Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Saman getum við gert stóra hluti

Ræða við útskrift frá Fjölbrautarskóla Vesturlands Akranesi, 27. maí 2017.

Kæru útskriftarnemar, hjartanlega til hamingju með daginn ykkar.

Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag. Fyrir 10 árum sat ég í þessum sal með bros á vör að útskrifast úr skólanum okkar. Á skólaárunum lærir maður mikið og öðlast margskonar reynslu. Væntanlega segja margir við ykkur að nú séuð þið orðin fullorðin. Nú taki alvara lífsins við. Það er að mörgu leyti rétt.

Menntaskólaárin móta mann og umhverfið er kannski verndað að sumu leyti. En að verða fullorðinn þýðir ekki að það eigi að hætta að hafa gaman, gera það sem manni þykir skemmtilegt og veitir manni gleði og innblástur. Það á nefnilega ekki að vera leiðinlegt að vera fullorðinn. Lífið er alltof stutt til þess. Það er hins vegar stanslaus vinna að vera til og taka þátt á þessari jarðkringlu okkar. Hvort sem við erum börn, unglingar, fullorðin eða gömul. Öllum lífsskeiðum fylgja ýmis verkefni, áskoranir og líka erfiðleikar – það er hluti af því að vera til.

Skólaárin mín voru lærdómsrík. Ég eyddi þriðja skólaárinu í Vínarborg sem skiptinemi á vegum AFS en hin þrjú árin sat ég hér á skólabekk. Á útskriftardaginn kvaddi ég fjölbraut án þess að vita hvað tæki við. Ég var ákveðin að fara í háskólanám um haustið en hafði hvorki valið nám né háskóla. Nokkrir samnemendur mínir höfðu lokið sinni skólagöngu, til dæmis þeir sem luku iðnmenntun ýmiskonar – og okkur bráðvantar fleira iðnmenntað fólk svo iðnaðarráðherrann komi því að hér. Aðrir nemendur höfðu ákveðið að taka hlé frá námi, sem ég hefði kannski gert líka ef ég hefði ekki eytt ári í Vínarborg sem var óhefðbundið námsár og var því eins og hálfgert hlé fyrir mig. Á meðan aðrir tóku að sér önnur verkefni sem lífið hefur upp á að bjóða.

Skömmu eftir útskrift ákvað ég að sækja um nám í lagadeild Háskólans í Reykjavík. Það var ekki af því mig hafði dreymt um að verða lögfræðingur frá barnsaldri, það var ekki þannig. Ég þurfti einfaldlega að velja nám og eftir mikla umhugsun varð lögfræði fyrir valinu, fag sem snerti stjórnmál að hluta, grundvallar reglur samfélagsins og rökræður. Ég vissi ekki hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór en ég var ákveðin í að geta staðið á eigin fótum.

Þegar ég svo stóð í stórum sal á nýnemadaginn þar sem rektor sagði að nú væri draumur okkar að verða að veruleika fannst mér það svolítið yfirþyrmandi tilhugsun. Um hvað var hún að tala? Þetta er enginn draumur – er ég kannski bara á röngum stað? Og fyrsta önnin var erfið og ég efaðist um sjálfa mig og mína getu. Þá er gott að eiga stóran bróður, sem herti mig og hvatti mig áfram. Ég varð metnaðarfyllri og uppskar eftir því.

Kæru útkskriftarnemar.

Við ykkur vil ég segja: Hafið metnað fyrir hverju því sem þið takið ykkur fyrir hendur. Vandið ykkur og leggið hart að ykkur. Látið gott af ykkur leiða, hvort sem það er í fjölskyldulífi, vináttu, sjálfboðastarfi, félagslífi, afgreiðslustörfum, læknavísindum, leiklist, kennslu, hjúkrun, tækniþróun, fiskvinnslu – hvers kyns verðmætasköpun í víðu samhengi.

Ég var spurð að því í blaðaviðtalið um daginn hvaða ráð ég myndi gefa 15 ára sjálfri mér. Ég veit að þið eruð ekki 15 ára en svarið á alveg eins við. Ég myndi gefa 15 ára sjálfri mér það ráð að hlusta á dómgreindina. Hlusta á hvað maginn segir mér. Ég myndi ráðleggja 15 ára sjálfri mér að hlusta á foreldra mína þegar þau hrósa mér og ýta mér út fyrir þægindarammann af því þau telja mig ráða við það. Loks myndi ég segja við 15 ára sjálfa mig að sjálfstraust er mikilvægara en þú heldur.

Menntaskólaárin móta mann mikið. Þessi ár gera það, óháð því hvar maður eyðir þeim. Í menntaskóla úti á landi er – held ég að mér sé óhætt að segja – fjölbreyttari flóra fólks en í ýmsum menntaskólum í Reykjavík. Í mínum huga er það eitthvað sem ég bý að og fylgir mér í mínum störfum. Í mínum huga er það kostur FVA.

Ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir 10 árum, árið sem ég útskrifaðist. Stjórnmálaþátttaka er lærdómsrík, skemmtileg og ég hvet ykkur til að taka þátt, fyrir hvaða flokk sem er – stjórnmál á Íslandi þurfa fleira ungt fólk. Eftir kosingarnar 2013 sóttist ég eftir því að verða framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, þá nýskriðin úr fæðingarorlofi. Ég lagði töluvert á mig til að fá starfið.

Ég þurfti meðal annars að sannfæra Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Skagakonuna sem við þekkjum mörg hér, um að það væri góð hugmynd að ráða mig. Hún þekkti mig ekkert og hefur sjálf sagt það að henni hafi fundist ég heldur ung. Við unnum vel saman og ég lærði margt af henni. Þegar Ólöf heitin Nordal varð ráðherra leitaði hún til mín og bað mig um að vera aðstoðarmaður sinn. Hún þekkti mig heldur ekkert og gaf mér þarna tækifæri sem ég stökk á – fór aftur út fyrir þægindarammann – og var staðráðin í að nýta tækifærið vel, hvað sem svo tæki við. Það var meiri skóli en ég hafði áttað mig á.

Málaflokkarnir sem ég ber ábyrgð á í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eru meðal annars ferðaþjónusta, orkumál, iðnaður, nýsköpun, neytendamál og verslun. Mér finnst ég vera í skemmtilegasta ráðuneytinu – þar sem mikil tækifæri eru til að líta til framtíðar og þora að hugsa út fyrir rammann. Það er í mínum huga mikilvægt á þeim tímum sem við lifum, tímum tæknibyltinga og lýðfræðilegra breytinga, til dæmis þar sem aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast hratt, og ég held satt að setja að það sé bara frískandi að hafa þar manneskju sem finnst 20 eða 30 ár ekki mjög langur tími. Eftir 20 ár verð ég ekki einu sinni orðin fimmtug. Þannig lít ég á aldur minn sem kost en ekki galla. Ég hins vegar geri mér grein fyrir því að ég þarf að hafa í kringum mig fólk með reynslu sem ég hef ekki. En það er nefnilega líka hollt að vera meðvitaður um að enginn veit allt og enginn getur allt. En saman getum við gert stóra hluti.

Kæru útskriftarnemar.

Ég vona að dagurinn ykkar verði gleðilegur og framtíðin björt. Gangi ykkur vel í þeim verkefnum sem þið takið ykkur fyrir hendur.

Takk.