Myndir við ræður og greinar eru úr störfum mínum og tengjast ekki endilega umfjöllunarefninu með beinum hætti.

Til hamingju með 40 árin, ELKEM

Ræða á 40 ára afmæli Elkem, 1. júní 2019.

Kæru starfsmenn og stjórnendur Elkem á Íslandi: Innilega til hamingju með fjörutíu ára afmælið.

Eins og þið öll vitið er Járnblendið hér á Grundartanga næstelsta stóriðja landsins, næst á eftir álverinu í Straumsvík.

Með metnaðarfullri starfsemi í fjóra áratugi hefur Járnblendið svo sannarlega sannað gildi þeirrar stefnu sem framsýnir stjórnmálamenn mörkuðu hér á sínum tíma. Stefnunnar um að nýta hinar hreinu orkuauðlindir Íslands til að gera hvort tveggja í senn: skapa arðbær störf og efla orkubúskap Íslands, landsmönnum öllum til heilla.

Það er gleðiefni að við skulum standa á ánægjulegum tímamótum í sögu fyrirtækisins nú á fjörutíu ára afmælinu. Það var heillaskref fyrir alla þá sem hagsmuna eiga að gæta þegar orkusölusamningur Elekm var framlengdur um tíu ár. Á þeim samningi hvíla hundruð dýrmætra starfa hjá fyrirtækinu sjálfu, ótal verðmæt störf hjá tugum birgja og þjónustuaðila, og mikilvægar tekjur fyrir orkusölufyrirtæki sem er í eigu allrar þjóðarinnar.

En stóriðja snýst ekki eingöngu um verðmæt og vel borguð störf, og hún snýst ekki eingöngu um tekjur af orkusölu.

Hún snýst líka um fleira.

Hún snýst um öryggismál, hún snýst um menntamál, hún snýst um umhverfismál, og hún snýst um samfélagsábyrgð.

Stóriðjan á Íslandi rekur skóla fyrir starfsmenn sína. Hún rekur að vísu ekki kvikmyndaskóla, til að fjármagna mótvægi við kvikmyndina „Kona fer í stríð“ með kvikmyndinni „Iðnaðarmaður fær frábæra vinnu og lifir hamingjusömu lífi til æviloka“.

En hún rekur svo sannarlega skóla. Skóla sem gefur starfsfólki stóriðjunnar hlutdeild í árangrinum af störfum þess. – Það er mjög í anda þeirrar pólitísku stefnu sem ég vil reka.

Járnblendið stundar útflutning á vörum, en á sama tíma má segja að þið hafið í gegnum tíðina stundað innflutning á nýjum og góðum siðum í atvinnurekstri, sem síðan hafa gjarnan smitað út frá sér til annarra atvinnugreina og fyrirtækja.

Öryggismálin eru þar líklega efst á blaði en fleira mætti nefna, til dæmis gæðamál og starfsmenntamálin sem ég nefndi áðan.

Í þessum efnum hefur vafalaust oft verið styrkur í því að eiga öflugan, alþjóðlegan bakhjarl. Íslendingum hættir til að vantreysta erlendum aðilum, en ekki má gleyma því að þeir geta oft verið tenging við ferska strauma og nýmæli á alþjóðavettvangi sem eru til bóta og eftirbreytni.

Fyrst og fremst er þó um að ræða framsýni og forystu stjórnendanna hér heima, og samheldni og metnað alls hópsins, sem góð forysta glæðir og eflir.

Gestur, hans nánasta stjórnendateymi, og allt starfsfólkið – eiga heiður skilinn fyrir góðan árangur fyrirtækisins á undanförum árum og áratugum og þann orðstír slíkum árangri fylgir.

Kæru gestir, mig langar til að minna ykkur á áhugaverða staðreynd. Fyrir fáeinum árum gaf McKinsey út hina frægu skýrslu sína um hvernig tryggja mætti heilbrigðan vöxt í íslensku efnahagslífi. Í skýrslunni kom fram að framleiðni vinnuafls í orkugeiranum og í málmframleiðslu var á þeim tíma tvisvar sinnum meiri en í sjávarútvegi og fjármálastarfsemi – og fimm sinnum meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum.

Þetta þýðir að í orkuiðnaði og stóriðju skapar hver vinnandi hönd að jafnaði mun meiri verðmæti en í nánast öllum öðrum atvinnugreinum.

Þetta helgast að sjálfsögðu að miklu leyti af því, að þessi iðnaður kallar á mjög mikla fjárfestingu samanborið við vinnuafl. Með öðrum orðum: Hér er ekki bara fólk að vinna; hér eru líka peningar að vinna; milljarðarnir sem eigendur fyrirtækisins settu í að byggja verksmiðjuna, halda henni við og bæta hana á undanförnum fimmtíu árum.

Hið mikla fé sem eigendur hafa lagt í reksturinn hjálpar hverri vinnandi hönd, sem hér starfar, að skapa meiri verðmæti en hver vinnandi hönd gæti gert upp á eigin spýtur – en það breytir ekki því að það er ástæða fyrir ykkur að hugsa til þess með stolti, að ykkar handtök skila almennt séð mjög miklum afköstum og verðmætum.

Vitaskuld er síðan breytilegt hvernig markaðsaðstæður eru hverju sinni. Ég þarf ekki að segja ykkur að málmframleiðsla hefur búið við frekar erfið ytri skilyrði hin síðustu ár. En það er einmitt við slíkar aðstæður sem fjárfesting fyrirtækisins í hæfu og vel menntuðu starfsfólki skiptir sköpum.

Hér hafið þið starfað í fjörutíu ár, í rauninni alveg ofan í hálsmálinu á höfuðborgarsvæðinu, nánast í beinni útsendingu gagnvart tugum þúsunda nágranna og vegfarenda, almennt í mjög góðri sátt.

Framlag ykkar til þess að bæta lífskjör á Íslandi – með störfum, fjárfestingum, efnahagslegum umsvifum sem fela í sér viðskipti við ótal fyrirtæki, og að ógleymdri þeirri uppbyggingu raforkukerfisins sem starfsemi ykkar gerði mögulega á sínum tíma – þetta framlag er ekki bara mikið heldur stórkostlegt.

Og það er líka jákvætt að vita til þess að við Íslendingar skulum nýta græna orku til að framleiða vörur, sem að öðrum kosti myndu kalla á losun á gríðarlegu magni gróðurhúsalofttegunda, svo sem frá kolum og jarðgasi.

Góðir gestir.

Öll rök hníga að því að uppbygging stóriðju hafi verið heillaspor fyrir Íslendinga. Það staðfesta meðal annars flestar ef ekki allar hagfræðilegar athuganir sem gerðar hafa verið á því.

Ekki er heldur neinn vafi á því að það var heillaspor fyrir umhverfismálin á heimsvísu, að skrúfa í raun fyrir stórfellda losun gróðurhúsalofttegunda, með því að framleiða þennan hluta heimsframleiðslunnar hér á landi, með grænni orku, frekar en að gera það annars staðar með gasi eða kolum.

Þar við bætist sú græna hlið framleiðslunnar, sem ég kom inná áðan.

Ég tel að íslensk stóriðja eigi sóknarfæri á næstu árum til að gera sér mat úr þeirri staðreynd að málmurinn sem kemur frá Íslandi er framleiddur með hreinni orku.

Ef neytendur í heiminum krefjast þess í auknum mæli að málmurinn í vörunum sem þeir kaupa hafi verið framleiddur á sem umhverfisvænastan hátt, þá gefur augaleið að samkeppnisstaða stóriðjunnar á Íslandi styrkist til muna.

Ýmis tækifæri eru til staðar á Grundartanga. Má þar nefna nýtingu glatvarma frá Elkem en mikill hiti myndast við framleiðslu á kísilmálmi með rafmagni í verksmiðjunni. Áætlað er að orkugildi hans sé 35 MW. Stjórnvöld hyggjast koma að því máli með þeim hætti að gera samstarfssamning milli Elkem, Íslandsstofu og Þróunarfélags Grundartanga um þátttöku stjórnvalda að kynningu á því tækifæri sem felast í nýtingu glatvarmans. Staðan á því er að beðið er frekari upplýsinga  varðandi  magn og umfang þess varma sem þarna yrði nýttur.   

Þetta gefur okkur sem „foreldrum auðlindarinnar“ sannarlega tilefni til að ætla að framtíðin geti verið björt fyrir íslenska málmframleiðslu.

Hitt sem gefur okkur tilefni til bjartsýni er framsýni og metnaður sjórnenda fyrirtækisins. Þau hafa sýnt óbilandi trú á mörgum mikilvægum framfaraverkum sem gefa okkur góðar og réttmætar væntingar um ennþá betri árangur í framtíðinni.

Í dag fögnum við fyrst og fremst árangri starfsfólks og stjórnenda Elkem á  Íslandi og ég óska ykkur aftur til hamingju.

Ég ítreka hamingjuóskir mínar til ykkar á þessum góðu tímamótum og óska ykkur, og öllu samstarfsfólki ykkar hér hjá Elkem, alls hins besta í framtíðinni.

Takk.