Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Auðlindir norðursins

Ræða á lausnamóti Eims, samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, Nýsköpunar í norðri og Hacking Hekla, 15. apríl 2021.

Kæru gestir,

Ég vil byrja á að lýsa yfir mikilli ánægju með þetta framtak hjá Eimi, Nýsköpun í norðri, Hacking Hekla og samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra.

Eins og þið vitið er vefstofan í dag, um auðlindir norðursins, aðeins upphafið að stærri viðburði sem spannar fjóra daga af spennandi dagskrá, þar sem boðið er upp á lausnamót, tengslamyndun og mörg áhugaverð erindi um þau spennandi tækifæri sem Norðurland, og auðvitað Ísland allt, hefur til að auka verðmætasköpun á grundvelli okkar auðlinda.

Ef við setjum aðeins til hliðar þá stóru áskorun sem stjórnvöld og íslenskt samfélag hefur verið að glíma við undanfarna 14 mánuði eða svo, þá finnst mér tvennt standa upp úr í störfum mínum í ráðuneytinu á undanförnum mánuðum, og mig langar að fá að deila því með ykkur hér.

Í fyrsta lagi er það sá mikli fjöldi athafnafólks sem til mín hefur leitað undanfarið, til að kynna fyrir okkur metnaðarfullar hugmyndir sem það er með á teikniborðinu um nýjar framkvæmdir, nýjar fjárfestingar, nýjar lausnir, nýja verðmætasköpun – og oftar en ekki byggja þessar hugmyndir á auðlindanýtingu og lúta að sjálfbærni og grænum tækifærum.

Aðeins brot af þessum verkefnum hefur ratað í opinbera umræðu, en það er óhætt að segja að það eru mörg spennandi verkefni í pípunum, að mínu mati fleiri en verið hefur á undanförnum árum, og þó að aðeins helmingur þeirra eða þriðjungur yrði að veruleika þá myndi það skipta okkur Íslendinga verulegu máli.

Hitt sem mér finnst standa upp úr er sóknarhugurinn í öllum landshlutum, sem ég finn svo skýrt fyrir. Mér finnst samtal okkar í ráðuneytinu við landshlutana vera að aukast, þaðan kemur mjög öflugt frumkvæði, og alls staðar er verið að breikka nálgunina, stækka samtalið, draga fleiri hagsmunaaðila að borðinu, og á einhvern hátt kannski beita nýjum aðferðum og nýjum tækjum til að fá fleiri aðila að sama borðinu fremur en að hver sé í sínu horni.

Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá þessa þróun, ég held að hún sé mjög vænleg til árangurs og mér þykir vænt um að heyra að fólki finnist að stjórnvöld hafi að einhverju leyti stutt við þessa þróun.

Við höfum ekki öll svörin á Skúlagötu 4 í Reykjavík. Vissulega sum svörin, en ekki öll. En það sem við höfum svo sannarlega er vilji og ástríða fyrir því að styðja við bakið á þeim sóknarhug og frumkvæði sem einkennir nú alla landshluta að mínu mati, og greiða götu ykkar með ráðum og dáð – til þess að tækifærin sem ég nefndi áðan geti orðið að veruleika.

Það er í þessu samhengi sem ég gladdist mjög yfir því að vera boðið að ávarpa ykkur í dag.

Þessi ríkisstjórn hefur eins og þið vonandi vitið lagt hvað mesta áherslu á nýsköpun, af öllum málaflokkum. Þó að útgjöld séu vissulega ekki besti mælikvarðinn á störf stjórnvalda þá finnst mér það samt segja ákveðna sögu, að fjárveitingar til nýsköpunar, rannsókna- og þróunar hafa aukist hlutfallsega meira á starfstíma þessarar ríkisstjórnar en til nokkurs annars málaflokks. – Eins og þið vitið er nýjasta dæmið um það stofnun Lóu, sem styðja mun nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni um 100 milljónir króna á ári.

Hvað varðar orku og tækifærin sem tengjast orkumálum má nefna að skömmu fyrir jól var lagt fram frumvarp um tímabundnar ívilnanir til grænna fjárfestinga, sem vænta má að greiði verulega götu grænna fjárfestinga. Frumvarpið bíður nú annarrar umræðu á Alþingi og verður vonandi að lögum.

Ég vil líka nefna „Græna dregilinn“, sem er samstarfsverkefni míns ráðuneytis og Íslandsstofu um að bæta þjónustu við græn fjárfestingarverkefni og ferli slíkra verkefna. Ekki endilega að auka ívilnanir heldur kannski fyrst og fremst að einfalda ferlið, veita skýrari svör og geta boðið upp á valkosti sem einfaldara er að hrinda í framkvæmd en nú er í okkar stóra og mikla regluverki, sem á köflum virðist óþarflega þunglamalegt.

Íslandsstofa stýrir þessu verkefni samkvæmt samningi við ráðuneytið og ég veit að þau hafa átt gott og árangursríkt samtal við atvinnuþróunarfélög og fleiri hagsmunaaðila víða um land, og verið mjög vel tekið.

Einn angi af verkefninu um „Græna dregilinn“ er samstarf við hagsmunaaðila á Bakka um að skoða tækifæri Íslands til að þróa græna iðngarða, eins og þekkjast erlendis. Við leggjum áherslu á að afurðin úr þeirri vinnu nýtist ekki bara á því svæði, þó að það sé nýtt sem eins konar „pilot-verkefni“, heldur verði hægt að nýta niðurstöðurnar hvar á landinu sem er.

Fleiri aðgerðir í orkumálum mætti nefna, til að mynda að frá og með næsta hausti ætti að ná full jöfnun á flutningskostnaði raforku, sem skiptir landsbyggðina að sjálfsögðu miklu máli.

Óneitanlega er síðan einn stærsti áfanginn í orkumálum á þessu kjörtímabili ný og þverpólitísk langtíma-orkustefna fyrir Ísland, sem talar mjög skýrt inn í þær áherslur sem verið er að fjalla um hér í dag. Til dæmis er þar þung áhersla á fjölnýtingu auðlindastrauma.

Kæru gestir, ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég vil ítreka þakkir til allra sem annað hvort skipuleggja eða taka þátt í þeirri metnaðarfullu og áhugaverðu dagskrá sem hér fer í hönd.

Áherslan á matvælaframleiðslu er sérlega viðeigandi og spennandi, því að þar eigum við svo sannarlega stór tækifæri, eins og mig grunar að verði staðfest með áhugaverðum hætti hér rétt á eftir í dagskránni.

Það er óneitanlega áhugaverðara að ræða öll þessi tækifæri til framtíðar en þær hindranir sem við þurfum að glíma við í núverandi ástandi, en mér finnst öll merki í kringum okkur benda í eina átt: Tækifærin eru til staðar, þau eru raunhæf, þau eru raunar nauðsynleg til að auka hér verðmætasköpun og lífsgæði eftir áföll undanfarinna mánaða, og nú er það undir okkur komið að leggjast á eitt við að greiða götu þeirra.

Takk.