Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Þrjú framfaramál fyrir Akranes

Grein í Skessuhorn, febrúar 2019, ásamt Haraldi Benediktssyni.

Fyrir kosningar 2017 lögðum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins áherslu á nokkur atriði sem skipta einstök byggðarlög Norðvesturkjördæmis miklu máli, en kjördæmið er fjölbreytt og áherslur misjafnar.

Fyrir Akranes voru það einkum þrjú meginatriði sem við lögðu áherslu á: endurbætur á veginum um Kjalarnes, endurbætur á gatnamótum við iðnaðarsvæðið á Grundartanga og loks aðkoma ríkisins að frágangi á Sementsreitnum.

Nú höldum við því ekki fram hér að allt þetta sé í höfn en öll málin eru komin á dagskrá og framgangur þeirra í áætlunum tryggður.

Gatnamót við Grundartanga hafa verið endurbætt en eftir á að ljúka við lýsingu þeirra og frekari frágang sem tryggir virkni þeirra.

Endurbætur á Kjalarnesi eru í samgönguáætlun sem Alþingi er að leggja lokahönd á. Um framgang verkefnisins má margt segja og það kom okkur á óvart að undirbúningur og verkhönnun skyldu ekki vera lengra komin en raun ber vitni. Fyrir því er væntanlega helst sú ástæða að Vegagerðin hefur ekki áður haft slíka vissu fyrir fjármögnun framkvæmda og nú.  Nú er lokahönnun að bresta á og verklok ákveðin 2022. Samgönguráðherra hefur talað mjög skýrt um sinn vilja og stefnu og tökum við undir með honum um að það skiptir máli að það sé á hreinu hvenær þessi brýna framkvæmd verður tilbúin.

Í samgönguáætlun eru einnig fjármunir til endurbóta á sjóvörn við Faxabraut. Sú breyting frá upphaflegri tillögu til samgönguáætlunar er ein af fáum breytingartillögum meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar við samgönguáætlunina. Eins og segir í nefndaráliti meirihlutans er framkvæmdin liður í að flýta því að Sementsreiturinn verði tilbúinn til úthlutunar lóða. Frekari framkvæmdir á Faxabraut eru áætlaðar. Þessi skýri vilji meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar endurspeglar vilja ríkisvaldsins til að verða við áskorunum um aðkomu að því verkefni að græða það sár í bæjarmynd Akraness sem myndaðist við niðurrif Sementsverksmiðjunnar. Því miður var það svo að engin ákvæði voru í samningum um aðkomu ríkisins að frágangi lóðarinnar, sem torveldaði að sjálfsögðu að hægt væri að verða við þeirri sanngjörnu kröfu að leggja því verki lið. En það tókst.

Þessar framkvæmdir eru allar skýrt merki um vilja okkar að efla byggðina á Akranesi og nágrenni enda eiga fá svæði á landinu meira inni í tækifærum til að geta vaxið og dafnað.