Ræða við afhendingu FKA-verðlaunanna, 31. janúar 2019.
Kæru FKA konur,
Ég, undirrituð, Hekla Gottskálksdóttir, segi hér með upp starfi mínu í veitingasal Hótel Borgar. Ástæða uppsagnar er ósæmileg framkoma karlkyns kúnna Borgarinnar sem trufla störf mín og einkalíf.
Daginn eftir mæti ég í síðbuxum á Borgina til að afhenda uppsagnarbréfið.
– Heimurinn er ekki eins og þú vilt hafa hann, segir yfirþjónninn.
– Þú ert kona. Sættu þig við það.
Bókin Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur bregður upp áhrifamikilli mynd af stöðu kvenna á Íslandi fyrir rúmlega fimmtíu árum. – „Jafnvægisvogin“ var ekki beinlínis í jafnvægi á þeim tíma.
Söguhetjan Hekla er efnileg ung skáldkona, full af hæfileikum og sköpunargleði sem eru eins og ólgandi kvika í eldfjallinu sem hún heitir eftir. En hún fær ekki að gjósa. Fær ekki að njóta sín á eigin forsendum. Af því að konur eru ekki skáld. Það sem þeim stendur til boða á vinnumarkaði er að láta viðskiptavini klípa sig í veitingasal Hótel Borgar. Og ef þær eru heppnar fá þær að taka þátt í Ungfrú Ísland.
Nú er öldin önnur. Konur hafa tækifæri á flestum ef ekki öllum sviðum: í mennta- og menningarlífi, stjórnmálum og stjórnsýslu, fjölmiðlum, skólakerfi, iðnaði og atvinnulífi.
Á stóra sviði heims-stjórnmálanna er áhugavert að við vorum hársbreidd frá því að helstu leiðtogar hins Vestræna heims væru kvenna-þríeykið Hillary-Merkel-May.
Á undanförnum áratugum höfum við fagnað mörgum sigrum með því að horfa á vaxandi hlutfall kvenna á hinum ýmsu sviðum. Og það er vissulega frábært.
En nú er umræðan að breytast og dýpka. Við sjáum að hausatalningar segja bara hálfa söguna. Það er ekki nóg að konur hasli sér völl á fleiri og fleiri sviðum ef þær njóta ekki líka virðingar.
Niðurlæging, lítilsvirðing og ofbeldi eru þættir sem er verið að draga betur og betur fram í dagsljósið. Það eru kannski mestu framfarirnar í dag.
Við eigum að halda áfram að þroska þá umræðu og auka jafnrétti hvað varðar virðingu kynjanna ekki síður en hlutföll kynjanna. Á sama tíma þurfum við að halda áfram að auka hlutdeild og áhrif kvenna, ekki síst í atvinnulífinu, þar sem karlar halda enn um flesta þræði.
Ég var lengi þeirrar skoðunar að stjórnvöld ættu ekki að lyfta litla fingri til að skipta sér af þeirri þróun, af því að þetta myndi lagast af sjálfu sér. Ég er ekki lengur þeirrar skoðunar.
Félag kvenna í atvinnurekstri á stóran þátt í þeim árangri sem náðst hefur í að auka jafnvægið í atvinnulífinu. Ég vil nota tækifærið og þakka félaginu fyrir sitt mikilvæga framlag, og óska ykkur innilega til hamingju með 20 ára afmælið sem er handan við hornið.
Verðlaunahöfum dagsins óska ég líka fyrirfram til hamingju. Fátt hvetur ungt fólk meira til dáða en góðar fyrirmyndir.
Það er ærið verk fyrir höndum að koma „jafnvægisvoginni“ í ásættanlega stöðu.
Því að heimurinn er ekki eins og við viljum hafa hann, eins og yfirþjónninn benti Heklu á í sögunni.
Og við sættum okkur ekki við það.