Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Raforkumál á Norðurlandi, og í stærra samhengi

Ræða á fundi Njáls Trausta Friðbertssonar og sjálfstæðisfélaganna á Akureyri um raforkumál á Norðurlandi, 7. nóvember 2019.

Kæru gestir.

Ég vil byrja á að þakka Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að hafa skipulagt og komið á þessum merkilega og tímabæra fundi um raforkumál á Norðurlandi.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að þetta er sá landshluti þar sem einna flest rauð ljós hafa logað í flutningskerfinu, og svo mjög að það hefur beinlínis hamlað atvinnuuppbyggingu.

Ríkisstjórnin setti það sem forgangsmál í stjórnarsáttmála að bæta úr þessu.

Í því skyni lagði ég í febrúar í fyrra fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfisins. Þar stendur að leggja skuli sérstaka áherslu á þau landsvæði sem búa við skert orkuöryggi og í nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillöguna eru nefnd þrjú svæði þar sem þörfin sé brýnust, það er að segja: Eyjafjarðarsvæðið, Vestfirðir og Suðurnes.

Þessi þingsályktun hefur að því leyti sterkari stöðu en margar þingsályktanir að Landsneti ber lagaskylda til að fara eftir henni við uppbyggingu flutningskerfisins. Og áherslurnar sem komu fram í tillögunni hafa að sama skapi skilað sér ágætlega í kerfisáætlun.

Það endurspeglast í því, að af fimm brýnustu verkefnum Landsnets eru þrjú hér á Norðurlandi: Blöndulína 3, Hólasandslína 3 og Kröflulína 3. Þingsályktunin er því að virka, að þessu leyti.

Því miður hafa hins vegar óhóflegar og óásættanlegar tafir í stjórnkerfinu hægt mjög á þessum áformum, og sýnt hefur verið fram á að málsmeðferð er miklu lengri hér á landi en til að mynda í Noregi.

Til að bæta úr þessu náðum við umhverfisráðherra nýlega samkomulagi um að fara í sameiningu fram á það við ríkisstjórnina að fá sérstaka aukafjárveitingu til Skipulagsstofnunar, sem yrði nýtt til þess að flýta afgreiðslu mála sem tengjast uppbyggingu raforkukerfisins. Tillagan var samþykkt og ég vænti þess að það beri skjótan árangur.

Til lengri tíma hljótum við síðan auðvitað að velta fyrir okkur að bæta leyfisveitingarferlið, þar sem að lágmarki yrði hugað að skilvirkni og samlegð á milli þeirra ferla sem við höfum í dag, en jafnvel gengið lengra og nýir og einfaldari ferlar smíðaðir í anda áherslu okkar á einföldun regluverks. Í Noregi er til dæmis bara um að ræða eina ákvörðun – það sem á ensku er kallað „one stop shop“.

Við horfum því vonandi fram á nýja tíma í raforkumálum hér á Norðurlandi innan fárra missera, sem munu skapa mikil tækifæri, ekki síst í atvinnuuppbyggingu.

Eins og þið vitið eru mörg stór verkefni í deiglunni í raforkumálum. Sum eru á fleygiferð, sum í eðlilegum farvegi og sum í miklum hægagangi.

Ég hef nefnt það áður að staða rammaáætlunar er mikið umhugsunarefni. Þriðji áfangi hennar hefur ekki ennþá verið samþykktur þó að bráðum séu komin sjö ár frá því að verkefnisstjórn hans var skipuð, í mars 2013.

Við þessa stöðu verður auðvitað ekki unað og ég leyfi mér að minna á hversu sterkt flokksráð Sjálfstæðisflokksins ályktaði um þetta efni nú í haust. Í ályktun flokksráðsins segir: „Rammaáætlun ber að nýta sem verkfæri til að tryggja jafnvægi á milli nýtingar og verndar í samræmi við lög. Að öðrum kosti hefur hún runnið sitt skeið á enda.“

Þetta eru stór orð en réttmæt.

Hvers vegna hefur þetta þróast svona? Einfalda svarið væri að pólitíkin hafi reynst ófær um að koma sér saman um málamiðlanir. Það er eitthvað til í því. En ég held að aðalástæðan sé dýpri. Ég held að hún liggi að verulegu leyti í því að verkefnið hefur verið gert of flókið. Verkefni rammaáætlunar hefur verið skilgreint á þann hátt að það er nánast ómögulegt að uppfylla það. Við viljum meta „þjóðhagslegan ávinning“ og „samfélagsleg áhrif“ af einstökum virkjanaframkvæmdum. En þessi atriði verða varla metin með fullnægjandi hætti nema það sé vitað hver muni kaupa orkuna, á hvaða verði, hvar hún verði notuð og í hvað. Verkefnisstjórn þriðja áfanga gafst eiginlega upp á að meta þetta, og lái henni hver sem vill. Það liggur ekki fyrir þegar rammaáætlun er unnin hver kaupir orkuna, á hvaða verði, hvar hún verði notuð né í hvað. – Þess vegna segi ég að verkefnið sé mögulega of viðamikið, flókið og háð of mikilli óvissu um framtíðina. Í fyrri áföngum var verkefnið skilgreint heldur þrengra og var því nokkuð einfaldara í sniðum og viðráðanlegra. Í Noregi takmarkast matið við umhverfisáhrif annars vegar og hins vegar hversu hagkvæmur virkjanakosturinn er á einföldum en þó faglegum skala. Út úr þessu kemur tiltölulega einfalt einkunnaspjald í tveimur víddum: hversu mikil eru umhverfisáhrifin og hver er vænt arðsemi með tilliti til kostnaðar? Það er ekki víst að við viljum einfalda málið svo mikið en það má heldur ekki vera svo flókið og viðamikið að það sé óvinnandi vegur.

Það er margt fleira í deiglunni í orkumálum.

Það er verið að skoða hvernig megi nýta betur kosti samkeppni.

Það er verið að skoða hvernig megi best standa að fullum aðskilnaði Landsnets frá öðrum orkufyrirtækjum.

Það er stefnt að fullri jöfnun dreifikostnaðar óháð landsvæðum og sú vegferð endurspeglast nú þegar í fjármálaáætlun.

Það er stefnt að átaki í þrífösun.

Það er stefnt að átaki í orkuskiptum í samgöngum, með mikilli uppbyggingu hleðslustöðva.

Það er unnið að því að koma í veg fyrir þá áhættu, sem er til staðar í dag, að stórnotendur bjóði svo hátt verð í raforkuna að það verði skortur á framboði til almennra notenda.

Vindorkan er í æ sterkara kastljósi hjá okkur og býður upp á spennandi tækifæri. Nú nýlega samþykkti ríkisstjórnin tillögu okkar umhverfisráðherra um að starfshópi yrði falið að koma með beinar tillögur um hvernig sé best að meðhöndla leyfismál vindorkugarða. Þar kemur sterklega til greina að búa til nýtt ferli sem yrði einfaldara og hraðvirkara en hið hefðbundna fjögurra ára ferli rammaáætlunar, sem er að vísu ekki fjögurra ára í raun heldur sjö ára, eins og ég nefndi áðan.

Stærsta verkefnið til lengri tíma er síðan auðvitað orkustefnan, sem verið er að vinna að í þverpólitísku samstarfi.

Tilgangurinn með þessu öllu er auðvitað margþættur en uppbygging atvinnutækifæra er einn af mikilvægustu þáttunum. Þessa dagana er töluvert rætt um það hvort Ísland sé ennþá samkeppnishæft þegar kemur að orkuverði til iðnaðar. Sú umræða er því marki brennd að orkuverðið er sjaldnast opinbert heldur bundið trúnaði samkvæmt samningum. Það er mjög erfitt og eiginlega ómögulegt að eiga skynsamlega umræðu á þeim grundvelli, allra síst um einstök fyrirtæki eða einstök atvinnusvæði. Þess vegna höfum við ákveðið að láta óháðan aðila leggja faglegt og ítarlegt mat á samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar á Íslandi, í samanburði við okkar helstu samkeppnislönd. – Í þessari umræðu finnst mér líka mikilvægt að leggja þunga áherslu á það atriði, sem oft vill gleymast: nefnilega að langbesta leiðin til að lækka orkuverð er að framleiða meira af henni – auka framboðið.

Góðir gestir.

Það er stundum sagt að orkumálin séu einn viðkvæmasti málaflokkurinn í íslenskum stjórnmálum, og sá sem sé einna líklegastur til að valda djúpstæðum ágreiningi.

Sjálfstæðisflokkurinn talaði mjög skýrt og afdráttarlaust um orkumál á áðurnefndum flokksráðsfundi í haust, enda hafði beinlínis verið ákveðið að orkumál yrðu annað af tveimur helstu viðfangsefnum fundarins.

Mér finnst það fróðlegt fyrir almenna umræðu að fara aðeins yfir hvað var samþykkt þar, og spyrja: Eru ekki flestir sammála um þessi lykilatriði?

Það var áréttað að við Íslendingar eigum sjálfir að hafa forræði yfir orkuauðlindum landsins.

Að orkuauðlindir, sem eru í opinberri eigu, skuli vera það áfram.

Að jafnræði skuli ríkja meðal landsmanna þegar kemur að dreifikostnaði raforku.

Að tryggja þurfi nægt framboð af raforku fyrir heimili og fyrirtæki og nýta kosti frjálsrar samkeppni.

Að gera skuli skýra arðsemiskröfu til Landsvirkjunar.

Að tryggja skuli landsmönnum ábata af hagnaði orkufyrirtækja í eigu ríkisins með beinum hætti.

Að uppbygging flutningskerfisins sé forgangsmál, tryggja skuli öryggi, skilvirkni og áreiðanleika í afhendingu, tryggja öllum landsmönnum nægjanlegt rafmagn til atvinnuuppbyggingar og gera þeim kleift að taka fullan þátt í orkuskiptum.

Loks er bent á að smávirkjanir geti verið ákjósanleg leið til að auka framboð af raforku, lækka orkuverð, treysta byggð og búsetu, örva græna atvinnuuppbyggingu og auka orkusjálfbærni einstakra landsvæða. – Vindorka feli einnig í sér mikil tækifæri til að auka framboð af raforku á hagstæðu verði en skýra þurfi regluverk um hana og lágmarka umhverfisáhrif.

Ég lít svo á að verkefni okkar stjórnmálamanna sé ekki eingöngu að leysa úr ágreiningsefnum heldur líka tryggja góðan framgang þeirra mála sem við erum sammála um. Flest eða allt af því sem ég var að telja hér upp fellur í þann flokk, og það sýnir hversu mikil tækifæri við höfum til að stíga stór framfaraskref í sameiningu.

Á sama tíma höfum við ekki efni á því að láta erfiðari mál liggja í salti jafnvel árum saman, eins og ég er þegar búin að fara yfir hér.

Ég vil að lokum segja að Norðurland og ekki síst Eyjafjarðarsvæðið er að mörgu leyti til fyrirmyndar hvað varðar græna viðleitni í orkumálum, nýskapandi hugsun og metnað. Það er því mjög ánægjulegt að koma til fundar einmitt hingað og ræða þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir á næstu misserum, þegar búið verður að leysa þá stöðu sem hefur helst staðið svæðinu fyrir þrifum á undanförnum árum.