Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Felst háski í ævintýri ferðaþjónustunnar?

Ræða á ferðaþjónustudegi Samtaka ferðaþjónustunnar, 16. mars 2017.

Kæru gestir – til hamingju með daginn. 

Það er virkilega ánægjulegt að ávarpa ferðaþjónustudaginn í fyrsta sinn.

Raunar má segja að eins og nú er ástatt á Íslandi sé varla hægt að tala um ferðaþjónustudaginn, því nú eru eiginlega allir dagar ferðaþjónustudagar.

Hvað getum við kallað þá byltingu sem orðið hefur í þessari atvinnugrein á skömmum tíma?

Eitt af þeim orðum sem koma upp í hugann, er orðið „ævintýri.“

Fjölgun ferðamanna hefur verið ævintýraleg. – Og fyrir ykkur sem starfið í greininni hefur alveg ábyggilega verið ævintýri líkast að taka þátt í þessu. – Orðið „ævintýri“ virðist því eiga mjög vel við.

Ævintýri fjalla oftast um ó-trúlega atburði, stundum yfirnáttúrulega. Það er það sem við meinum þegar við segjum að eitthvað sé ævintýri líkast. Það er eitthvað ótrúlegt, eitthvað magnað, og oftast eitthvað jákvætt og skemmtilegt, því að ævintýri enda jú næstum alltaf vel. 

Það er engin tilviljun að á enskri tungu er góður endir kallaður „fairy tale ending“. Ævintýralegur endir er góður endir. Samanber hin sígildu lokaorð margra ævintýra: „Og þau lifðu hamingjusöm upp frá því.“

En það er annað sem einkennir ævintýri. Í þeim er nefnilega oftast einhver háski á ferðum.

Nornin tælir Hans og Grétu inn í sælgætishúsið. Vonda stjúpan byrlar Mjallhvíti eitur. Úlfurinn leggur gildru fyrir Rauðhettu. 

Ef vöxtur ferðaþjónustunnar á Íslandi er ævintýri, þá getum við spurt okkur: Á hvaða blaðsíðu erum við stödd í ævintýrinu?

Erum við í byrjun sögunnar, þar sem allt leikur í lyndi? 

Erum við kannski í næsta kafla, þar sem blikur eru á lofti en söguhetjan gerir sér ekki ennþá grein fyrir því og trítlar þess í stað syngjandi glöð um skóginn með litlu körfuna sína?

Erum við mögulega komin lengra, á dimmari stað í sögunni, þar sem söguhetjan er komin í erfiða stöðu?

Eða erum við nær lokakaflanum, þar sem lausnin blasir við, öllum er ljóst hver eru næstu skref, prinsinn þarf bara að höggva niður svolítið af þyrnigerði og kyssa svo yngismeyna til að allir geti lifað hamingjusamir upp frá því?

Þetta er 560 milljarða króna spurningin … en slegið hefur verið á að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á þessu ári nái þeirri fjárhæð.

Svarið er ekki augljóst, en ég held að fáir efist um að spurningin á rétt á sér. Því að íslenska ferðaþjónustu-ævintýrið felur í sér áskoranir. 

Í fyrsta lagi hefur ferðamönnum fjölgað mun hraðar en getur til langs tíma samræmst markmiðum okkar um jafnvægi og sjálfbærni. Innviðir hafa víða ekki haft undan, hvort sem litið er til samgangna, gistirýmis eða aðstöðu við náttúruperlur. Nefna mætti ótal tölur um þetta en ég læt nægja að taka eitt dæmi úr nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna, þar sem fram kemur að áætluð fjölgun hótelherbergja á þessu ári nemur aðeins einum þriðja af áætlaðri þörf.

Í öðru lagi er líka orðið tímabært að spyrja, ekki bara hversu hratt við getum vaxið, heldur hversu mikið við getum og viljum vaxa. Með öðrum orðum: Hver séu þolmörk Íslands eða skynsamlegt markmið.

Við verðum að taka alvöru umræðu um hver sé framtíðarsýn okkar hvað þetta varðar, og vera óhrædd við að ræða einhver viðmið í því sambandi.

Án þess að ég vilji gefa mér niðurstöðuna fyrirfram þá er mín skoðun sú, að með því að byggja upp góða aðstöðu á ferðamannastöðum og bæta skipulag og stýringu, geti náttúra landsins vel borið mun fleiri ferðamenn.

Til marks um það þá taka ýmsir þjóðgarðar erlendis, sem eru aðeins lítið brot af Íslandi á stærð, á móti margfalt fleiri ferðamönnum en við, án teljandi vandræða. Ég held að við hljótum að geta gert það líka, þótt við eigum eitthvað í land með að vera undir það búin.

En á meðan þolmörk náttúrunnar eru að mínu mati mun hærri, – að því gefnu að við stöndum betur að innviðum og skipulagi, þá er ekki víst að hið sama gildi um hin samfélagslegu þolmörk.

Gangi spár eftir mun hlutfall ferðamanna á móti íbúafjölda landsins hækka á milli ára úr fimm og hálfum upp í sjö.– Hvað þýða þessar tölur? Jú, til samanburðar er þetta hlutfall á Spáni einn komma fjórir. Í Grikklandi er það tveir. Á Möltu er það fjórir.

Hlutfallið sjö skýtur okkur líklega upp í tíunda eða ellefta sæti heimslistans. Í tíu efstu sætunum eru aðallega eyjar í Karíbahafi, og síðan smáríki á borð við Andorra og Mónakó sem varla er raunhæft að bera sig saman við.

Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni.

Hvað ræður íslenskur vinnumarkaður við að sinna mörgum gestum? Hvað þolir efnahagslífið mikið innflæði af gjaldeyri? Það er vissulega lúxusvandamál – en áskorun engu að síður, eins og ferðaþjónustan og aðrar útflutningsgreinar þekkja mæta vel.

Ég er ekki að gefa mér svarið fyrirfram. En spurningin er réttmæt, og þess vegna hef ég sagt, raunar alveg frá því að ég tók við embætti fyrir um það bil sextíu dögum, að verkefnið er ekki að fjölga, verkefnið er að verja stöðuna og byggja upp.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum hér í gjaldtöku af greininni. Gjaldtaka er ekkert aðalatriði og fær að mínum dómi of mikið vægi í umræðunni. Án þess að ég hafi slegið neitt út af borðinu þá ætlum við ekki að láta uppbyggingu innviða standa og falla með komugjöldum eða einhverju álíka sem skilar hlutfallslega litlu í stóra samhenginu.

Að ræða um gjaldtöku eins og hún sé forsenda fyrir því að við höfum efni á að byggja upp lágmarksaðstöðu kemur mér spánskt fyrir sjónir. Ég geri hins vegar ekki lítið úr því að gjaldtaka getur í sumum tilvikum verið sanngirnis- eða réttlætismál – og hún getur verið leið til að gera svæði sjálfbær. Hún getur verið aðgangsstýringartæki, jafnvel álagsdreifingartæki upp að einhverju marki þó það sé takmarkað nema um væri að ræða mjög há gjöld.

Þegar kemur að innviðum verður ekki annað sagt en að ferðaþjónustan hafi sem atvinnugrein staðið sig vel við að byggja upp þjónustuinnviði. Samfara aukinni eftirspurn hafa ótal ný fyrirtæki sprottið upp um allt land og önnur breytt sínum áherslum, fjárfest, stækkað og styrkst til að veita gestum okkar þjónustu á borð við gistingu, veitingar og afþreyingu. Þetta er til þess fallið að gera landið okkar betra fyrir okkur öll. Byggðir blómstra. Í uppbyggingu ferðaþjónustunnar felst tækifæri fyrir eflingu byggða, sjálfsprottin og sjálfbær. Þessi uppbygging þarf að vera í góðri samvinnu við heimamenn. Það skiptir líka máli að halda í okkar sérkenni – því Ísland er einstakt.

Okkur hefur í raun tekist ótrúlega vel að mæta hraðri fjölgun ferðamanna. Kannanir sýna að ferðamenn eru upp til hópa afar ánægðir með dvöl sína. Þetta hefði ekki tekist án skjótra viðbragða frá einstaklingum og fyrirtækjum í greininni.

Þá hefur opinberu fé verið veitt til samræmdra markaðsaðgerða sem hafa hjálpað við að minnka árstíðasveifluna í öllum landshlutum.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á ferðamannastöðum víða um land fyrir tilstuðlan Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Í gær tilkynnti ég um úthlutun á 610 milljónum króna til uppbyggingar á næstum 60 ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Þessar 610 milljónir bætast við einn komma átta milljarða sem sjóðurinn hefur greitt út á þeim örfáu árum sem hann hefur starfað. Í ár fengu sveitarfélög tæplega 70% af fjárhæðinni og er sú fjárhæð hærri en áætlaður gistináttaskattur á síðasta ári.

Vönduð stefna hefur verið lögð fram í formi Vegvísis í ferðaþjónustu og grunnur greinarinnar er óðum að styrkjast eftir því sem verkefnum Vegvísis vindur fram í samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaganna og greinarinnar.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur verið stofnað, Flugþróunarsjóður er orðinn að veruleika og heimagistingu hefur verið settur skýrari rammi með lagabreytingu.

Í farvatninu eru fleiri aðgerðir sem munu skerpa á skipulagi greinarinnar. 

Eitt af mínum fyrstu embættisverkum var að stofna skrifstofu ferðamála í ráðuneytinu og forgangsraða innan ráðuneytisins þannig að nú eru stöðugildin fimm en ekki 1,5. Þetta skiptir máli til þess að ráðuneyti ferðamála hafi burði til þess að hafa alla anga úti – vinna með þeim hlutaðeigandi ráðuneytum er koma að uppbyggingu – samgönguráðuneyti, umhverfisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og stofnunum og greininni. Þetta var mikilvægt skref.

Í vor mun ég leggja fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um skipan ferðamála. Meginatriði þess verða annars vegar einföldun á leyfisveitingum og tryggingum, og hins vegar lögbinding á öryggiskröfum. 

Ég hef lagt fram til kynningar á vef ráðuneytisins drög að frumvarpi um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem felur í sér að sjóðurinn muni framvegis eingöngu sinna verkefnum á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila, en að sumu leyti fjölbreyttari verkefnum en hingað til. Þetta er gert til að draga úr skörun við hina nýju Landsáætlun á vegum umhverfisráðuneytisins, sem er ætlað að skipuleggja uppbyggingu innviða í þágu náttúruverndar, einkum á svæðum í eigu eða umsjón hins opinbera.

Vinna við stefnumótandi stjórnunaráætlanir – DMP áætlanir – er hafin eins og þið vitið, en í þeim verða áfangastaðir ferðamanna skilgreindir og skipulagðir í hverjum landshluta í samráði við heimamenn. Þessi verkfæri munu vonandi vinna vel saman og gera uppbyggingu ferðamannastaða skilvirkari og vandaðri.

Frekari leiðir til stýringar á flæði ferðamanna eru til skoðunar. Stýringu má ná fram með ýmsum leiðum, svo sem með fræðslu, landvörslu, einstefnu á gönguleiðum og jafnvel fjöldatakmörkunum þar sem farið er að reyna á þolmörk af einhverju tagi.

Þjónustusérleyfi að erlendri fyrirmynd eru til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í þeirri leið felst að ferðaþjónustufyrirtæki sem stunda útgerð inn á náttúruperlur í opinberri eigu, til dæmis þjóðgarða, þurfa til þess sérstakt leyfi, í raun nýtingarleyfi á hina takmörkuðu auðlind, og þessi leyfi eru boðin út. Þannig axlar greinin og hið opinbera sameiginlega ábyrgð í þágu sjálfbærni, og það á samkeppnisgrundvelli, án þess að það hafi áhrif á aðgengi fólks sem ferðast á eigin vegum. Ég bind vonir við þessa vinnu. Í mínum huga er þetta leið sem getur náð utan um ýmsar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. En stýringaraðgerðir eins og þessar þarf að vanda mjög og huga þarf að því að útfærslan sé sem skilvirkust fyrir greinina.

Kæru gestir,

Ég hafði aðeins verið nokkra daga í embætti þegar ég heimsótti frumkvöðlana hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og fékk kynningu á verkefninu „SafeTravel“ sem lýtur að upplýsingagjöf, fræðslu og annarri þjónustu í þágu öryggis og slysavarna ferðamanna.

Metnaðurinn og fagmennskan sem þarna birtist var með þeim hætti að ég óskaði strax eftir tillögum um hvernig mætti efla þetta starf. Afraksturinn er sá samningur sem við ætlum að undirrita hér á eftir.

Ég lít á þetta verkefni sem hluta af almannavörnum í landinu, sem þarf að efla vegna þess að hér er ekki um að ræða íslenskan almenning sem þekkir íslenskar aðstæður, heldur útlenskan almenning sem veit lítið (eða mismikið) um þær hættur sem kunna að felast í veðri, færð og öðrum aðstæðum á Íslandi. Þetta verður auðvitað æ meira aðkallandi eftir því sem fleiri heimsækja okkur utan sumartímans. Þetta verkefni skilar miklu fyrir greinina sjálfa, íslenskan almenning og ekki síst ferðamennina sem hingað koma.

Ég er stolt af því að hækka árlegt framlag ráðuneytisins til þessa verkefnis úr 16 milljónum í 25, og það er ferðaþjónustunni til sóma að aðilar innan ykkar samtaka eru einnig að stórauka sín framlög.

Góðir fundarmenn

Fyrir þennan fund hugsaði ég með mér í gamni, að ég gæti hafið mál mitt með því að segja, að ég hefði ákveðið að nota næstu tíu mínútur til að útskýra hvernig við leysum þær áskoranir sem íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir.

En ég er að sjálfsögðu ekki prinsinn í ævintýrinu, sem bregður sverðinu á loft, ryður sér braut í gegnum þyrnigerðið, vekur yngismeyna með kossi og tryggir þannig að allir geti lifað hamingjusamir upp frá því. Það er engin ein hetja í íslenska ferðaþjónustuævintýrinu. 

En við erum hins vegar, saman, höfundar að því. Við skrifum næsta kafla; og saman ætlum við að sjá til þess að íslenska ferðaþjónustu-ævintýrið standi undir nafni – til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Ég þakka Samtökum ferðaþjónustunnar og öllum fulltrúum þeirra fyrir gott samstarf þessar vikur sem ég hef verið í embætti. Ég hlakka til að halda því samstarfi áfram og óska ykkur öllum til hamingju með ferðaþjónustudaginn, í dag sem aðra daga.

Takk fyrir.