Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Samkeppnin eftir heimsfaraldur

Ræða hjá Félagi atvinnurekenda, 11. febrúar 2021.

Komiði sæl og takk fyrir að bjóða mér að ávarpa þennan fund hjá Félagi atvinnurekenda um mikilvægt málefni.

Ísland stendur nú eins og önnur lönd frammi fyrir risavöxnu verkefni, sem felst í að halda uppi sem mestri verðmætasköpun á tímum heimsfaraldurs – og beita styrk hins opinbera með ábyrgum hætti til að lágmarka tjónið, og stuðla að því að við komumst hratt aftur í gang.

Við höfum með einni undantekningu farið þá leið að styðja ekki sérstaklega við einstök fyrirtæki heldur beitt almennum aðgerðum. Stuðningur ríkisins í faraldrinum hefur því nýst öllum sem uppfylla hlutlæg skilyrði, og hefur þannig ekki verið markaðstruflandi.

Við þekkjum það ágætlega hvaða kraftar knýja hjól verðmætasköpunar. Það eru annars vegar kraftar frumkvöðla og athafnafólks: hugmyndaauðgi þeirra, útsjónarsemi og þolgæði. Og hins vegar jarðvegurinn sem þeir fá til að starfa: ytri skilyrði á borð við fjármagn og hagstætt viðskiptaumhverfi.

Stjórnvöld eru að stíga markverð skref til að styðja við alla þessa þætti. Áhersla ríkisstjórnarinnar á nýsköpun hefur varla farið fram hjá neinum. Við höfum til að mynda aukið endurgreiðslur til rannsókna- og þróunarverkefna, rýmkað heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga, auðveldað erlendum sérfræðingum að starfa tímabundið á Íslandi, og erum þessa dagana að leggja lokahönd á stofnun Kríu, nýs hvatasjóðs vísifjárfestinga sem mun leggjast á árarnar með einkafjármagni við fjárfestingar í þekkingardrifininni nýsköpun.

Nýsköpun tekur vissulega tíma en við vorum ekki að byrja á henni í gær og erum þegar farin að uppskera. Íslenskir frumkvöðlar tryggðu sér meiri fjármögnun í fyrra en árið á undan, yfir 17 milljarða króna, og þar af um þrjá fjórðu erlendis frá. Það sýnir tiltrú alþjóðlegra fjárfesta á íslensku hugviti, íslenskum frumkvöðlum og íslensku nýsköpunarumhverfi.

Fyrirtækjunum í upptalningunni frægu – Össur, Marel og CCP – er að fjölga um þessar mundir og það boðar gott fyrir lífskjör á Íslandi á komandi árum.

Flestir eru sammála um að eitt mikilvægasta hráefnið í frjóum jarðvegi verðmætasköpunar er það sem við köllum „heilbrigða samkeppni“. Kraftar samkeppninnar eru almennt best til þess fallnir að hámarka verðmætasköpun.

Vissulega höfum við komist að þeirri niðurstöðu að sumt, til að mynda dreifikerfi raforku, einkennist af því sem við köllum „náttúrulega einokun“ og sé því skynsamlegra að reka sem sérleyfisstarfsemi undir opinberu eftirliti og reglum. Í öðrum tilvikum koma til sögunnar sjónarmið um að vernda einhver tiltekin verðmæti sem við óttumst að muni verða undir og glatast í samkeppni á frjálsum markaði. Þá beitum við opinberu inngripi með ríkisrekstri, styrkjum eða verndaraðgerðum. Slík sjónarmið eru til dæmis uppi varðandi landbúnað, fjölmiðla, og opinberan stuðning sem miðar að því að tryggja góð búsetuskilyrði um allt land.

En þetta eru undantekningar, sem eru þar af leiðandi oft umdeildar og sífellt til endurskoðunar, til að finna rétt jafnvægi. Almennt teljum við skynsamlegt að nýta kosti frjálsrar og virkrar samkeppni – og þar með að ryðja sem flestum samkeppnishindrunum úr vegi. Slíkar hindranir geta meðal annars verið óþarfa reglubyrði, óþarfa kröfur, óþarfa skriffinnska.

Ég átti frumkvæði að því að fá OECD til að meta reglubyrði okkar og alþjóðlega samkeppnishæfni á tveimur afmörkuðum en mikilvægum sviðum: í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Niðurstaðan var sláandi. Ísland er með eina þyngstu reglubyrði allra landa OECD þegar kemur að veitingu þeirrar þjónustu sem skoðuð var í skýrslunni. Við skorum þar ýmist neðarlega, mjög neðarlega eða jafnvel lægst af öllum löndum OECD. Lægsta einkunn okkar lýtur að miklum fjölda lögverndaðra iðngreina og einkaréttar aðila með tiltekin réttindi á ákveðnum störfum.

Þetta er sláandi niðurstaða sem er nauðsynlegt að bregðast við. Óþarfa regluverk hamlar verðmætasköpun, dregur úr samkeppni og skerðir lífskjör. Á þessum tveimur afmörkuðu sviðum er áætlað að tjón þjóðarbúsins nemi um einu prósenti af landsframleiðslu, eða um 30 milljörðum króna á ári.

Við erum nú að fylgja þessari vinnu markvisst eftir með rýni á tillögunum, meðal annars hvað varðar lögverndun starfa og starfsheita en einnig aðra þætti, til dæmis atriði til einföldunar regluverks á sviði ferðaþjónustu, sem lögð verða fram nú á vorþingi, og atriði sem eru í skoðun og snúa að skipulagsmálum, mannvirkjalögum og byggingareglugerð. Stýrihópur um framkvæmd samkeppnismats OECD verður virkjaður á ný og nýttur til eftirfylgni skýrslunnar.

Eðlilega munu ýmsir sem eiga hagsmuna að gæta gera athugasemdir við allar breytingar. Við skulum ekki hundsa slík sjónarmið en á sama tíma skulum við hafa hugfast að úrbótatillögur OECD byggja á nákvæmum samanburði við lönd sem við viljum almennt bera okkur saman við. Þau búa við mun minna reglufargan en við, og reynslan sýnir að við getum bætt lífskjör með því að ryðja óþarfa hindrunum úr vegi.

Ég er sannfærð um að það mun leysa verðmæti úr læðingi. – Mér dettur í hug samlíking við íþróttafólk sem æfir með aukakíló vafin um ökklana til að ná betri árangri. Því miður held ég að sú samlíking eigi EKKI við. Það er ekki gagnlegt fyrir atvinnulífið að æfa með aukakíló á ökklunum til að geta hlaupið hraðar þegar lóðin verða tekin af. Óþarfa samkeppnishindranir eru byrðar sem skapa ekkert nema sóun, tjón og skaða; þær þarf að afnema sem hraðast til að auka verðmætasköpun og bæta lífskjör.

Við þurfum að draga úr aðgangshindrunum og samkeppnishindrunum, auka þannig flóru fyrirtækja og fjölbreytni atvinnulífsins, og búa hagkvæmum fyrirtækjum skilyrði til að skapa verðmæti til hagsbóta fyrir eigendur, starfsfólk, viðskiptavini og þjóðarbúið allt.

Það er sú vegferð sem við erum á.