Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Verkefni dagsins í ferðaþjónustu

Ræða á Ferðaþjónustudegi SAF, 21. mars 2018.

Kæru gestir, til hamingju með ferðaþjónustudaginn.

Yfirskrift dagsins að þessu sinni er að mínu mati sérstaklega vel til fundin. „Fótsporið“ er jú tákn um ferðalag. Og um leið er það tákn fyrir það sem ferðalagið skilur eftir sig – ekki bara í áþreifanlegri merkingu, heldur í miklu víðari skilningi.

Fyrstu fótsporin myndast löngu áður en lagt er af stað. Eftirvæntingin í huga ferðalangsins frá því að hann byrjar að skipuleggja ferðina og byrjar að hlakka til. Og á sama tíma verða til fótspor á áfangastaðnum, við undirbúning allra þeirra fjölmörgu sem munu taka á móti ferðalanginum á einn eða annan hátt.

Flugferðin til og frá Íslandi er líklega stærsta umhverfisspor hvers og eins ferðamanns. Sýnilegri eru þó sporin sem ferðalangarnir geta skilið eftir sig í náttúru landsins, þegar þeir fara þúsundum saman sömu leið um óvarin svæði.

En um leið veita þeir þúsundum manna lífsviðurværi með viðskiptum sínum. Og bæta lífsgæði okkar allra með auknu úrvali vöru og þjónustu, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og víðs vegar um landið. Þótt mörgum finnist orðið svolítið þröngt í laugunum, og leiðist lundabúðir, skulum við ekki gleyma því að Laugavegurinn var bókstaflega að lognast út af fyrir nokkrum árum, og Hverfisgötuna fóru fáir ótilneyddir. En nú er öldin önnur.

Sporin í efnahagslífinu eru djúp og margvísleg. Sterk króna skerðir vissulega samkeppnishæfni útflutningsgreina og gerir það dýrara en ella að reka fyrirtæki á Íslandi samanborið við önnur lönd. En hin hliðin á sama peningi er sú, að neytendur geta keypt vörur erlendis frá fyrir lægra verð en annars væri, verðbólga er minni sem því nemur, og kaupmáttur þar af leiðandi meiri en ella.

Heimsókn ferðalangsins markar einnig langlíf spor í vitund hans sjálfs. Minningarnar lifa og þeim er deilt með fjölskyldu og vinum í samtölum og á samfélagsmiðlum.

Og sú staðreynd leiðir okkur að einu merkilegasta fótspori íslenskrar ferðaþjónustu, en það er ástríðan fyrir gildi náttúruverndar sem við hljótum að vona að vel heppnuð Íslandsferð ýmist kveiki eða styrki í hjörtum þeirra milljóna manna sem heimsækja okkur.

Þetta er jú í auknum mæli það sem ferðamennska snýst um.

Það er sagt að vísirinn að nútíma ferðamennsku hafi verið langferðir evrópskra aðalsmanna um helstu menningarstaði álfunnar, sem komust í tísku á 17. öld, fyrir næstum 400 árum. Þessi ferðalög þóttu öldum saman nánast ómissandi menningarskóli fyrir allt heldra fólk. Tilgangurinn var að sjá með eigin augum sem mest af því besta í evrópskri byggingarlist, myndlist og öðrum helstu afrekum endurreisnartímabilsins.

Á undanförnum áratugum hefur fjöldatúrismi á sólarstrendur verið allsráðandi. Eins og Snjólaug Lúðvíksdóttir grínisti benti á í frábæru uppistandi sem ég sá um helgina, þá spyrja erlendir ferðamenn á Íslandi hvert þeir eigi eiginlega að fara til að hitta Íslendinga … og svarið er: „Prófaðu Tenerife.“

En í dag eru sól og strendur í vaxandi mæli að víkja fyrir ævintýraþrá nýrrar kynslóðar, sem sækist eftir upplifun og náttúru. Og í þeim efnum stendur Ísland vel að vígi.

Góðir gestir, í ræðu minni á þessum sama fundi í fyrra ræddi ég um ferðaþjónustuna sem ævintýri. Ég velti upp þeirri spurningu, hvar við værum stödd í ævintýrinu.

Í dag erum við að fjalla um fótspor. Með hliðsjón af því leyfi ég mér að stinga upp á því, að við séum stödd á þeim stað í ævintýrinu, þar sem verið er að rannsaka hvort fóturinn passar í skóinn.

Við höfum ekki enn fundið rétta fótinn. – Tærnar passa. Jafnvel ristin. En hællinn stendur ennþá út úr. Við höggvum hann þó ekki af, því þetta er ekki blóðugt ævintýri heldur fallegt. En við höldum áfram að máta, prófa, mæla og greina.

Og þetta er einmitt ein helsta áhersla okkar í dag. Að máta, prófa, mæla og greina.

Hjá Stjórnstöð ferðamála er nú unnið að mjög viðamiklu verkefni sem lýtur að því að skilgreina mælikvarða um efnahagslegt, samfélagslegt og umhverfislegt jafnvægisástand í ferðaþjónustu.

Þegar mælikvarðarnir hafa verið skilgreindir, sem verður á þessu ári, verður lagt mat á stöðu hvers og eins þeirra, til að segja til um hvort við séum undir þolmörkum, yfir þolmörkum eða í jafnvægi, á þann tiltekna mælikvarða. Loks verður metið hvort við getum aukið afkastagetuna á þeim sviðum sem eru komin að þolmörkum, og hvað það muni kosta.

Verkfræðistofan Efla er samstarfsaðili okkar í þessu verkefni og hún kemur með fjölda erlendra sérfræðinga að borðinu, meðal annars frá Nýja Sjálandi, sem þykir framarlega á heimsvísu í ferðamálum. Erlendis hafa verið gerðar hliðstæðar greiningar á einstökum landsvæðum, en okkur er ekki kunnugt um neitt svipað verkefni þar sem heilt land er undir.

Í öðru lagi er sérstaklega tekið á rannsóknum í ferðaþjónustu í nýju frumvarpi til laga um Ferðamálastofu, sem verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum. Þar stendur til að fela Ferðamálastofu að greina, í samvinnu við ferðaþjónustuna og rannsóknastofnanir, þörf fyrir rannsóknir á sviði ferðamála, sem meðal annars geti nýst í stefnumótun stjórnvalda.

Í þriðja lagi munum við á næstu dögum leggja fyrir Alþingi vandaða og ítarlega skýrslu um þolmörk ferðamennsku, sem unnin er af skrifstofu ferðamála í ráðuneytinu í samvinnu við utanaðkomandi sérfræðinga.

Þá má ekki gleyma því, að frá því að ég stóð hér fyrir ári er „Mælaborð ferðaþjónustunnar“ komið í loftið á vefnum. Þar liggja nú fyrir margvísleg gögn, ýmist í fyrsta sinn eða miklu aðgengilegri en áður.

Allt þetta – auknar rannsóknir og aðgengilegri gögn – hjálpar okkur að mæla hvort skórinn passar og hvar hann þrengir að, sem er frumforsenda þess að við getum gert viðeigandi ráðstafanir til úrbóta. Að því stefnum við öll.

Við erum öll sammála um að rannsóknir og gögn eru nauðsynleg. En við verðum líka að láta verkin tala, hratt og vel.

Á morgun munum við umhverfisráðherra kynna í sameiningu mjög viðamikla uppbyggingu á ferðamannastöðum, annars vegar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hins vegar á vegum Landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Alls er um að ræða vel yfir 4 milljarða króna af opinberu fé á þremur árum, eða næstum einn og hálfan milljarð á ári, frá og með árinu í ár.

Að baki báðum þessum verkefnum liggur vönduð vinna af hálfu verkefnisstjórnar Landsáætlunar og stjórnar Framkvæmdasjóðsins.

Eins og mörg ykkar vita eflaust gaf ég  Framkvæmdasjóðnum þá leiðbeiningu við meðferð umsókna fyrir úthlutun ársins að leggja aukna áherslu á að fjölga viðkomustöðum ferðamanna með því að styðja við uppbyggingu nýrra segla á fáfarnari svæðum, þótt vinsælir ferðamannastaðir séu að sjálfsögðu ekki undanskildir. Svigrúm sjóðsins hefur aukist með tilkomu Landsáætlunarinnar, sem hefur nú alfarið tekið yfir uppbyggingu á svæðum í eigu ríkisins. Þetta er mikil framför, og með þessari stórfelldu uppbyggingu munum við draga verulega úr neikvæðu fótspori ferðamennskunnar í náttúru viðkvæmra staða, ásamt því að dreifa álagi.

***

Engin spor ferðamennskunnar eru að mínu viti þungbærari en þau, sem aldrei verða stigin eftir slys.

Á þessum fundi fyrir ári skrifuðum við saman undir aukin framlög, bæði ráðuneytis ferðamála og Samtaka ferðaþjónustunnar, til SafeTravel verkefnis Landsbjargar. Því verkefni verður ekki nógu mikið hælt og hrósað enda er það hjartað í öryggismálum ferðaþjónustu í landinu.

Það er stefna mín að halda áfram að leggja þunga áherslu á öryggismál.

Sem málsvari athafnafrelsis hef ég sterka sannfæringu fyrir því að gefa frjálsu framtaki greiðan farveg, einfalda regluverk, lágmarka eftirlit og forðast óþarfa skrifræði.

En – ég hef líka sterka sannfæringu fyrir því að okkur beri skylda til að gera skýrar kröfur þegar kemur að lífi og limum viðskiptavina hins frjálsa markaðar. Kröfurnar verða að sjálfsögðu að vera í eðlilegu samræmi við áhættu.

Öryggi á vegum er sérstaklega mikilvægt viðfangsefni. Samgönguáætlun verður að taka mið af álagi vegna ferðamennsku. Bílstjórar hópferðabíla bera ekki síður ábyrgð á lífi og limum en flugmenn og við verðum að passa að þeir njóti verndar gegn óhóflegu álagi.

Við þurfum að huga vel að öryggi erlendra ferðamanna á bílaleigubílum. Í því skyni hefur ráðuneyti ferðamála nú nýlega óskað formlega eftir áliti frá öllum helstu bílaleigum og tryggingafélögum landsins, um það, hvort við séum að þeirra mati að gera hæfilegar kröfur til þeirra sem leigja hér bíla. Jafnframt er óskað eftir tillögum um hvernig við getum mögulega stuðlað að færri slysum.

Verkefnin eru að sjálfsögðu miklu fleiri. Áfangastaðaáætlanir landshlutanna, eða DMP, eru væntanlegar með vorinu. Þessar staðbundnu áætlanir gegna lykilhlutverki, því að heimamenn eiga að mínu mati að hafa sem allra mest um það að segja hvaða svæði í þeirra eigin héraði verða byggð upp og hvaða svæði verða ekki byggð upp.

Eftir vel heppnað tilraunaverkefni, sem ráðuneyti ferðamála fjármagnaði í fyrra, höfum við ákveðið að bjóða út uppsetningu og rekstur salerna á völdum áningarstöðum Vegagerðarinnar til þriggja ára og lengja þjónustutíma þeirra bæði fyrr fram á vorið og lengur fram á haustið. Þetta mun vafalaust draga nokkuð úr sumum af óvinsælustu fótsporum ferðamennskunnar. Samhliða þessu eru einkaaðilar einnig að byggja upp aðstöðu.

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar kveður á um ýmis verkefni tengd ferðaþjónustu. Leyst verður úr ágreiningi almannaréttar og ferðamennsku. Stutt verður myndarlega við uppbyggingu innviða. Mótuð verður stefna um ferðamannalandið Ísland með sjálfbærni að leiðarljósi. Áform um að setja ferðaþjónustu í almennt þrep virðisaukaskatts eru lögð til hliðar en aðrar leiðir til gjaldtöku verða skoðaðar í samráði við greinina, meðal annars möguleikar á komu- eða brottfarargjaldi. Það samtal er þegar hafið og mun halda áfram. Allir vilja setja punkt aftan við þá umræðu. Almenningur, stjórnvöld og greinin sjálf. En við skulum líka gera okkur grein fyrir því að mögulega verður aldrei settur einn stór lokapunktur aftan við hana, frekar en um flest annað sem máli skiptir í íslensku samfélagi.

Góðir gestir, það er freistandi á öllum tímum að tala um að við stöndum á krossgötum. Stjónrmálamenn og aðrir nota hugtakið „krossgötur“ stundum til að stækka sinn eigin tíma.

Ég tel að íslensk ferðaþjónusta standi á öllum tímum á krossgötum. Við þurfum stöðugt að velja okkur rétta fótfestu. Við getum í raun hrasað í hverju skrefi.

Það sem mestu skiptir er gott og uppbyggilegt samtal stjórnvalda, greinarinnar og samfélagsins um næstu skref.

Á ferðamálaþingi síðastliðið haust kvaddi ég fráfarandi ferðamálastjóra, Ólöfu Ýr Atladóttur. Ég vil því nota þetta tækifæri til að bjóða nýjan ferðamálastjóra, Skarpéðinn Berg Steinarsson, formlega velkominn til starfa.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka bæði Grími Sæmundsen og Helgu Árnadóttur, fráfarandi formanni og fráfrandi framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, fyrir þeirra ötula starf undanfarin ár og mjög gott samstarf.

Grímur og Helga hafa gætt hagsmuna íslenskrar ferðaþjónustu af sannri trúmennsku, fagmennsku og heiðarleika, og ég legg til að við gefum þeim gott klapp.

Á sama tíma hlakka ég til samstarfs við nýkjörna stjórn Samtakanna, og óska sérstaklega nýjum formanni, Bjarnheiði Hallsdóttur, innilega til hamingju með kjörið. Ég hlakka til samstarfs við ykkur öll.

Kæru gestir, stígum næstu skref saman, í sameiningu, í þágu okkar allra: greinarinnar, ferðalangsins og samfélagsins í heild sinni.

Takk.