Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Tækifæri smávirkjana

Ræða á ráðstefnu Orkustofnunar, 17. október 2019.

Kæru gestir.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér á þessari ráðstefnu um uppbyggingu smávirkjana á Íslandi.

Umræða um smávirkjanir hefur verið vaxandi að undanförnu og því fagna ég að boðað sé til þessarar ráðstefnu til að ræða málefnið út frá ýmsum ólíkum sjónarmiðum, og það er ánægjulegt að sjá þann fjölda sem hér er saman kominn í dag.

Ég tel að það felist margvísleg tækifæri í uppbyggingu smávirkjana á Íslandi og að mörgu leyti sé um vannýtta auðlind að ræða. Ekki bara frá sjónarhóli orkumála heldur líka byggðamála.

Skynsamleg nýting smávirkjana er vel til þess fallin að styðja við sjálfbæran og fjölbreyttan orkubúskap þjóðarinnar, á sama tíma og slík uppbygging hefur í för með sér jákvæð staðbundin áhrif á byggða- og atvinnuþróun. Smávirkjanir geta því verið til þess fallnar að stuðla að jafnvægi á milli umhverfislegra, efnahagslegra og samfélagslegra sjónarmiða.

Staðbundnar lausnir í orkumálum eru eitthvað sem bæði stjórnvöld og sveitarfélög hafa í auknum mæli verið að horfa til. Þar eru smávirkjanir í lykilhlutverki og við getum til að mynda tekið mið af því hvernig uppbygging smávirkjana hefur verið í Noregi undanfarin ár og þau jákvæðu áhrif sem þær hafa haft þar í landi.

Staðbundnar lausnir í orkumálum fela í sér aukið orkuöryggi, betri nýtingu á flutnings- og dreifikerfi raforku og meira jafnvægi í framboði og eftirspurn eftir raforku. Allt eru þetta mikilvægir þættir sem nú er kallað eftir í orkumálum á Íslandi.

Af þessum ástæðum setti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á síðasta ári af stað fimm ára verkefni um smávirkjanir. Það snýr að því að greina möguleika á landsvísu á virkjunum undir 10 megavöttum og staðbundnum lausnum í orkumálum. Orkustofnun var falið þetta verkefni og því fylgdi ákveðið fjármagn á fjárlögum. Verkefnið er einnig tilgreint í fimm ára fjármálaáætlun stjórnvalda sem lögð er fram á Alþingi. Orkustofnun er komin vel af stað með verkefnið og við bindum vonir við framgang þess og að unnt verði að byggja á því til lengri tíma.

Segja má að hægfara þróun hafi verið á undanförnum árum í uppbyggingu smávirkjana á Íslandi. Við höfum samt nokkur frábær dæmi um virkjanir sem reistar hafa verið og haft í för með sér að tiltekin afmörkuð svæði eru nú sjálfbær með sinn orkubúskap, í sátt við menn og náttúru. Má þar til dæmis nefna Húsafell, en hér á eftir fáum við einmitt að fræðast nánar um þá merkilegu virkjanasögu.

Heildstæð kortlagning – ekki bara á landsvæðum heldur líka á regluverki og starfsumhverfi – er nauðsynlegur undirbúningur fyrir frekari uppbyggingu smávirkjana á landsvísu.

Við höfum heyrt af því að virkjunaraðilar kvarta sumir yfir því að leyfisveitingarferlar séu óskýrir og þungir, að ekki sé staðið við lögbundna tímafresti og að ákvarðanir séu kærðar ítrekað og á öllum stigum. Hér er að verki samspil margra þátta, sem snúa meðal annars að skipulagsmálum sveitarfélaga, mati á umhverfisáhrifum, framkvæmdaleyfum, virkjanaleyfum, vatnsréttindum í eigu ríkisins og tengiskilmálum við dreifi- og flutningskerfi raforku.

Þess vegna er mikilvægt að smávirkjanaverkefni Orkustofnunar gefi gott yfirlit yfir þessi mál og að á grundvelli þess verði unnt að leggja mat á hugsanlegar laga- og kerfisbreytingar til að einfalda ferli og auka skilvirkni.

Það er rétt að halda því til haga í þessu samhengi að með smávirkjunum er ekki bara átt við vatnsaflsvirkjanir undir 10 megavöttum heldur líka aðra orkukosti eins og jarðvarma og vindorku sem fela í sér staðbundnar lausnir í orkumálum.

Við gætum reyndar haldið aðra ráðstefnu tileinkaða vindorku og áskorunum og tækifærum í uppbyggingu hennar, en það bíður betri tíma.

Það var fróðlegt að hlusta á þá umræðu um smávirkjanir sem fór fram á Alþingi fyrr á þessu ári, í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakka ESB. Þar var því haldið fram að 100 umsóknir um smávirkjanir, frá sama aðila, væru til meðferðar hjá Orkustofnun. Og ályktað sem svo, að þar væru á ferðinni erlendir aðilar að safna saman í 1.200 MW raforkusæstreng til Bretlands.

Þegar betur var að gáð var staðreynd málsins sú, að tvær umsóknir um smávirkjanir voru í ferli hjá Orkustofnun.

Á árunum 2009 til 2018 voru gefin út 17 virkjanaleyfi fyrir vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl allt að 10 megavöttum, og eru þær flestar á bilinu 0,1 til 3 megavött.

Smávirkjanir á Íslandi eru því enn sem komið er á smáum skala og mikil vannýtt tækifæri til frekari sjálfbærrar nýtingar slíkra orkukosta á landsvísu.

Varðandi umræðuna um 100 smávirkjanir mætti hins vegar alveg velta því upp hvernig hugsanlegar 100 smávirkjanir á Íslandi gætu litið út á korti – og varpa þá til dæmis fram þeirri spurningu hver umhverfisáhrif af þeim yrðu í samanburði við eina Kárahnjúkavirkjun. Og hvaða samfélagslegu, byggðalegu og efnahagslegu áhrif þær myndu hafa, sem og áhrif á orkuöryggi.

Kæru fundargestir.

Það verður fróðlegt að hlýða á þau erindi sem verða flutt hér í dag.

Ég tel mikilvægt að við höldum áfram að greina og útfæra möguleika á auknum staðbundnum lausnum í orkumálum og bregðumst þannig við þeim áskorunum sem blasa við okkur þegar kemur að orkuöryggi, nýtingu á flutnings- og dreifikerfum og jafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar.

Allt eru þetta atriði sem þarf að bregðast við í þeirri langtíma-orkustefnu sem nú er unnið að, og því fagna ég þessari ráðstefnu í dag sem og upplýstri umræðu um smávirkjanir.

Takk fyrir.