Ræða við stjórnmálaumræður á Alþingi, 21. janúar 2019.
Hæstvirtur forseti.
Sú ríkisstjórn sem nú situr var mynduð um sókn í þágu sterkara samfélags, á grundvelli breiðrar samstöðu og stöðugleika.
Stjórnin er mynduð á óvenjulega breiðum pólitískum grunni. Það felur í sér áskoranir. En það getur líka, þegar vel tekst til, kallað fram góðar hliðar hjá okkur stjórnmálamönnum, það er að segja: að við hlustum hvert á annað og tökum tillit til mismunandi sjónarmiða. Það er kallað eftir þessum vinnubrögðum í þjóðfélaginu.
Stjórnarsamstarfið hefur einkennst af trausti og virðingu og góðri samvinnu, sem hefur getið af sér sameiginlega sýn á mörg af brýnustu viðfangsefnum okkar. Á þessum sterka grunni hefur stjórnin afgreitt fjölmörg framfaramál og mun með sama áframhaldi uppfylla sinn metnaðarfullan stjórnarsáttmála.
Beinar skuldir ríkissjóðs eru ekki áþreifanlegar fyrir hinn almenna Íslending – en þær eru ekkert annað en skattar á framtíðina. Skuldir ríkissjóðs frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu um 90 milljarða, eða um 10 milljónir á klukkutíma. Frá ársbyrjun 2013 hafa skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður um 660 milljarða. Gert er ráð fyrir að þær fari á þessu ári í fyrsta sinn undir viðmið laga um opinber fjármál og að vaxtagjöld verði af þeim sökum um 34 milljörðum lægri en þau voru árið 2012. Það jafngildir um það bil 20 prósentum af öllum greiddum tekjuskatti árið 2018.
Í tvennum fjárlögum stjórnarinnar hafa framlög til innviða og samfélagslegra verkefna verið aukin um 90 milljarða. Þetta er hægt núna, eftir grundvöllinn sem lagður var árin á undan. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og þeir fara í verkefni sem almenningur mun finna fyrir með áþreifanlegum hætti.
Átak í vegaframkvæmdum. Veruleg hækkun barnabóta, sérstaklega hjá þeim tekjulægri. Hækkun vaxtabóta umfram verðlag. Efling löggæslu. Efling heilbrigðiskerfis. Verndun íslenskrar tungu. Uppbygging innviða á ferðamannastöðum. Aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun. Þannig mætti lengi telja.
En samhliða auknum útgjöldum hefur tryggingagjald verið lækkað og persónuafsláttur hækkaður meira en sem nemur verðbólgu. Þannig mætast ólíkar áherslur um aukin útgjöld og lægri skatta.
Það segir sig sjálft að við getum ekki sett fé í ný verkefni ásamt því að lækka skatta nema tvennt komi til. Í fyrsta lagi að einkaframtakið búi við hagfelld skilyrði til að skapa meiri verðmæti og stækka þannig kökuna sem er til skiptanna. Og í öðru lagi að við séum tilbúin til að lækka útgjöld á einhverjum sviðum í stað þess að beita okkur eingöngu fyrir sífelldum hækkunum á öllum sviðum.
Sem dæmi má nefna að við komumst að þeirri niðurstöðu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á liðnu ári að „Átak til atvinnusköpunar“, sem var stofnað árið 1996 til að vinna bug á atvinnuleysi, ætti ekki lengur rétt á sér, meðal annars með hliðsjón af auknu hlutverki og umsvifum Tækniþróunarsjóðs í stuðningi við frumkvöðla. Verkefni ríkisins verða þannig alltaf að vera til endurskoðunar. Í þessum efnum má gera betur.
Hvað varðar aukna verðmætasköpun er lykilatriði að atvinnulífið geti staðið undir þeim kjörum sem samið verður um í komandi kjarasamningum. Við þekkjum það of vel af fenginni reynslu að launahækkanir sem efnahagslífið stendur ekki undir hverfa jafnskjótt í verðbólgu. Á undanförnum árum hefur gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar átt drjúgan þátt í að halda aftur af verðbólgu með því að styðja við gengi krónunnar. Nú hefur vöxturinn í ferðaþjónustu minnkað verulega. Það þýðir að varnarveggurinn gegn verðbólgu er ekki lengur til staðar í sama mæli. Staðan er því viðkvæmari en áður og það skiptir máli – og það er í allra þágu – að verja árangurinn sem náðst hefur.
Stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum til að skapa fyrirtækjum og neytendum hagfelldar aðstæður á grundvelli viðskiptafrelsis – ásamt stuðningi og ívilnunum þar sem við á.
Tryggingagjald er á niðurleið og persónuafsláttur hækkar umfram verðlag, eins og þegar hefur verið nefnt.
Afnám flestra vörugjalda og tolla er annað mikilvægt atriði sem er of sjaldan nefnt í þessu sambandi. Nú er svo komið að Ísland er eitt af aðeins sex aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem hefur næstum alveg afnumið tolla á iðnaðarvörur.
Frjáls milliríkjaviðskipti eru þjóðum heims hagfelld og eru til þess fallin að auka verðmætasköpun, á nákvæmlega sama hátt og verkaskipting á milli einstaklinga. Það er allra hagur að hver sinni því sem hæfileikar hans eða hennar standa til og eigi síðan viðskipti við aðra.
EES-samningurinn varð 25 ára um áramótin. Aldarfjórðungur – það er drjúgur tími. Enginn vafi er á því að samningurinn hefur átt stóran þátt í bættum lífskjörum Íslendinga. Og ekki bara lífskjörum heldur líka lífsgæðum, meðal annars með frelsi okkar til ferðalaga, búsetu og atvinnustarfsemi innan svæðisins. Þannig á ungt fólk auðveldara með að sækja sér menntun í Evrópu, og jafnvel hasla sér völl í atvinnulífi og setjast þar að um lengri eða skemmri tíma síðar á lífsleiðinni. Það eru veruleg lífsgæði að eiga kost á slíku.
Aðrar þjóðir öðluðust á sama tíma sambærilegan rétt hér á landi. Það var að sjálfsögðu umdeilt á sínum tíma. Sumir töldu að erlendir aðilar myndu seilast til of mikilla áhrifa hér og hirða af okkur bæði eignir og störf. Að erlendar eftirlitsstofnanir og erlendir dómstólar fengju hér allt of mikil völd. Að fullveldinu væri kastað og stjórnarskráin brotin. Háværar kröfur voru uppi um þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka grundvallarbreytingu á stöðu landsins. Þeim kröfum var hafnað af þáverandi stjórnvöldum, sem sögðu þær fráleitar.
En það var auðvitað alveg hárrétt hjá þeim sem bentu á á sínum tíma að samningurinn myndi hafa hér gífurleg áhrif. Samkeppnisreglur, ríkisaðstoðarreglur, fjórfrelsið og vald ESA og EFTA-dómstólsins; allt hefur þetta sett íslenskum stjórnvöldum og fyrirtækjum alls kyns skorður. Samrunar eru bannaðir í krafti samkeppnislaga. ESA fer yfir að orkusölusamningar séu á markaðskjörum og ívilnanir standist Evrópureglur. 44 þúsund erlendir ríkisborgarar eru búsettir hér á landi, langflestir í krafti EES-samningsins. Það er íslensku samfélagi mjög til hróss að fréttir um núning af þessum sökum eru fremur fátíðar.
Og það er EES-samningnum til hróss, að í aldarfjórðung hafa íslensk stjórnvöld aldrei hvikað frá þeirri stefnu að styðja hann og standa vörð um hann, óháð því hvaða flokkar hafa verið við stjórn. Sú ríkisstjórn sem nú situr er þar engin undantekning og hefureinsett sér að efla hagsmunagæslu okkar innan EES og standa vörð um þennan mikilvæga samning. Það verður er eitt af meginverkefnum þessarar ríkisstjórnar.
Annað meginverkefni er að sjá til þess að aðgerðir okkar séu ekki bara í þágu skammtíma-ávinnings heldur í þágu komandi kynslóða. Lækkun skulda er dæmi um slíkar áherslur.
Stofnun Þjóðarsjóðs, sem liggur hér fyrir Alþingi að afgreiða, er annað dæmi um langtímahugsun. Ætlunin er að tekjur ríkissjóðs af nýtingu orkuauðlinda á forræði ríkisins renni í sjóðinn, sem hafi þann tilgang að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta meiriháttar ófyrirséðum áföllum.
Hæstvirtur forseti.
Við stöndum á næstu árum og áratugum frammi fyrir gífurlegum breytingum á atvinnuháttum vegna þeirra fjölbreyttu tæknibreytinga sem saman eru nefndar fjórða iðnbyltingin. Sumir málsmetandi hugsuðir ganga svo langt að spá því að af þessum sökum séu í vændum stórkostlegt atvinnuleysi og meiri stéttaskipting en áður hefur þekkst í mannlegu samfélagi. Ekkert samfélag getur staðið gegn þessum breytingum með því að byggja múra í kringum sig. Valkostirnir eru að verða undir öldunni eða búa sig undir hana, lyfta sér upp á henni og láta hana bera samfélagið afram til aukinnar velmegunar. Þetta gerum við eingöngu með því að efla menntun, nýsköpun, vernd hugverkaréttinda og fjárfestingu. Þannig verðum við í fararbroddi breytinganna, getum séð þær fyrir og búið okkur undir þær. Mótun nýsköpunarstefnu stendur yfir og hún mun gegna lykilhlutverki við að varða veginn í þessum efnum. Stóraukinn stuðningur við rannsóknar- og þróunarverkefni í atvinnulífinu er líka mikil tímamót.
Eins krefjandi og ótal verkefni samtímans eru, þá tel ég að þegar frá líður verði þessi ríkisstjórn ekki síst dæmd af því hve vel henni tekst að búa okkur undir breytta framtíð.
Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að þar séum við á réttri leið.