Fréttablaðsgrein, 5. október 2020.
Nýrri Orkustefnu sem nú hefur verið kynnt fylgir skýr framtíðarsýn um sjálfbæra orkuframtíð. Það eru dýrmæt og mikilvæg tímamót að þverpólitísk sátt hafi náðst um framtíðarsýn, leiðarljós og tólf meginmarkmið Íslands í orkumálum.
Stefnan nær til ársins 2050 og er fyrsta langtíma-orkustefnan fyrir Ísland sem unnin er með þessum hætti. Yfirskrift hennar er „Sjálfbær orkuframtíð“.
Með stefnunni er stefnt að því að gæta hagsmuna núverandi sem komandi kynslóða. Sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.
Stefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og í samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila. Fulltrúar allra þingflokka auk fjögurra ráðuneyta átti sæti í starfshópnum sem vann stefnuna. Einhugur var um niðurstöðuna.
Ég vil þakka öllum sem unnu að stefnunni fyrir að leggja þann metnað og alúð í þetta verkefni sem afurðin endurspeglar. Það var lykilatriði að stefna í þessum viðkvæma málaflokki yrði mörkuð með breiðri samstöðu og samráði. Það gekk eftir.
Orkustefnan kveður á um tólf meginmarkmið sem skiptast í fimm svið: Orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, umhverfisvernd og samfélagslegan ávinning.
Stefnan boðar sjálfbæra orkuframtíð. Að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri orkuvinnslu, orkuskiptum og orkunýtni. Að orkuþörf samfélagsins sé mætt. Hún gefur engan afslátt af náttúruvernd, þvert á móti, og oft getur þetta tvennt farið saman. Þannig eru orkuskipti og loftslagsmál óaðskiljanleg verkefni.
Rík áhersla er í stefnunni á jafnt aðgengi allra landsmanna að orku og trausta innviði.
Með Orkustefnu fáum við skýra framtíðarsýn sem varpar ljósi á þau fjölmörgu forgangsverkefni í orkumálum sem við getum náð samkomulagi um þvert á flokka. Það mun setja sterkara kastljós á þau verkefni en fram til þessa, sem stuðlar að hraðari framförum.
Dæmi um slík verkefni eru til dæmis sterkari innviðir, jafn aðgangur að orku um allt land, fjölnýting auðlindastrauma, breiðari áherslur í orkuskiptum, skýrari sýn á orkuþörf og orkuframboð á hverjum tíma og virkari orkumarkaður.
Orkustefnan leysir auðvitað ekki öll ágreiningsmál. En hún leiðir fram hvað við getum verið sammála um þegar við setjumst niður í einlægum vilja til að koma okkur saman um grundvallarmarkmið. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegur vegvísir til framtíðar.
Stefnan segir ekki til um hvað eigi að virkja mikið eða í hvað eigi að nota orkuna. Það er enda almennt ekki inntakið í orkustefnum annarra landa. Það verður því áfram sjálfstætt verkefni fyrir samfélagið að taka afstöðu til einstakra verkefna samkvæmt því regluverki sem gildir á hverjum tíma. En stefnan gefur leiðbeiningar um þau sjónarmið sem við eigum að horfa til við þær ákvarðanir, t.d. sjálfbærni, umhverfisvernd og samfélagslegan ávinning.
Rammaáætlun er ekki nefnd í stefnunni en hún kveður hins vegar á um að til staðar skuli vera langtímaáætlanir um nýja orkukosti til þess að hægt sé að mæta framtíðarþörfum samfélagsins. Það er okkar að velja bestu leiðina til að uppfylla það markmið.
Þá er kveðið á um það í stefnunni að auðlindir í opinberri eigu skuli vera það áfram.
Orkustefnan verður lögð fyrir Alþingi sem skýrsla til umræðu á þeim vettvangi. Næstu skref eru síðan að fylgja eftir þeim fjölmörgu verkefnum í orkumálum sem eru þegar hafin og móta bæði næstu verkefni og árangursvísa til að mæla hvernig okkur miðar.
Ég hlakka til að fylgja eftir áherslum nýrrar Orkustefnu og hvet lesendur til að kynna sér efni hennar á vefnum www.orkustefna.is.