Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Ríkisstofnanir á landsbyggðinni

Ræða á málþingi á Akranesi, 22. febrúar 2019.

Kæru gestir

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur á þessu merka málþingi hér í dag, í heimabæ mínum, Akranesi.

Ég vil auðvitað byrja á að óska Landmælingum og Akranesi til hamingju með 20 ára sambúð.

Umræðuefni dagsins er mikilvægt, viðamikið og hefur á sér margar hliðar.

Ef við setjum það undir smásjána sjáum við ótalmörg tæknileg álitamál og úrlausnarefni.

En við skulum í upphafi freista þess að stíga nokkur skref til baka og líta á málið úr hæfilegri fjarlægð, til að fá betri yfirsýn yfir grundvallarspurninguna.

Ein af stærstu spurningunum sem allir stjórnmálamenn þurfa að fást við er: „Hvaða þjónustu á ríkið eða hið opinbera að tryggja borgurunum?“

Takmarkaðir fjármunir en mjög mikil eftirspurn eftir þjónustu kalla stöðugt á pólitískt endurmat og pólitíska forgangsröðun.

Mér finnst mikilvægt að hafa þetta stóra pólitíska grundvallar-úrlausnarefni hugfast þegar við reynum að svara spurningunni: „Hvað þýðir það að vera með ríkisstofnun annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu?“

Ástæðan er einfaldlega sú að til að gefa ígrundað svar við henni þurfum við að huga bæði að þjónustu stofnunarinnar og kostnaðinum sem henni fylgir.

Er verið að bæta þjónustuna? – Og er verið að lækka kostnaðinn við hana?

Verður þjónustan aðgengilegri og verða notendur þjónustunnar ánægðari?

Verða nauðsynleg aðföng ódýrari eða fellur einhver kostnaður niður?

Ef svarið við þessum lykilspurningum er „Já“, þá liggur í augum uppi að það hefur jákvæða þýðingu á alla hefðbundna mælikvarða að staðsetja ríkisstofnun utan höfuðborgarsvæðisins.

En er þetta svona einfalt? Er þetta allt sem segja þarf?

Þarf einungis að bretta upp ermar og kanna kerfisbundið hvaða opinberu þjónustu er hægt að bæta eða gera ódýrari með því að flytja hana út á land?

Mér finnst ég geta lesið það út úr svip fundarmanna að svarið við þessari spurningu er „Nei“.

Flest okkar kjósa að horfa á málið í stærra samhengi. Og hvað er það þá sem skiptir máli?

Helst viljum við auðvitað að þjónustan batni en lágmarkskrafa er að hún versni að minnsta kosti ekki. Ef það þýðir að staðsetning utan höfuðborgarsvæðisins kallar á aukinn kostnað þá þarf að horfast í augu við þá staðreynd. Það gagnast engum að sópa því undir teppið eða gera minna úr því en ástæða er til.

Mergurinn málsins er að viðbótarkostnaður getur verið fullkomlega eðlilegur og réttlætanlegur þegar horft er til þjónustunnar til langs tíma og í stærra samhengi, með hliðsjón af byggðasjónarmiðum og öðrum samfélagsþáttum. Við eigum að horfast í augu við þessa ytri eða afleiddu þætti og það væri mjög eftirsóknarvert að leggja sérstakt mat á þá, rétt eins og hinn hreina fjárhagslega þátt.

Ég nefndi hér í upphafi að ein af grunnspurningum hvers stjórnmálamanns væri sú, hvaða þjónustu hið opinbera ætti að tryggja borgurunum. Með skírskotun til þess vil ég segja að greining á samfélagslegum ávinningi af því að staðsetja ríkisstofnanir úti á landi er einmitt mikilvæg þjónusta við borgarana. Með faglegri greiningu og samanburði á ávinningi og tilkostnaði fæst öflugt tæki til leiðsagnar og pólitískrar forgangsröðunar.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á byggðamál og ég vil leyfa mér að grípa hér niður í stjórnarsáttmálanum um þau atriði, en þar segir:

Mikil verðmæti felast í því að landið allt sé í blómlegri byggð. Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt.

Ríkisstjórnin mun auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti. Skilgreina þarf hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru mikilvægt tæki til að reka byggðastefnu á forsendum heimamanna. Þær verða styrktar á kjörtímabilinu. Horft verður til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndunum en um leið verður svæðisbundin þekking nýtt sem best. Skoðaðir verða kostir þess að nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum. Ráðuneytum og stofnunum verður falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er.

Ríkisstjórnin mun hefja samstarf við sveitarfélögin um gerð þjónustukorts sem sýnir aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila til að bæta yfirsýn og þar með skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað.

Í byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið sumar er komið nánar inn á mörg þessara atriða og sett tölusett markmið um fjölda starfa í ráðuneytum og stofnunum sem eru auglýst án staðsetningar, þannig að tekið sé fram að búseta umsækjenda skipti ekki máli. Einnig er í byggðaáætlun fjallað um svokallaðar fjarvinnslustöðvar, en þar er um að ræða nýjar starfsstöðvar á landsbyggðinni sem fái það verkefni að koma opinberum gögnum stjórnvalda á stafrænt form.

Góðir gestir, þetta eru hinar stóru línur og niðurstaðan er alveg skýr: það er ríkur pólitískur vilji til þess bæði af minni hálfu og ríkisstjórnarinnar að líta með mjög jákvæðum augum til þess að staðsetja opinbera þjónustu á landsbyggðinni, jafnvel þótt það kunni í einhverjum tilvikum að kalla á aukna fjármuni.

Færum okkur þá nokkrum skrefum nær viðfangsefninu og setjum það jafnvel undir smásjána.

Sumarið 2016 gaf Ríkisendurskoðun út skýrsluna: „Flutningur ríkisstarfsemi milli landshluta – Áhrifaþættir í vandasömu breytingaferli“.

Í skýrslunni eru rakin fimm ólík dæmi um flutning á ríkisstarfsemi á milli landshluta og reynt að meta hvaða þættir skipta einkum máli um árangur slíkra breytinga. Dæmin sem um var að ræða voru Landmælingar Íslands, Jafnréttisstofa, Byggðastofnun, Matvælastofnun og Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar.

Almennt séð virðist hafa tekist allvel til um þá flutninga sem hafa átt sér stað þó vissulega fylgi þeim alltaf einhver röskun á starfsemi um hríð. En sé vel staðið að undirbúningi má draga mjög úr hættu á að þekking tapist, jafnvel þó að veruleg endurnýjun kunni að verða á starfsfólki. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir meðal annars:

Að mati Ríkisendurskoðunar eru rækilegur undirbúningur, áætlanagerð, samráð og markviss eftirfylgni nauðsynleg til að flutningur heppnist vel og hvílir þar rík ábyrgð á þeim ráðherra sem stofnunin eða verkefnið heyrir undir. Meta þarf í upphafi hvort flutningurinn muni bæta þjónustu eða árangur, skilgreina þarf markmið og greina hættur og tækifæri til umbóta. Að auki þarf að setja fram markvissa áætlun um hvernig eigi að haga breytingaferlinu, þróa starfsemina og auka gæði og árangur til lengri tíma litið. Stofnunin telur brýnt að sett verði almenn viðmið um tilhögun breytinga á aðsetri stofnana.

Í þessari skýrslu kemur í ljós að rekstur viðkomandi stofnana hefur almennt ekki tekið neinum stakkaskiptum við flutningana.

Reynslan gefur ekki tilefni til að rökstyðja slíka flutning með vísan til sparnaðar, enda hefur hann þvert á móti einkum verið rökstuddur í gegnum tíðina með vísan til byggðasjónarmiða og hefur þannig verið hluti af stefnu stjórnvalda í byggðamálum.

Sú er einnig raunin í ýmsum nágrannalöndum okkar. Flutningur ríkisstarfa frá Kaupmannahöfn er þannig á meðal stærstu stefnumála dönsku ríkisstjórnarinnar og sama má segja um Norðmenn, sem hafa sett sérstakar reglur um hvernig eigi að undirbúa og framkvæma slíkan flutning, sem við Íslendingar ættum að taka okkur til fyrirmyndar.

Ég vil líka nefna að það þarf ekki alltaf að vera um það að ræða að flytja stofnanir í heilu lagi heldur getur verið um að ræða afmarkaða hluta í starfsemi þeirra. Vinnumálastofnun er þannig með greiðslustofu atvinnuleysistrygginga á Skagaströnd og Fæðingarorlofssjóð á Hvammstanga. Ég veit ekki betur en að almenn ánægja sé með alla þá þjónustu sem hér um ræðir og störfin skipta byggðarlögin máli, ekki síst hin fámennari.

Reynslan á Íslandi sýnir að almennt hefur tekist vel til í þessum efnum. Tímabil aðlögunar er misjafnlega langt en eftir það gengur starfsemi stofnana almennt vel.

Vandaður undirbúningur er að sjálfsögðu lykilatriði. Eins og við vitum þá hættir okkur Íslendingum dálítið til að vilja frekar læra af reynslunni heldur en að skipuleggja hlutina vel fyrirfram og við getum vissulega gert betur og auðvitað eigum við að hafa metnað til þess.

Ef við gerum það er okkur ekkert að vanbúnaði að leita fleiri leiða til að dreifa kröftum ríkisins betur um landið og styrkja þannig stoðir byggðar í landinu.

Það eru verðmæti í því fyrir alla landsmenn að byggð sé blómleg og sterk víðar en á suðvesturhorninu. Það er annar taktur á tilverunni í smærri byggðarlögum og í því felast ákveðin lífsgæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem við viljum að standi fólki til boða.

Það er okkar stefna, og það er mín framtíðarsýn.