Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Samkeppnishæfni Íslands snýst um bætt lífskjör

Morgunblaðsgrein, 15. nóvember 2020.

Stöðug viðleitni mannsins til að bæta hag sinn er kraftur sem líkja má við vatnsafl. Rétt eins og með vatnsaflið þarf að virkja þennan kraft skynsamlega. Annars dregur þyngdaraflið hann einfaldlega eftir þeirri leið sem býður upp á minnsta mótstöðu og þá er hætt við því að kraftarnir annað hvort nýtist ekki til fulls eða valdi jafnvel tjóni. Rétt eins og óbeisluð vatnsföll geta ýmist runnið máttlaust og ómarkvisst til sjávar eða flætt yfir bakka sína með látum.

Regluverk samfélagsins er farvegurinn sem á að tryggja að krafturinn sem býr í athafnasemi mannsins nýtist sem best. Mikilvægt er að farvegurinn sé hvorki of þröngur né of víður. Lífskjör okkar velta beinlínis á því.

***

Í vikunni var kynnt ítarleg úttekt sem ég bað OECD um að gera á íslensku regluverki hvað varðar byggingariðnað og ferðaþjónustu. Báðir þessir geirar vega hvor um sig um 9% í landsframleiðslu okkar og eru því mjög mikilvægir fyrir íslenskt efnahagslíf og lífskjör almennings.

Í kynningu á úttektinni kom fram af hálfu OECD að Ísland væri á heildina litið – þegar litið er til allra þátta hagkerfisins – minna samkeppnishæft en öll hin Norðurlöndin og aðeins rétt við meðaltal allra OECD ríkja. Þetta er óviðunandi og skerðir lífskjör okkar.

En hver er ástæðan? Jú, ein helsta ástæðan er sú að Ísland er með þyngstu reglubyrði allra landa OECD þegar kemur að veitingu þeirrar þjónustu sem skoðuð var í skýrslunni. Við skorum þar ekki bara undir meðaltali heldur lægst af öllum löndum OECD.

Þetta er sláandi niðurstaða sem nauðsynlegt er að bregðast við. Óþarfa regluverk hamlar verðmætasköpun, dregur úr samkeppni og skerðir lífskjör. Mat skýrsluhöfunda er að óþarfa regluverk og samkeppnishindranir á þessum tveimur sviðum skerði landsframleiðslu Íslands um u.þ.b. 1% eða um 30 milljarða króna. Það er til mikils að vinna að leysa þessi verðmæti úr læðingi með því að losa þau úr höftum óþarfa reglubyrði.

Í skýrslunni eru hvorki fleiri né færri en 438 tillögur til úrbóta á regluverki, langflestar í byggingariðnaði. Það verður ekkert áhlaupaverk að hrinda þeim í framkvæmd. Eðlilega munu ýmsir sem eiga hagsmuna að gæta veita slíkum breytingum viðnám. Engin ástæða er til að hundsa slík sjónarmið en á sama tíma skulum við hafa hugfast að tillögurnar byggja á nákvæmum samanburði við lönd sem við viljum almennt bera okkur saman við. Þessi lönd búa ekki við viðlíka reglufargan og við höfum búið til, og reynslan sýnir að við getum bætt lífskjör með því að ryðja óþarfa hindrunum úr vegi.

***

Í vikunni var líka kynnt önnur úttekt sem ég óskaði eftir um samkeppnishæfni Íslands, en hún lýtur að raforkukostnaði stóriðju. Vaxandi umræða hefur verið um þetta mikilvæga málefni og afar ólík sjónarmið komið fram. Það hefur hamlað umræðunni að trúnaður ríkir um orkuverð. Umræðan hefur því byggst á takmörkuðum upplýsingum en þýska fyrirtækið Fraunhofer fékk fordæmalausan aðgang að orkusamningum til að vinna skýrsluna. Hún er því tímamótainnlegg í umræðuna.

Meginniðurstaða úttektarinnar er að raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum, sem voru Noregur, Kanada (Quebec) og Þýskaland. Fyrri löndin tvö eru stærstu álframleiðendur Vesturlanda og því ljóst að við samanburðinn var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur.

Engum dettur í hug að gera lítið úr þeim áskorunum sem stóriðja á Vesturlöndum stendur frammi fyrir vegna aðstæðna á heimsmörkuðum og samkeppni frá öðrum heimshlutum. Við ættum ekki eingöngu að hafa áhyggjur af þeirri stöðu út frá efnahagslegu sjónarhorni heldur líka umhverfislegu. Ef stóriðja hér á landi flyttist til annarra landa og yrði þar knúin jarðefnaeldsneyti yrði það skelfilegt bakslag fyrir baráttuna við loftslagsbreytingar; öll viðleitni okkar í orkuskiptum myndi blikna í samanburði við slíka þróun.

Við gerum okkur líka grein fyrir að orkuverð er ólíkt eftir atvinnugreinum og tegund orkusamninga, hér sem annars staðar, og meðaltöl segja ekki alla söguna. Það er hins vegar ánægjuleg niðurstaða að við erum almennt samkeppnishæf gagnvart Noregi og Kanada og bjóðum lægri verð en bjóðast í Þýskalandi.

Það er mikilvægt að standa vörð um þessa stöðu og stuðla að því að við verðum áfram samkeppnishæf. Ýmis tækifæri geta verið til þess, m.a. með því að stuðla að auknu framboði á raforku og aukinni samkeppni á orkumarkaði.

Í skýrslunni eru líka vísbendingar um að mögulega þurfum við að huga betur að flutningskostnaði orkunnar. Verðlagning hans byggir á regluverki sem full ástæða er til að rýna. Ég fól einmitt í vikunni Deloitte að skoða þann þátt sérstaklega, bæði flutning og dreifingu.

***

Það gildir um alla þætti samkeppnishæfni okkar – löggjöf, reglugerðir og almennt samkeppnisumhverfi – að við megum aldrei sofna á verðinum, verða værukær og staðna. Helstu samkeppnislönd okkar munu ekki gera það. Stöðnun jafngildir því afturför. Við eigum í harðri alþjóðlegri samkeppni um fólk, um viðskiptatækifæri, um verðmætasköpun. Við höfum náð undraverðum árangri sem þjóð og með árvekni og réttum ákvörðunum munum við gera það áfram.