Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Sterk staða Íslands

Ræða á Framleiðsluþingi Samtaka iðnaðarins, 6. desember 2017.

Kæru fundargestir.

Það er mér heiður að ávarpa fyrsta Framleiðsluþing Samtaka iðnaðarins. Það er vel til fundið hjá samtökunum að efna til þessa þings, því að málefnið er mikilvægt og verðskuldar athygli og umfjöllun.

Á Íslandi fer fram fjölbreytt og umfangsmikil framleiðsla, sem skapar fjölda starfa og mikil verðmæti. Hún er sannarlega einn af burðarásunum í hagkerfi okkar.

Ég er sjálf alin upp í nábýli við iðnaðarsvæðið á Grundartanga, þar sem pabbi hefur starfað frá árinu 1979. Hann rekur þar núna sitt eigið fyrirtæki, sem þjónustar stóriðjuna á svæðinu. Á Akranesi eru svo fleiri þjónustufyrirtæki, sem aftur eiga viðskipti við önnur fyrirtæki, og þær eru því ófáar fjölskyldurnar sem þessi framleiðslustarfsemi snertir með beinum eða óbeinum hætti. Allt hangir þetta saman.

Heimurinn breytist hratt og við þurfum sífellt að vera vakandi fyrir nýjum tækifærum og áskorunum þeirra sem stunda framleiðslu á Íslandi. Það er auðvelt að missa af lestinni ef áherslan er ekki á réttum stað.

Við þurfum meðal annars að spyrja okkur:

  • Hvernig sköpum við framúrskarandi aðstæður fyrir framleiðendur og sterka samkeppnisstöðu?
  • Hvað geta íslenskir framleiðendur gert til að skapa vörum sínum sérstöðu innanlands og utan?
  • Hvað getum við sem þjóð gert til að styðja við ímynd landsins og þar með ímynd þeirra vara sem hér eru framleiddar?
  • Með hvaða móti getum við byggt á okkar sérstöðu, sótt fram og hámarkað virði okkar framleiðsluafurða til lengri tíma, í harðri alþjóðlegri samkeppni?
  • Hvert er hlutverk ríkisins hvað þetta varðar og hvert er hlutverk fyrirtækja og hagsmunasamtaka?
  • Hvernig hafa nágrannaþjóðir okkar nálgast þessi mál, og svo framvegis.

Við höfum sterk spil á hendi, á því er ekki nokkur vafi, en við þurfum að spila rétt úr þeim.

Til marks um sterka stöðu okkar má til dæmis nefna, að verðmæti vörumerkisins „Ísland“ jókst hraðar en verðmæti nokkurs annars þjóðarvörumerkis á milli áranna 2016 og 2017, samkvæmt nýlegri skýrslu breska ráðgjafafyrirtækisins Brand Finance. Þetta fyrirtæki setur verðmiða á lönd sem vörumerki, sem á að endurspegla hversu mikið þyrfti að greiða í iðgjöld fyrir afnot af jafnsterku vörumerki. Þjóðarvörumerkið „Ísland“ er nú 26 milljarða dollara virði, að mati þessa fyrirtækis, en í fyrra hljóðaði verðmatið upp á 14 milljarða dala. Verðmatið hækkaði því um hvorki meira né minna en 83 prósent á milli ára. Í þessu felast að sjálfsögðu mjög mikil tækifæri fyrir alla sem selja Ísland og íslenska framleiðslu.

Brand Finance rekur hina hröðu verðmætaaukningu vörumerkisins „Íslands“ meðal annars til landkynningarinnar sem fólst í sjónvarpsþáttunum „Game of Thrones“. Sjálfsagt er það nokkur einföldun en við vitum þó að skapandi greinar, ekki síst kvikmyndir, bækur og tónlist, eiga stóran þátt í  fjölgun ferðamanna og vitundarvakningu um landið okkar.

Fjölmargt fleira má auðvitað nefna til sögunnar, til að mynda breyttar áherslur við markaðssetningu íslenskra sjávarafurða og landbúnaðar, ásamt útflutningi á íslenskri hönnun og hugviti.

Frá árinu 2010 hafa íslensk stjórnvöld, í nánu samstarfi við Samtök atvinnulífsins, starfrækt Íslandsstofu til að halda vörumerki Íslands á lofti, meðal annars með ívilnunum fyrir kvikmyndaiðnaðinn, en einnig með aðkomu að menningarviðburðum, vörusýningum, almannatengslastarfi, samstarfi við fjölmiðla, markaðsherferðum og fleiru. Allt þetta hefur haft sitt að segja. Allt hangir þetta saman.

Nú liggur það fyrir að Ísland mun á næsta ári fá einhverja mestu landkynningu sem við höfum nokkurn tímann fengið, þegar karlalandsliðið í fótbolta tekur þátt í heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Það er gaman að segja frá því hér, að Íslandsstofa kynnti í gær hugmyndir um hvernig mætti nálgast það verkefni að nýta þetta landkynningartækifæri sem best, með víðtæku samstarfi hagsmunaaðila.

Vilji okkar stendur til þess að fjármunir Íslandsstofu til landkynningar og markaðsstarfs á næsta ári renni að verulegu leyti í verkefni tengd heimsmeistarakeppninni, enda er þar um algjörlega einstakt tækifæri að ræða, sem mun líka hafa áhrif áfram, eftir keppnina.

Á fundi Íslandsstofu kom fram að erlendir markaðssérfræðingar telja að Ísland hafi, með þátttöku okkar á EM í fyrra, fengið pláss í erlendum fjölmiðlum yfir þriggja mánaða tímabil, sem meta má til fjár á um það bil 20 milljarða króna. Heimsmeistarakeppnin er að sjálfsögðu ennþá stærra svið, sem býður upp á ennþá stærri tækifæri.

Þegar kemur að því að markaðssetja og byggja upp ímynd Íslands held ég að tvennt skipti mestu. Í fyrsta lagi að byggja á þeim þáttum sem eru sannir og við eigum raunverulega innistæðu fyrir. Í öðru lagi að tala markvisst og óhikað um þá þætti.

Það var til að mynda merkilegt að hitta sérfræðing í ferðamálum frá Kosta Ríka fyrr á þessu ári, og hlusta á hann lýsa því, að sum af nágrannalöndum Kosta Ríka hafa nákvæmlega sömu styrkleika hvað varðar líffræðilega fjölbreytni og óspjallaða náttúru. Sum þeirra standa jafnvel betur að vígi. En Kosta Ríka hefur tekist að stinga þessa ágætu nágranna sína algjörlega af hvað varðar markaðssetningu á þessum þáttum. Það er ekki nóg að hafa innistæðuna, ef henni er ekki komið markvisst á framfæri þannig að eftir sé tekið.

Sérstaða og ímynd Íslands hlýtur að mínu mati ávallt að verða að miklu leyti samofin náttúrunni, sjálfbærni og endurnýjanlegri orku. Aðeins örfáar þjóðir geta státað af eins háu hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa og Ísland. Sú sérstaða mun þó ábyggilega fara minnkandi eftir því sem aðrar þjóðir ná betri árangri og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í sínum orkubúskap. Tækifærið til að nýta sér þessa sérstöðu er því núna. Það er mikilvægt í þessu sambandi að nýr stjórnarsáttmáli felur í sér enn metnaðarfyllri markmið í þessum efnum en við höfum áður séð, til að mynda um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040.

Aukin vitund á alþjóðavettvangi um einstaka stöðu okkar hvað varðar endurnýjanlega orku, á hæglega að geta orðið lyftistöng fyrir vörur sem framleiddar eru á Íslandi, aukið verðmæti þeirra og eftirspurn eftir þeim.

Eins og ég nefndi stuttlega hér framar, snýst ekki allt um ímynd. Við þurfum líka að bjóða upp á fyrsta flokks skilyrði og starfsumhverfi fyrir framleiðendur, bæði rótgróin fyrirtæki, nýja sprota, og erlend fyrirtæki sem mögulega gætu viljað hasla sér völl hér. Eins og þið líklega vitið eru metnaðarfull áform í stjórnarsáttmálanum um að afnema þak á endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, hlúa að umhverfi sprotafyrirtækja og efla nýsköpun á sem breiðustum grunni. Við sjáum meðal annars fyrir okkur að nota hluta af arðinum af orkuauðlindinni í sérstakt átak í nýsköpun. Uppbygging innviða á borð við samgöngur, raforku og fjarskipti skiptir líka miklu máli fyrir atvinnulíf um allt land.

Þannig reynum við að hafa jarðveginn góðan, þannig að framleiðendur hafi sem best skilyrði til að vaxa og dafna, og styðja á sama tíma við sterka ímynd landsins sem hámarkar eftirspurn eftir framleiðslunni og eykur verðmæti hennar.

Við stöndum frammi fyrir spennandi tækifærum. Þótt landsliðið muni kannski ekki leggja höfuðáherslu á sóknarleikinn þegar við mætum Argentínu næsta sumar, er ég sannfærð um að íslensk framleiðsla og vörumerkið Ísland verður áfram í sókn.

Takk.