Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Hvert er hið fullkomna ferðamannaland?

Ræða á Ferðamálaþingi, 4. október 2017.

Forseti Íslands, ferðamálastjóri, Taleb Rifai aðalritari ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, aðrir góðir gestir.

Það hafa verið forréttindi að starfa sem ráðherra ferðamála á spennandi, skemmtilegum og krefjandi tímum fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein.

Á þeim tæplega níu mánuðum sem ég hef gegnt embætti hef ég fengið tækifæri til að ræða um stöðu ferðaþjónustunnar við fjölda fólks sem starfar við greinina, víðs vegar um landið.

Á einum af þessum fundum, fyrir norðan, barst talið að spurningunni: „Hvernig gerum við Ísland að besta ferðaþjónustulandi heims?”

Einn viðstaddra svaraði að bragði: „Erum við það ekki nú þegar?” – Enginn sem sat við borðið mótmælti þessu mati.

Ég skal játa að þetta var dálítið óvænt svar. Sú skoðun heyrist nefnilega líka, að við eigum langt í land og séum jafnvel aftarlega á merinni. Ég treysti mér ekki til að fullyrða hvor skoðunin er algengari meðal þeirra sem starfa í greininni, en sú síðari er vissulega meira áberandi í umræðunni.

Auðvitað á það að vera markmið okkar, að vera í fremstu röð í heiminum.

En hvaða land er næst því að verðskulda þann titil? Og hvað vantar upp á til að Ísland komist á þann stað?

Við þekkjum lykilmælikvarðana: Ánægðir gestgjafar, ánægðir gestir, arðbær fyrirtæki og óspjölluð náttúra.

Við höfum á þessu ári stigið markviss skref í rétta átt. Og við höfum líka hlaðið nokkrar vörður sem marka leiðina fyrir næstu skref.

Ég kem betur að því síðar. En fyrst er gagnlegt, upp á samhengi hlutanna, að gera sér grein fyrir því að allir glíma við sínar áskoranir. Jafnvel þau lönd og áfangastaðir sem almennt er álitið að kunni sitthvað fyrir sér þegar kemur að ferðaþjónustu.

Þjóðgarðar í Bandaríkjunum þykja í fremstu röð þegar kemur að skipulagi og móttöku ferðamanna. Í kynnisferð til Bandaríkjanna í síðasta mánuði heyrði ég frá fyrstu hendi að þeir eiga engu að síður fullt í fangi með að hafa hemil á ferðamönnum, sem fara sér margir að voða með gáleysi, allt of oft með skelfilegum afleiðingum. Þarna er líka misbrestur á fleiri þáttum: löggæsla er undirfjármögnuð; skrifræði er mikið og flækjustig hátt; ábyrgð á því sem gerist á landamærum þjóðgarða er óljós; og þannig mætti áfram telja.

Kosta Ríka er brautryðjandi í langtíma-stefnumörkun í ferðaþjónustu, og hefur afburðagott orðspor. Fyrr á árinu hitti ég ráðgjafa þaðan sem gjörþekkir aðstæður. Ein af þeim erfiðu áskorunum sem þar er verið að glíma við er vændi, sem oft er skæður fylgifiskur ferðamannastraums, ekki síst frá velmegandi löndum til fátækari samfélaga. Við hugsum kannski ekki út í slíkar áskoranir þegar við sjáum fyrir okkur þjóðgarðana, líffræðilega fjölbreytileikann og óspilltu skógana sem landið er þekkt fyrir.

Fyrir nokkrum mánuðum kom hingað til lands sérfræðingur frá Írlandi, sem sagði frá því hvernig vinsælar gönguleiðir þar í landi liggja víða undir skemmdum vegna ágangs. Hún sýndi líka myndir af misheppnuðum tilraunum til að byggja upp aðstöðu sem gerði í raun illt verra og varð lýti á umhverfinu. Þykja Írar þó engir aukvisar þegar kemur að skipulagi ferðaþjónustunnar.

Balí, sú mikla paradís í hugum flestra, hefur látið á sjá sem áfangastaður eftir að verð voru lækkuð, að sögn ráðgjafa aðalritara ferðamannastofnunarinnar, sem kom hingað til lands í síðustu viku og hélt hér erindi. Verðin voru lækkuð til að vinna á móti fækkun gesta eftir hryðjuverkaárásir fyrir fimmtán árum, en afleiðingin varð straumur af öðruvísi gestum, þannig að nú er stærra hlutfall gesta en áður fyrst og fremst að leita sér að fallegum stað til að drekka bjór.

Cinque Terre á Ítalíu er ein vinsælasta gönguleið Evrópu og þó víðar væri leitað. Þarna fara tvær til þrjár milljónir manna á hverju ári um lítið svæði með um fjögur þúsund íbúa. Vinsælasta hluta leiðarinnar var lokað eftir grjóthrun fyrir fimm árum. Hann hefur ekki ennþá verið opnaður, fimm árum síðar, vegna þess að fámennt samfélagið á staðnum hefur ekki efni á að gera leiðina örugga, og ríkið hefur ekki viljað borga. Samt eru gestir á þetta eina svæði hátt í þrjár milljónir á ári. Fjöldatakmarkanir og gjaldtaka hafa verið til umræðu þarna árum saman en eru ekki ennþá komnar til framkvæmda nema að litlu leyti. En ágangurinn er slíkur að einhver þorp á svæðinu hafa hreinlega lokað dyrum sínum.

Í nýlegri blaðagrein um ferðaþjónustu á Nýja-Sjálandi birtist sláandi mynd af lítilli kirkju sem er vinsæll ferðamannastaður. Það sem er sérstakt við myndina er að það sést varla í kirkjuna fyrir sæg af húsbílum sem búið er að leggja allt í kring um hana. Myndin er sögð lýsandi fyrir stjórnleysi og skort á skipulagi. Í greininni er líka fjallað um átroðning á náttúruna, deilur um gjaldtöku, skort á salernum og öðrum innviðum, öngþveiti á flugvöllum og umferðartafir á vegum. Allt þetta og meira til er mjög til umræðu á Nýja-Sjálandi um þessar mundir, og hljómar kunnuglega.

Það er ekki einfalt að finna besta ferðamannaland heims. Ég held því alls ekki fram að við séum á toppnum, en ég tel að við eigum ekki eins langt í land og sumir vilja meina.

Það er til að mynda með töluverðum ólíkindum að lesa dóma um upplifun ferðamanna af Íslandi á netsíðum á borð við Trip Advisor. Stundum er það náttúran sem á mestan heiður, en mjög oft eru það rekstraraðilar í ferðaþjónustunni sem fá þarna staðfest svart á hvítu hvílíka afburða-þjónustu þeir veita. Neytendur í dag hika ekki við að gefa slæma einkunn ef svo ber undir, en það virðist fremur sjaldan vera tilefni til þess þegar kemur að íslenskri ferðaþjónustu. Þvert á móti er ótrúlega hátt hlutfall umsagna ekki bara jákvæðar heldur glimrandi góðar. Fyrir það á greinin, á heildina litið, mikinn heiður skilið og er landi og þjóð til sóma.

Kæru gestir,

Frá fyrsta degi í embætti sagði ég að það væri ekki forgangsmál að fjölga ferðamönnum. Mikilvægara væri að verja þá eftirsóknarverðu stöðu sem við værum komin í og byggja á þeim grunni.

Tveimur mánuðum síðar, á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar, gekk ég skrefi lengra og nefndi, að mögulega væri hin hraða fjölgun beinlínis ógnun við stöðu okkar. Ég leyfði mér að spyrja hver væru þolmörk Íslands, ekki bara frá sjónarhóli náttúrunnar heldur ekki síður – og jafnvel enn frekar – frá sjónarhóli samfélagsins, meðal annars í ljósi þess að hlutfall ferðamanna á hvern íbúa er að nálgast það hæsta sem þekkist í heiminum.

Ég var ekki viss um hvernig gestir á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar myndu taka slíku tali af hálfu hins nýja ráðherra. Það var því ánægjulegt að heyra að Grímur Sæmundsen, formaður samtakanna, talaði á mjög áþekkum nótum á sama fundi og sagði raunar beinlínis, að það þyrfti að „koma böndum á ofurvöxt í fjölda ferðamanna og tryggja hóflegan vöxt” – og jafnvægi – svo ég vitni orðrétt í ræðu hans. Sýn okkar á stöðu mála fór svo vel saman að það var engu líkara en að við hefðum borið saman bækur okkar fyrirfram, sem við höfðum þó ekki gert.

Nú hefur verið ákveðið, á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála, að ráðast í faglega greiningu á því sem mætti kalla „jafnvægisástand” hvað varðar getu Íslands til að taka á móti ferðamönnum. Við munum áfangaskipta verkefninu, en lokaafurðin verður greining á helstu innviðum, mat á því hvar við erum komin að þolmörkum, og síðast en ekki síst: Mat á því hvað þurfi að gera til að auka getu okkar á viðkomandi sviði, til að hækka þolmörkin. Full eining var um þetta verkefni meðal allra sem eiga sæti í Stjórnstöðinni og niðurstaðan mun hjálpa okkur við stefnumótun og forgangsröðun verkefna.

Eins og ég nefndi áðan höfum við tekið mörg önnur mikilvæg skref á árinu.

Við stofnuðum skrifstofu ferðamála í ráðuneytinu, þannig að nú eru sex stöðugildi tileinkuð greininni, þar sem áður var aðeins eitt og hálft.

Við efldum fjárhagslegan styrk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og losuðum hann auk þess undan því hlutverki að fjármagna framkvæmdir á landi í ríkiseigu. Sjóðurinn er því miklu betur í stakk búinn en áður til að sinna öðrum hlutverkum, meðal annars að fjölga áfangastöðum ferðamanna, sem styður við markmið okkar um aukna dreifingu. Þetta hlutverk var til staðar fyrir lagabreytinguna en svigrúmið til að sinna því var mjög lítið vegna þess að ríkið var sjálft í samkeppni um úthlutanir.

Samhliða þessu gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir 400 milljónum í Landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem Umhverfisráðuneytið stýrir og beinist einkum að náttúruvernd á ferðamannastöðum í eigu ríkisins og stærri verkefnum sveitarfélaga. Því til viðbótar fá þjóðgarðarnir nokkur hundruð milljónir til framkvæmda, auk þess sem þeir hafa nú skýrari heimildir en áður til gjaldtöku, sem gera má ráð fyrir að auki enn svigrúm þeirra til að bjóða upp á viðunandi aðstöðu.

Við heimiluðum sveitarfélögum að innheimta gjald á bílastæðum, sem dregur úr þörfinni fyrir að nota skattfé almennings til slíkra verkefna, og losar þar með um svigrúm til annarra hluta.

Við komum nánast öllum forgangsverkefnum Stjórnstöðvar í framkvæmd fyrir sumarið. Meðal annars útvegaði ráðuneyti ferðamála næstum hundrað milljónir króna til að setja upp og þjónusta salerni á vel völdum áningarstöðum Vegagerðarinnar, sem átti vafalaust þátt í að árleg salernisumræða var með minnsta móti að þessu sinni.

Verulegum hluta af aukafjárveitingum ársins til vegagerðar var ráðstafað inn á ferðamannaleiðir, og aukið fé var sett í landvörslu á vegum Umhverfisráðuneytisins. Hvort tveggja er til marks um að Stjórnstöð ferðamála er að sinna því hlutverki sínu ágætlega að auka vægi ferðaþjónustunnar í ákvarðanatöku ólíkra ráðuneyta. Þetta er mjög dýrmætt og hagsmunaaðilar sjá hér töluverða breytingu til batnaðar. Ég var áður aðstoðarmaður ráðherra samgöngumála og get því vitnað um það frá fyrstu hendi að stofnun Stjórnstöðvar hefur leitt til þess að önnur ráðuneyti hafa skýrari sýn en áður á þarfir ferðaþjónustunnar. Segja má að Stjórnstöðin gegni tvenns konar hlutverki: annars vegar að vinna að áþreifanlegum verkefnum, og hins vegar að stuðla að samstarfi og skilningi innan allrar stjórnsýslunnar; aðstoða okkur við að brjóta niður veggi og múra, sem fólki finnst auðvitað að eigi ekki að vera til staðar en eru það oft engu að síður.

Örfáum vikum eftir að ég kom í ráðuneytið ákváðum við að rúmlega tvöfalda framlag ríkisins til SafeTravel-verkefnis Landsbjargar, enda höfum við viljað setja öryggismál í öndvegi.

Í sama anda var sú ráðstöfun okkar að útvega fjármagn til að láta Vegagerðina þróa ölduspákerfi fyrir Reynisfjöru.

Íslandsstofa hefur undanfarið unnið að markhópagreiningu fyrir Ísland, en fjármunir í þá vinnu komu í gegnum Stjórnstöð ferðamála. Niðurstaðan verður kynnt eftir helgi, samhliða nýjum áherslum í verkefninu Ísland allt árið.

Ferðamálastofa hefur leitt vinnu við landshlutabundnar áfangastaðáætlanir, eða DMP, í samstarfi við markaðsstofur landshlutanna. Miklar vonir eru bundnar við þetta verkefni enda er mikilvægt að hvert svæði skilgreini sína styrkleika og sína framtíðarsýn um þróun ferðaþjónustunnar á hverjum stað. Hér er um mjög stórt skref að ræða ef vel tekst til og ég vil þakka bæði Ferðamálastofu og markaðsstofunum fyrir metnaðarfulla vinnu.

Í sumar fól ég ferðamálaráði að gera tillögur að aðgerðum varðandi þrjár afmarkaðar áskoranir í greininni: heimagistingu, starfsemi erlendra aðila, og stöðu landsbyggðarinnar í ljósi verðhækkana í erlendri mynt. Ferðamálaráð skilaði á dögunum vönduðum tillögum um 20 aðgerðir, sem við kynntum með fréttatilkynningu. Ég vil þakka ferðamálaráði alveg sérstaklega fyrir vel unnið starf, og ég vænti þess að hver sem tekur við embætti ferðamálaráðherra að loknum kosningum taki við keflinu og nýti þessa vinnu til góðra verka.

Ein af tillögum ráðsins var að efla markaðsstofur landshlutanna. Sú stefna hafði þegar verið mörkuð í ráðuneytinu – þetta var raunar nefnt í fjárlagafrumvarpinu – og Ferðamálastofu hafði verið falið að endurskoða samninga sína við markaðsstofurnar með þetta að leiðarljósi. Það var því ánægjulegt að geta sagt frá því um leið og tillögur ferðamálaráðs voru kynntar, að til stendur að auka framlög til markaðsstofanna um það bil þrefalt. Tilgangurinn er ekki síst að tryggja að DMP-vinnunni, sem ég nefndi áðan, verði fylgt vel eftir.

Ég hef ekki tíma hér til að reifa aðrar tillögur ferðamálaráðs en að mínu mati liggur beint við að hrinda flestum þeirra í framkvæmd.

Það er mér ánægja að tilkynna hér opinberlega um önnur tímamót. Samningur við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins liggur nú fyrir, tilbúinn til undirritunar, þar sem ráðuneyti ferðamála tryggir fjárhagslegan grundvöll Hæfnisseturs ferðaþjónustunnar til næstu þriggja ára. Samningurinn hljóðar upp á fimmtíu, fimmtíu og tvær og fimmtíu og fimm milljónir króna á næstu þremur árum, og verður undirritaður í vikunni. Hæfnissetrið lofar nú þegar mjög góðu, ekki síst vegna þess hve vel Samtök ferðaþjónustunnar hafa stutt við faglegan undirbúning. Þetta mikilvæga verkefni styður auðvitað vel við markmið Vegvísis um gæði í íslenskri ferðaþjónustu.

Annað verkefni sem verður kynnt á næstu dögum er svokallað „mælaborð ferðaþjónustunnar”, sem Stjórnstöð ferðamála hefur látið þróa. Hér er um að ræða vef-viðmót þar sem nálgast má helstu tölfræði-upplýsingar um íslenska ferðaþjónustu á aðgengilegan og skýran hátt. Þótt mælaborðið verði fljótlega gert aðgengilegt verður haldið áfram að þróa það á vettvangi Stjórnstöðvar og bæta við fleiri upplýsingum, en eftir að þróunartímabilinu lýkur sé ég fyrir mér að það verði hýst hjá Ferðamálastofu.

Það er því alveg ljóst, kæru gestir, að stjórnkerfið hefur ekki slegið slöku við á árinu: ráðuneytið, Ferðamálastofa, ferðamálaráð, Stjórnstöðin, Íslandsstofa; allir hafa verið að vinna ötullega í þágu greinarinnar, og í góðri samvinnu við SAF, markaðsstofurnar, ferðaklasann og aðra hagsmunaaðila.

En eins og þið vitið öll þarf ekki að líta lengi í kringum sig í þessum sal til að sjá fílinn í herberginu. Nánast allur tími minn í embætti hefur einkennst af ákveðinni spennu á milli stjórnvalda og greinarinnar, vegna áforma um að færa ferðaþjónustu í almennt þrep virðisaukaskatts, úr 11 prósentum í 22,5, eða mögulega 22 eins og tekið var fram í fjármálaáætlun að gæti allt eins orðið raunin.

Eins og ég hef margoft sagt varð sú hugmynd ekki til á mínu borði. Og hún var svo sannarlega engin draumatillaga frá mínum bæjardyrum séð. En þegar ríkisstjórn hefur á annað borð samþykkt mál fer auðvitað almennt best á því að ráðherrar styðji hvern annan og rífi ekki niður málstað og stefnumál kollega sinna.

Fjármálaráðuneytið reiknaði út að breytingin fæli það í sér frá sjónarhóli hins dæmigerða ferðmanns, að heildarkostnaður við heimsókn hans til Íslands myndi hækka um fjögur prósent. Sú hækkun er auðvitað lítil samanburði við gengishækkun krónunnar. Hún er lítil í samanburði við gengislækkun breska pundsins. Og hún er lítil í samanburði við verðskrárhækkanir íslenskra hótela og gistiheimila, sem nema hvorki meira né minna en tuttugu og tveimur prósentum á aðeins tveimur árum, sem er langt umfram verðlag.

En auðvitað liggur það fyrir, að kaldari svæði eru ekki eins vel í stakk búin til að velta öllu slíku út í verðlagið. Það er að sjálfsögðu helsti veikleiki þessara áforma.

En ég minni á að hagsmunasamtök fyrirtækjanna í landinu, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, hafa hvatt stjórnvöld alveg sérstaklega til að samræma virðisaukaskatt milli atvinnugreina. Þetta hefur verið krafa atvinnulífsins, og hún var raunar líka samþykkt með ályktun á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þótt annarri ályktun af þeim fundi hafi verið meira hampað í þessari umræðu.

Reiknað hefur verið út að eitt vask-þrep gæti orðið 18,6%. Viðskiptaráð nefndi þá tölu í sinni umsögn um fjármálaáætlun og mælti með þeirri leið. Viðskiptaráð var því beinlínis að mæla með því að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu um 7,6 prósentustig, frekar en þau 11 sem nefnd eru í fjármálaáætlun.

Meira að segja Samtök ferðaþjónustunnar hafa fyrir sitt leyti verið jákvæð gagnvart einu vask-þrepi, að því gefnu að gefinn yrði góður fyrirvari og um væri að ræða raunverulega almenna aðgerð.

Kæru fundarmenn: Ég er ekki viss um að það geti staðist, að það sé í góðu lagi að fara í 18,6 en það sé tilræði við lífsafkomu greinarinnar að fara í 22. Það breytir því ekki að ég tel skynsamlegt að ráðast í betri greiningar á áhrifum þessa á afkomu fyrirtækjanna, sérstaklega á landsbyggðinni, og stjórnvöld taki síðan fullt tillit til niðurstöðu slíkra greininga.

Það er svo sannarlega ekki kappsmál mitt að standa í átökum við greinina því okkur hefur gengið vel að vinna saman að góðum málum. Þar á áhersla okkar að liggja: á samráð og gott samstarf, til að gera framtíðarsýn okkar um enn betri ferðaþjónustu að veruleika.

Kæru gestir

Nú í vetur stóð til að leggja fram frumvarp um breytta skipan ferðamála. Hlutar þess voru kynntir í vor, til að mynda auknar kröfur til ferðaskipuleggjenda um að setja sér öryggisáætlanir. Eðli málsins samkvæmt er frumvarpið ekki komið fram í endanlegri mynd, en við höfum gert ráð fyrir að bæta við hlutverkalýsingu Ferðamálastofu því verkefni að sinna bæði gagnaöflun og rannsóknum í ferðaþjónustu, sem er ekki hlutverk hennar samkvæmt núgildandi lögum. Hugsunin með þessu er á engan hátt að taka spón úr aski annarra aðila sem stunda rannsóknir og gagnaöflun. En ég tel skynsamlegt og eðlilegt að Ferðamálastofa hafi þarna formlegt hlutverk og ég sé raunar fyrir mér að hún gegni lykilhlutverki við að tryggja að stefna og aðgerðir stjórnvalda grundvallist á fullnægjandi rannsóknum og gögnum. Fjárlagafrumvarpið gefur töluvert svigrúm til að efla þessa mikilvægu þætti, sem er ekki vanþörf á.

Við getum öll verið sammála um að rétt og nákvæm gögn eru lykilatriði. Á fundi sem ég sat með ferðamálayfirvöldum innan OECD ríkjanna í París í vikunni lögðu ráðherrar ferðamála í öðrum löndum þunga áherslu á mikilvægi gagna, og ég tek heilshugar undir það, eins og líklega allir hér.

Mikið hefur verið fjallað um það undanfarið, að ferðamenn dvelji nú skemur á landinu en áður. Þær fréttir byggja á tölum um gistinætur, sem ná ekki utan um Airbnb. Nú liggja hins vegar fyrir upplýsingar sem sýna að gistinætur hjá Airbnb í Reykjavík meira en tvöfölduðust árið 2016 frá fyrra ári, og hefur svo enn fjölgað um 45% til viðbótar, það sem af er þessu ári. Augljóst er að útreikningar á dvalartíma, þar sem þessa Airbnb-sprengju vantar inn í fjölda gistinátta, eru verulegum annmörkum háðir. Það er því verðugt verkefni að endurreikna tölurnar með hliðsjón af þessum upplýsingum.

En aftur að frumvarpinu um skipan ferðamála. Í því stóð einnig til að afnema hið úrelta hlutverk ferðamálaráðs að gera áætlanir um markaðssetningu. Að öðru leyti hef ég ekki viljað hrófla við ferðamálaráði, og hef raunar fremur horft til þess að efla það, enda tel ég að það geti sinnt dýrmætu ráðgjafahlutverki, eins og sannaðist á góðri vinnu þess í sumar, sem ég nefndi áðan.

Frumvarpið felur ekki í sér hina endanlegu skipan ferðamála í landinu. Í stað þess að umbylta skipulaginu með einu skrefi finnst mér hyggilegra að hugsa stórt en byrja smátt og þróa svo hratt.

Við stofnun Stjórnstöðvar ferðamála var henni markaður líftími út árið 2020 og við öll sem stöndum að henni erum að sjálfsögðu byrjuð að hugsa og ræða hvað taki við.

Samvinna og samræming þvert á ráðuneyti er lykilatriði og í því sambandi mun hin nýja, sterka skrifstofa ferðamála í atvinnuvegaráðuneytinu hafa vaxandi hlutverki að gegna. Sumir vilja sjá sérstakt ferðamálaráðuneyti. Á fundi mínum með öðrum ferðamálaráðherrum innan OECD-ríkjanna, sem ég nefndi áðan, sagði einn kollegi minn, að eiginlega ættu öll ráðuneyti að hafa “ferðamál” í sínu heiti. Samgöngu- og ferðamálaráðuneyti. Umhverfis- og ferðamálaráðuneyti. Og svo framvegis. Þetta er mergurinn málsins; það þarf að tryggja að stjórnsýslan öll hafi ferðaþjónustuna í huga, því ferðaþjónustan fer um alla kima samfélagsins.

Góðir gestir

Eins mikið og við höfum sinnt aðkallandi verkefnum til skemmri tíma hef ég líka viljað setja skýra áherslu á langtímahugsun. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar felur auðvitað í sér markmið og mælikvarða til nokkurra ára. Vegvísirinn okkar segir til um sjö megin-áhersluþætti fram til ársins 2020 og verkefni sem þeim tengast. Og gildandi þingsályktun um opinbera stefnu í ferðamálum gildir sömuleiðis til ársins 2020.

Þau tímamót urðu nýlega, að nú er formlega hafin í ráðuneytinu vinna að því að semja opinbera ferðamálastefnu fyrir tímabilið 2020 til 2025. Ég hef skipað verkefnisstjórn með fulltrúum sex ráðuneyta, sem mun að sjálfsögðu hafa gott samráð við alla helstu hagsmunaaðila í greininni. Afurð þessarar vinnu verður þingsályktunartillaga, sem stefnan er að leggja fyrir Alþingi haustið 2019.

Langtímastefnumótun er lykilatriði, og við þurfum að horfast í augu við að hún fer ekki endilega alltaf saman við þá sýn og hagsmuni sem sumir kunna að hafa til skemmri tíma.

Til að ná markmiði okkar um að verða ótvírætt í hópi bestu ferðaþjónustulanda heims þurfum við að hafa hugrekki til að gera kröfur og setja mörk sem hugnast ekki endilega öllum. Það er eðli þess að hafa eftirsótta, takmarkaða auðlind í höndunum.

Framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er björt, ef við vöndum okkur við að verja þá eftirsóknarverðu stöðu sem við erum í, höldum áfram að stíga markviss rétt skref fram á við, eins og við höfum sannarlega verið að gera, og missum ekki sjónar á lokatakmarkinu.

Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum hagsmunaaðilum í greininni fyrir samstarfið þann örskamma tíma sem ég hef gegnt embætti. Ég viðurkenni fúslega að ég er sorgmædd yfir því að fá hugsanlega ekki að fylgja fleiri verkum úr hlaði en hér hafa verið talin upp. En um leið er ég stolt af því sem hefur áunnist.

Á þessum degi, sem skipulagður er af Ferðamálastofu, vil ég þakka öllu starfsfólki stofnunarinnar fyrir þeirra mikilvægu störf, og alveg sérstaklega ferðamálastjóranum okkar, Ólöfu Ýrr, en við höfum átt góð kynni og gott samstarf.

Kæru vinir,

Saman höfum við á árinu skrifað nokkra góða kafla í ævintýrið; ævintýrið um íslensku ferðaþjónustuna. Sögunni er hvergi nærri lokið, og framundan eru áskoranir sem kalla á skýra sýn, árvekni og góðar ákvarðanir.

En ég tel að við séum kominn á þann stað í sögunni, þar sem lokatakmarkið nálgast jafnt og þétt, og er í raun innan seilingar.

Lokatakmarkið, þar sem vönduð gögn og rannsóknir byggja undir trausta stefnumótun og stýringu. Lokatakmarkið, þar sem langtímahagsmunir heildarinnar eru í forgrunni, með þeim auknu kröfum og stýringum sem það kallar á. Lokatakmarkið, þar sem metnaðarfullir einstaklingar fá áfram frelsi til athafna og gott svigrúm til að halda áfram að bjóða upp á þjónustu sem er á heimsmælikvarða. Lokatakmarkið, þar sem sviðsmyndin fræga um framtíð íslenskrar ferðaþjónustu, sem hefur verið kölluð „Niceland”, verður að veruleika, en ekki sviðsmyndin þar sem við förum fram af bjargbrúninni.

Við erum jafnt og þétt að höggva okkur leið í gegnum þyrnigerðið í þessu ævintýri. Við erum komin á sporið. Við erum á réttri leið.

Megi okkur auðnast að villast ekki af henni heldur halda ótrauð áfram þannig okkur takist að hámarka þau stórkostlegu gæði sem ábyrg og sjálfbær ferðaþjónusta getur fært gestum okkar – og okkur sjálfum.

Takk fyrir.