atvinnulífi. Það var ánægjulegt að sjá hversu ítarlegar og greinargóðar umsagnir bárust frá ýmsum ólíkum aðilum í samráðsferlinu. Allt er þetta gott veganesti fyrir orkustefnunefnd til að vinna úr.

Þó að orkumál séu oft á tíðum bitbein í pólitískri umræðu þá er það mín skoðun að í grunninn séu landsmenn í megindráttum sammála um ákveðin grundvallaratriði sem ættu að varða veginn í orkustefnu Íslands.

Áherslur okkar í orkumálum, í dag og á undanförnum árum, hafa snúið að því að tryggja orkuöryggi heimila og fyrirtækja, auka afhendingaröryggi raforku, stuðla að auknum orkuskiptum í samgöngum, nýta orkuauðlindir okkar á sjálfbæran hátt með varúðarsjónarmið að leiðarljósi, efla nýsköpun í orkumálum, stuðla að virkri samkeppni á raforkumarkaði og aukinni neytendavernd, hvetja til aukinna orkurannsókna, kanna möguleika nýrra orkukosta á borð við vindorku, einfalda og skýra regluverk og styðja við útflutning hugvits, þekkingar og grænna lausna á sviði orkumála.

Allt eru þetta grundvallaratriði sem endurspegla ákveðið jafnvægi og almenn sátt ríkir þegar um. Ég tel því að við höfum góðan grunn til að byggja vinnu okkar á.

Um leið er mikilvægt að stefnan verði ekki bara upptalning á sjálfsögðum hlutum. Ég bind vonir við að hún verði eins afdráttarlaus og skýr og unnt er og feli í sér sem skýrust markmið og aðgerðir til næstu ára og áratuga.

Eftirfylgni er lykilatriði í allri stefnumörkun. Hér getum við vissulega tekið mið af þróun og stýringu orkumála meðal nágrannaþjóða okkar og það verður fróðlegt að hlýða á erindi norska sérfræðingsins hér á eftir, um stefnumótunina þar í landi.

Auk orkustefnunnar er á vegum ráðuneytisins að sjálfsögðu verið að vinna að fjölmörgum einstökum málum og verkefnum í orkumálum. Hér á þessum fundi langar mig að koma stuttlega inn á þrjú þeirra.

Í fyrsta lagi er að vænta á næstu vikum skýrslu starfshóps um orkuöryggi á heildsölumarkaði. Þó að það hafi oft verið nefnt þá vekur það furðulitla athygli að engum ber skylda til þess í dag að tryggja að rafmagn sé til staðar fyrir almennan markað. Áhugaleysið um þetta er enn merkilegra í ljósi þess að sumir hafa áhyggjur af því að þessi staða gæti komið upp einhvern tímann í framtíðinni, samkvæmt einhverri frekar ævintýralegri og langsóttri atburðarás. En staðreyndin er sú að þetta er nú þegar raunverulegt og tímabært viðfangsefni án þess að það veki neina umræðu. Engir ferlar eða fyrirmæli eru til staðar sem tryggja að heimili og minni fyrirtæki fái rafmagn ef sú staða kemur upp að þau verði minna álitlegur viðskiptavinur en stórnotendur. Úr þessu erum við sem sagt að bæta og með því erum við að verja mjög mikilvæga hagsmuni heimila og minni fyrirtækja.

Í öðru lagi er einnig að vænta á næstu vikum skýrslu starfshóps um þrífösun rafmagns og jöfnun dreifikostnaðar raforku. Þróun dreifikostnaðar raforku í dreifbýli er að mínu mati óviðunandi og mikið áhyggjuefni. Bilið á milli þéttbýlis og dreifbýlis er sífellt að vaxa.

Núverandi jöfnunargjald, sem var ætlað að jafna muninn, tryggir ekki nema rúmlega helming þeirrar niðurgreiðslu sem þyrfti til að ná því markmiði.

Þetta mál er í forgangi hjá okkur og tíðinda er að vænta á næstu vikum um hvernig brugðist verði við. Það er ekki ásættanlegt að notendur í dreifbýli greiði miklu hærri dreifikostnað en notendur í þéttbýli. Og það gengur gegn meginreglum sem við höfum mótað í okkar samfélagi um þokkalegt jafnræði gagnvart helstu innviðum, svo sem í samgöngum og fjarskiptum. Þetta ójafnræði er að mínu mati einn alvarlegasti ágallinn á þeim raforkumarkaði sem við höfum sett hér upp og búum við.

Í þriðja lagi ber síðan að nefna áframhald orkuskipta. Þar ætlum við að bæta verulega í enda eru orkuskipti flaggskipið í aðgerðaráætlun stjórnvalda um loftslagsmál. Unnið er að tillögum um forgangsröðun verkefna og þær eru væntanlegar innan skamms.

Kæru fundargestir.

Ég vil að lokum þakka Samorku fyrir afar gott samstarf. Það eru spennandi tímar fram undan í orkumálum þjóðarinnar. Það er mikilvægt að til staðar séu öflug samtök á borð við Samorku, sem geta lagt sitt lóð á vogarskálina í almennri umræðu um orkumál og miðlað upplýsingum, reynslu og þekkingu með faglegum hætti.

Takk fyrir.