Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Tækifæri vindorkunnar og næstu skref

Ræða á málþingi Kvenna í orkumálum um vindorku, 12. nóvember 2019.

Kæru gestir.

Það er afar ánægjulegt að vera með ykkur hér á þessu málþingi um vindorku sem Konur í orkumálum standa fyrir. Fjölmörg tækifæri, og einnig nokkrar áskoranir, blasa við okkur varðandi þetta málefni.

Vindorka hefur mikið verið til umræðu að undanförnu og má til dæmis nefna að í síðasta mánuði fór fram á Alþingi sérstök umræða um vindorku og vindorkuver. Það var að mínu mati góð umræða og á jákvæðum nótum, og það sem stóð upp úr var að almenn samstaða virðist vera á Alþingi um að reyna að finna skynsamlegar leiðir til að nýta betur þau tækifæri sem til staðar eru á sviði vindorku og eyða ákveðinni óvissu sem er uppi á þessu sviði.

Það er minnst á vindorku í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar kemur fram að „setja [þurfi] lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar“.

Hagkvæmni vindorku er að aukast hratt og tækifærin eru því fjölmörg. Þau felast meðal annars í því að vindorku er hægt að byggja upp í áföngum og á styttri tíma og með minna raski en hefðbundna orkukosti.

Þetta hentar vel þeirri stöðu sem er í okkar orkubúskap í dag, sem einkennist af töluverðri eftirspurn eftir auknu rafmagni, meðal annars vegna aukins hraða í orkuskiptum og almennrar aukningar í raforkunotkun hjá heimilum og fyrirtækjum.

Vindorka er hluti af staðbundnum lausnum í orkumálum og getur stuðlað að betri nýtingu á flutnings- og dreifikerfi raforku. Hagkvæmni hennar er að aukast hratt og rekstur vindmylla á Íslandi í tilraunaskyni hefur verið umfram væntingar.

Það er því mín skoðun að skynsamleg uppbygging vindorkunýtingar fari vel saman við vaxandi raforkuþörf samfélagsins og kröfur um bætt orkuöryggi. – En hvernig stuðlum við að skynsamlegri uppbyggingu?

Nú er að störfum starfshópur á vegum þriggja ráðuneyta sem er að skoða hvernig megi einfalda leyfisveitingarferla vegna vindorkunýtingar og hver staða vindorku eigi að vera innan laga um Rammaáætlun. Verkefni starfshópsins var nýlega rætt í ríkisstjórn og starfshópnum hefur verið falið að skila tillögum fyrir lok þessa árs.

Færð hafa verið rök fyrir því að hin hefðbundna málsmeðferð rammaáætlunar eigi ekki vel við um vindorkukosti.  Ástæður þess eru nokkrar:

  1. Sem auðlind er vindurinn nokkurn veginn óþrjótandi, ólíkt öðrum orkukostum, og takmarkast helst af því landrými sem til staðar er til vinnslunnar.
  2. Vindurinn er ekki staðbundinn orkukostur eins og aðrir hefðbundnari virkjunarkostir heldur er hægt að hagnýta hann á flestum stöðum landsins.
  3. Vindorkuver krefjast almennt minni undirbúningstíma en hinir hefðbundnari orkukostir; mun fljótlegra er að reisa slík mannvirki og einnig er hægt að reisa þau í mörgum skilgreindum áföngum til samræmis við eftirspurn.
  4. Tiltölulega auðvelt er að taka niður og fjarlægja slík mannvirki af virkjunarstað sé tekin ákvörðun um að hætta starfsemi.
  5. Vindorkuver hafa almennt í för með sér minna óafturkræft rask en hefðbundnari orkukostir.

Með hliðsjón af framangreindum eiginleikum vindorkunnar má færa rök fyrir því að vindorka sæti annarri málsmeðferð innan Rammaáætlunar en aðrir orkunýtingarkostir – ef hún á þá yfirhöfuð að vera hluti af Rammaáætlun.

Staðreyndin er sú að málsmeðferð vindorkukosta innan Rammaáætlunar er stærsta áskorunin og óvissan sem nú er uppi varðandi framþróun vindorku á Íslandi. Við því þarf að bregðast og verkefnið er að finna skynsamlegustu leiðina að því.

Starfshópurinn hefur haft sérstaklega til skoðunar hvernig staðið er að þessum málum í Noregi og Skotlandi. Í báðum þessum löndum var lagt í umtalsverða vinnu við að kortleggja landsvæði á landsvísu út frá hugsanlegri nýtingu vindorku.

Það er rétt að nefna það hér, að fyrir um hálfum mánuði tilkynntu norsk stjórnvöld að þau væru með sitt fyrirkomulag varðandi kortlagningu landsvæða til endurskoðunar, meðal annars vegna andstöðu sumra sveitarfélaga. Það er því ekki endilega svo að allt sé fullkomið og án átaka í Noregi.

En burtséð frá því þá gengur aðferðarfræði um kortlagningu út frá því að í upphafi eru lögð niður ákveðin viðmið sem horfa beri til varðandi það hvar nýting vindorku er talin óheppileg og hvar hún geti komið til greina. Markmiðið er að heildarsýn, skynsamleg uppbygging á grundvelli góðra upplýsinga, og að sjálfsögðu sem mest sátt.

Fyrrnefndur starfshópur er nú meðal annars að skoða hvernig unnt væri að útfæra samskonar farveg hér á landi, það er að segja á grundvelli kortlagningar landsvæða.

Ljóst er að liggja þarf skýrt fyrir til hvaða þátta og viðmiða ætti að líta við slíka kortlagningu. Dæmi um viðmið, fyrir utan veðurfar augljóslega, gætu verið landslag, dýra- og fuglalíf, sjónræn áhrif og víðerni, nálægð við flutningskerfi raforku, samfélagsleg áhrif, nálægð við byggð, tengsl við friðlýst svæði, flugleiðir og svo framvegis.

Það mætti vel hugsa sér að á grunni slíkra viðmiða, sem þurfa að mínu mati að byggja á ákveðnu jafnvægi milli umhverfislegra, samfélagslegra og kerfislegra þátta, yrði unnið vindorkukort fyrir Ísland og það lagt fyrir Alþingi.

Í framhaldi af því er líka hægt að sjá fyrir sér að það myndu opnast möguleikar á því að einfalda leyfisveitingarferil þeirra kosta sem féllu innan hinna skilgreindu svæða á kortinu. Ein leið væri að líta svo á að frekari aðkoma Rammaáætlunar væri óþörf og viðkomandi kostir gætu þá farið beint í hefðbundið leyfisveitingarferli.

Þetta er auðvitað ekki eini möguleikinn, en markmiðið er að halda faglegum metnaði við ákvarðanatökuna án þess að við séum ofurseld óhóflegum og jafnvel óþarfa töfum.

Varðandi leyfisveitingarferlið að öðru leyti þá hefur auðvitað verið bent á að það er almennt regluverk til staðar í lögum í dag varðandi nýtingu vindorku. Þannig ná skipulagslög utan um skipulagsþáttinn og framkvæmdaleyfi sveitarfélags, lög um mat á umhverfisáhrifum fjalla um þann þátt, raforkulögin taka á virkjanaleyfum og tengingum við flutningskerfi og lög um mannvirki fjalla um byggingarleyfi.

Þótt ýmislegt megi vafalaust bæta í þessu regluverki öllum þá felst óvissan fyrst og fremst í samspili vindorku og Rammaáætlunar.

Starfshópur ráðuneytanna hefur að undanförnu átt samráðsfundi með lykilaðilum á þessum sviði. Ýmsar aðrar hugmyndir í tengslum við vindorku hafa verið nefndar í þeirri vinnu. Til dæmis að vindorkukostir undir ákveðnu viðmiði þurfi ekki að fara í gegnum ferli Rammaáætlunar og að sveitarfélögum verði falið meira forræði varðandi ákvarðanatöku. Þessar hugmyndir og fleiri eru nú til nánari skoðunar og sem fyrr segir á hópurinn að skila af sér tillögum fyrir lok árs.

Ég bind því vonir við að við verðum mjög fljótlega komin með skýrari línur í þessi mál og að skynsamleg framþróun í sjálfbærri nýtingu vindorku á Íslandi strandi ekki lengur á óvissu um hvernig eigi að fara með vindorku með tilliti til Rammaáætlunar, eða öðrum þáttum sem snúa að stjórnvöldum.

Erindin sem við munu hlýða á hér í dag verða gott innlegg í þá vinnu og ég fagna því aftur frumkvæði Kvenna í orkumálum varðandi það að standa fyrir þessu málþingi, einmitt á þessum viðeigandi tímapunkti.

Takk fyrir.