Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Upplýsingatækni og gervigreind

Ræða á UT-messu, 8. febrúar 2019.

Kæru gestir.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar á sviði upplýsingatækni. Hugtök á borð við gervigreind og vélrænt nám, sem hljómuðu eins og vísindaskáldskapur fyrir fáeinum árum, birtast okkur nú sem raunveruleiki. Þau eru orðin hluti af daglegu lífi okkar og hafa áhrif á hvernig við vinnum, verslum, ferðumst og eigum samskipti hvert við annað.

Gervigreind hefur verið kölluð „nýja rafmagnið“ – eitthvað sem muni gerbreyta öllum atvinnuháttum í náinni framtíð. Við sjáum nú þegar mikilvæga þróun á sviðum allt frá sjúkdómsgreiningum til framleiðslutækni.

Enn erum við þó aðeins rétt að byrja að skilja hvaða áhrif gervigreind mun hafa á viðskipti, samfélag og menningu. Tæknifrömuðir á borð við Elon Musk hjá Tesla og Sundar Pichai forstjóra Google hafa tekið mjög djúpt í árinni varðandi bæði tækifæri og hættur sem eru samfara gervigreind, og Stephen Hawking varaði okkur við því að hún væri mögulega mesta hörmung sem hent hefði siðmenningu okkar.

Á sama tíma er bent á við notum gervigreind nú þegar til að leysa alls kyns viðfangsefni og að hún muni hjálpa okkur að stórauka framleiðni, verðmætasköpun og heilbrigði.

Það er því risavaxið verkefni að takast á við tækifæri og áskoranir þessarar þróunar og beina henni í rétta átt til að hún þjóni okkur, en ekki við henni.

Það má spyrja hverjir séu möguleikar lands á borð við Ísland þegar kemur að stafrænni væðingu og gervigreind. Ég tel að þeir séu margvíslegir, ef við höldum rétt á spilunum.

Við erum vissulega fámenn þjóð og afskekkt landfræðilega. Hagkerfið er lítið og viðkvæmt fyrir sveiflum, eins og dæmin sanna. Tungumálið okkar er ekki sniðið að stafrænum heimi, eins og við þekkjum öll. En möguleikar okkar gætu einmitt falist í því að snúa öllum þessum sérkennum upp í styrkleika á sviði stafrænnar væðingar.

Við vitum að við keppum ekki við önnur lönd þegar kemur að fjöldaframleiðslu í krafti vinnuafls. En við erum tiltölulega vel menntuð þjóð sem býr við trausta samfélagslega innviði. Við erum opin fyrir tækninýjungum og fljót að tileinka okkur þær. Við eigum að byggja á þessum styrkleikum þegar við leitumst við að auka alþjóðlega samkeppnishæfni okkar með því að bæta bæði menntakerfið og umhverfið fyrir frumkvöðla og athafnafólk.

Tungumálið okkar gerir að verkum að við skynjun mikilvægi þess að styrkja stöðu hvers tungumáls gagnvart þeim rafræna samskiptamáta sem er að verða svo allsráðandi. Á hinn bóginn skiljum við líka mikilvægi þess að kunna fleiri en eitt tungumál. Þessi bakgrunnur okkar er okkur hvatning til að þróa tæknilegar lausnir fyrir tungumál í stafrænum heimi – lausnir sem síðan er hægt að þróa og nýta í þágu fleiri tungumála. Í því sambandi langar mig að nefna að ég átti þess kost á liðnu ári að heimsækja íslenska fyrirtækið Coori í Tókýó, en það er sprotafyrirtæki sem er að þróa hugbúnað sem nýtir gervigreind til að kenna tungumál á netinu.

Ef við lítum á heilbrigðisþjónustu þá er okkur Íslendingum mjög vel ljóst hvílík áskorun það er að veita bestu mögulegu þjónustu á afskekktum svæðum. Á sama tíma höfum við sterka hefð fyrir ítarlegri skráningu gagna, meðal annars heilbrigðisgagna. Slíkir gagnagrunnar gætu falið í sér forskot fyrir okkur á sviði stafrænnar heilbrigðisþjónustu og forvörnum. Íslendingar eru nú þegar að hasla sér völl á þessu sviði og sumir þeirra segja einmitt frá sinni starfsemi hér á UT Messunni.

Við erum ekki rík að kolum eða öðrum jarðefnum en við erum aftur á móti svo lánsöm að búa við hreint loft, hreint vatn og tiltölulega hreina náttúru. Þetta gæti orðið okkur hvatning til að vera í fararbroddi í tækniþróun sem miðar að því að vinna bug á mengun og loftslagsvandanum. Enn og aftur eigum við nú þegar áhugaverð dæmi um þetta, til dæmis þróun hugbúnaðar til að bæta orkunýtni og draga úr losun koltvísýrings.

Hvort sem það er á þessum sviðum eða öðrum verðum við alltaf að hafa að leiðarljósi að vera hvort tveggja í senn: skapandi og gagnrýnin.

Og umfram allt: að halda í heiðri þau mannlegu gildi sem við byggjum samfélag okkar á, virða frelsi allra einstaklinga og friðhelgi einkalífs. Það er ekki nóg að hátæknisamfélagið verði samkeppnishæft á efnahagslegan mælikvarða; það verður að vera í sátt við náttúruna, samfélagið og þau mannlegu gildi sem við höfum sameinast um.

Ég ítreka hamingjuóskir til aðstandenda UT-messunnar með þá viðamiklu og áhugaverðu dagskrá sem hér stendur fyrir dyrum. Og ég hlakka til að halda áfram samtali og samstarfi um að nýta tækifærin, landi og þjóð til heilla.